Hoppa yfir valmynd
9. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Stærsta ólokna verkefni heimsins er að tryggja jafnrétti kynjanna

Ljósmynd frá Mósambík: gunnisal - mynd

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnar því að jafnvægi hafi náðst á milli kynjanna í æðstu stjórn samtakanna. Þetta kemur fram í grein sem birtist í dagblöðum víða um heim í gær í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8.mars.

Í greininni segir Guterres:

„Við stöndum á tímamótum hvað varðar réttindi kvenna. Kúgun og mismunun, sem hefur þrifist í skjóli sögulegs og kerfisbundins ójöfnuðar, er nú opinberuð sem aldrei fyrr. Hvort heldur sem er í Suður-Ameríku, Evrópu eða Asíu, á samfélagsmiðlum, í verksmiðjum eða á götum úti; alls staðar eru konur að krefjast varanlegra breytinga. Þær krefjast þess að hvers kyns kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun verði útrýmt.

Stærsta mannréttindaáskorun heimsins og stærsta ólokna verkefni heimsins er að tryggja jafnrétti kynjanna og efla völd kvenna.

Virkni og málflutningur margra kynslóða kvenna hefur uppskorið árangur.

Fleiri stúlkur sækja skóla en nokkru sinni fyrr. Fleiri konur vinna launaða vinnu og gegna ábyrgðarstöðum í einkageiranum, háskólasamfélaginu, í stjórnmálum og alþjóðlegum samtökum, þar á meðal hjá Sameinuðu þjóðunum. Jafnrétti kynjanna hefur verið lögfest og skaðlegar aðgerðir á borð við limlestingar á kynfærum og barnahjónabönd hafa víða verið bannaðar.

En alvarlegar hindranir standa í vegi fyrir því að leiðrétta sögulegan halla, sem liggur til grundvallar mismunun og misnotkun.

Meir en milljarð kvenna skortir lagalega vernd gegn kynferðislegu heimilisofbeldi. Launamunur kynjanna er 23% á heimsvísu, og allt að 40% í dreifbýli, auk þess sem ólaunuð vinna kvenna er ekki viðurkennd. Að meðaltali er hlutfall kvenna á þjóðþingum fjórðungur og enn lægra í stjórnum fyrirtækja. Án samhæfðra aðgerða munu milljónir stúlkna sæta kynfæralimlestingum á næsta áratug.

Þar sem lög hafa verið sett er oft ekki farið eftir þeim og konur eru oft virtar að vettugi, málflutningur þeirra dreginn í efa og þær smánaðar, þegar þær leita réttar síns. Við vitum sífellt betur að kynferðisleg áreitni og mismunun hefur viðgengist á vinnustöðum, á opinberum vettvangi og á einkaheimilum, jafnvel í löndum sem telja sig hafa náð góðum árangri í jafnréttismálum.

Sameinuðu þjóðunum ber að vera öðrum fyrirmynd

Sameinuðu þjóðunum ber að vera öðrum fyrirmynd í heiminum.

Ég viðurkenni að þetta hefur ekki alltaf verið tilfellið. Frá því ég tók við starfi mínu hef ég ýtt úr vör ýmsum aðgerðum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, í friðargæslusveitum okkar og skrifstofum um allan heim.

Við höfum nú náð jafnvægi á milli kynjanna í æðsta stjórnunarteymi mínu og ég er ákveðinn í að ná sama árangri innan samtakanna í heild sinni. Ég er staðráðinn í að útrýma kynferðislegri áreitni og hef tekið saman áætlanir til að bæta kæruleiðir og auka ábyrgð.

Við vinum náið með ríkjum um allan heim til þess að koma í veg fyrir og taka á kynferðislegri misnotkun og afbrotum starfsfólks í friðargæslusveitum og veita fórnarlömbum stuðning.

Við hjá Sameinuðu þjóðunum stöndum þétt að baki konum um allan heim sem berjast fyrir því að brjóta á bak aftur óréttlæti sem þær mega þola. Hvort sem það eru konur í dreifbýli sem krefjast sömu launa og karlar, konur í borgum sem berjast fyrir breytingum, flóttakonur sem eiga á hættu misnotkun og áreitni eða konur sem þola margt af þessu í senn: ekkjur, frumbyggjakonur, konur með fötlun og konur sem falla ekki inn í hefðbundin kynjahlutverk.

Aukin völd kvenna eru hluti af kjarna Áætlunar 2030 um sjálfbæra þróun – eða svokallaðra Heimsmarkmiða. Árangur í Heimsmarkmiðunum þýðir árangur fyrir konur, alls staðar. Kastljós-frumkvæðið (Spotlight) sem við stöndum að ásamt Evrópusambandinu beinir sjónum sínum að því að útrýma ofbeldi gegn konum og stúlkum, en slíkt er forsenda jafnréttis og valdeflingar kvenna.

Velkjumst ekki í vafa: við erum ekki að gera konum greiða. Jafnrétti kynjanna snýst um mannréttindi, en það er í líka í allra þágu: karla og drengja, kvenna og stúlkna. Ójafnrétti og mismunun gagnvart konum skaðar okkur öll.

Það eru skýr dæmi um að fjárfesting í konum er skilvirkasta leiðin til þess að efla samfélög, fyrirtæki og jafnvel ríki. Þátttaka kvenna styrkir friðarsamkomulög, eykur þolgæði samfélaga og þrautseiglu hagkerfisins. Þar sem konum er mismunað þrífast oft siðir og hefðir sem valda öllum tjóni. Feðraorlof, lög gegn heimilisofbeldi og lög um jöfn laun eru allra hagur.

Á þessu þýðingarmikla augnabliki í réttindabaráttu kvenna, er tímabært fyrir karla að taka sér stöðu við hlið kvenna; hlusta á þær og læra af þeim. Gagnsæi og ábyrgð vega þungt ef tryggja skal að konur njóti hæfileika sinna til fullnustu og er öllum lyftistöng í samfélögum okkar, þjóðfélögum og hagkerfum.

Ég er stoltur af því að vera hluti af þessari hreyfingu og ég vona að rödd hennar haldi áfram að hljóma innan Sameinuðu þjóðanna og um allan heim.“

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum