Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2021 Utanríkisráðuneytið

Þrjár fjölskyldur komnar heilu og höldnu frá Afganistan

Frá móttökutjaldi á Kastrup-flugvelli - myndUtanríkisráðuneytið

Heimflutningi þriggja fjölskyldna sem dvalist hafa í Afganistan er lokið. Fólkið komst frá landinu með flugi sem stjórnvöld í Danmörku og Finnlandi skipulögðu. 

Annars vegar er um að ræða tvær fjölskyldur sem komu hingað til lands nú síðdegis eftir að hafa komist með flugi frá Kabúl í Afganistan til Tbilisi í Georgíu og þaðan til Finnlands. Stjórnvöld í Finnlandi gengust fyrir fluginu. Hins vegar er fjölskylda sem ásamt nokkrum vandamönnum fór með flugi sem dönsk stjórnvöld skipulögðu frá Afganistan. Fólkið flaug í gegnum Islamabad í Pakistan á leið sinni til Kaupmannahafnar og lenti það svo í Keflavík í fyrrinótt. Allir meðlimir fjölskyldnanna þriggja eru ýmist með íslenskan ríkisborgararétt eða dvalarleyfi hér á landi.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins, sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og Helsinki og fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu höfðu milligöngu um heimflutninginn sem dönsk og finnsk stjórnvöld höfðu veg og vanda af og eiga þakkir skildar fyrir.

Fólkið hefur gengist undir skimun vegna COVID-19 og fór það í sóttkví við komuna til landsins.

 

  • Þotan sem flutti fjölskylduna til Kaupmannahafnar - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum