Hoppa yfir valmynd
7. júní 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 266/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 266/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050035

Beiðni […] um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 24. október 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júlí 2017, um að taka umsókn […], sem kveðst vera fæddur […] og vera frá […] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Svíþjóðar. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 30. október 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 6. nóvember 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var hafnað af kærunefnd þann 29. desember 2017. Þann 15. maí 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 22., 24. og 30. maí 2018 og 4. júní s.á.

Krafa kæranda um endurupptöku málsins er byggð á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar sem liggi fyrir í málinu verði frestað á meðan málið sé til meðferðar á ný hjá kærunefnd sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga komi fram að ef meira en 12 mánuðir hafi liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd hafi fyrst borist íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Kærandi telji að hann hafi ekki á nokkurn hátt haft áhrif á málsmeðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hjá íslenskum stjórnvöldum þannig að lengd málsmeðferðarinnar gæti hafa tafist af hans völdum. Kærandi bendir á að þar sem hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 15. maí 2017 og dvalið samfellt hér á landi síðan telji hann að tilefni sé til þess að óska eftir endurupptöku málsins hjá kærunefndinni. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um efnismeðferð umsóknar hans og vísa honum aftur til Svíþjóðar verði felld úr gildi og stofnuninni gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laganna skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum litið svo á að fresturinn í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga byrji að telja þegar kærandi sækir um alþjóðlega vernd og haldi áfram að telja þar til flutningur kæranda til viðtökuríkis hefur farið fram.

Fyrir liggur að kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 15. maí 2017. Þann 24. október 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júlí 2017, um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Svíþjóðar. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 30. október 2017. Þann 6. nóvember 2017 óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun kærunefndar. Beiðninni var hafnað þann 29. desember 2017. Þann 15. maí 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins.

Í ljósi framkominnar beiðni um endurupptöku og þeirrar staðreyndar að ekki var búið að flytja kæranda úr landi óskaði kærunefnd, þann 15. maí 2018, eftir upplýsingum um ástæður tafanna frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun. Þann 18. maí bárust kærunefnd upplýsingar frá Ríkislögreglustjóra í gegnum Útlendingastofnun um að stoðdeild Ríkislögreglustjóra hafi fengið beiðni um framkvæmd á flutningi kæranda þann 5. janúar 2018 en við undirbúning flutningsins hafi komið í ljós að kærandi […]. […] það væri í lagi þeirra vegna að flytja kæranda og flutningur á kæranda til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar væri því áætlaður miðvikudaginn 23. maí 2018.

Í ljósi nýrra upplýsinga í málinu, þ.e. framangreindra upplýsinga frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra, var kæranda, þann 18. maí 2018, veittur frestur til 24. maí sl. til að koma á framfæri andmælum í málinu. Þann 22. maí sl. barst tölvupóstur frá talsmanni kæranda þar sem vakin var athygli á því að flutningur kæranda væri fyrirhugaður þann 23. maí 2018 og óskað eftir því að kærunefnd myndi fresta framkvæmd flutningsins með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að kvöldi sama dags sendi kærunefnd tölvupóst til hlutaðeigandi aðila, þ. á m. til talsmanns kæranda, þar sem greint var frá því að með tilliti til þeirra gagna sem lægju fyrir í málinu teldi kærunefndin að ekki væru forsendur til að taka ákvörðun um frestun framkvæmdar á flutningi kæranda. Seinna sama kvöld bárust andmæli frá kæranda auk fylgigagna, þ.e. […], dags. 15. mars 2018, og endurrit úr […]. Af gögnunum má ráða að kærandi hafi […]. Í andmælum sínum gerir kærandi athugasemd við þá túlkun að […] á hendur umsækjanda um alþjóðlega vernd sé jafnað til tafa umsækjanda á máli í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þær tafir sem hafi orðið á flutningi kæranda megi rekja til þess […]. Kærandi byggir á því að í ljósi framangreinds sé óheimilt að synja honum um endurupptöku og efnismeðferð á þeim grundvelli að hann hafi sjálfur borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er í andmælum áréttuð sú krafa að réttaráhrifum fyrirliggjandi ákvörðunar sé frestað meðan málið sé til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, þannig að stoðdeild Ríkislögreglustjóra geti ekki framkvæmt flutning en ótækt sé að flytja kæranda úr landi áður en frestur til andmæla sé liðinn.

Þann 23. maí 2018 var kærandi fluttur til Svíþjóðar og þann 24. maí 2018 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir í málinu. Þar kemur fram að í ljósi þess að kærunefnd hafi ekki frestað flutningi á kæranda megi ráða að afstaða kærunefndar sé að kærandi beri ábyrgð á töfum á flutningi sínum úr landi. […]. Þá taldi kærandi að refsiskilyrði 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt þar sem kærandi sé ríkisfangslaus.

Kærunefnd bárust frekari viðbótarandmæli í málinu þann 30. maí 2018. Fram kemur að kærandi hafi fengið tilkynningu frá sænskum yfirvöldum þess efnis að til stæði að senda hann til […] á allra næstu dögum. Þá er byggt á því að rík skylda hvíli á […]. Að láta kæranda gjalda fyrir drátt á málsmeðferð sé andstætt reglunni um réttláta málsmeðferð sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt framangreindum ákvæðum sé mikilvægt að hraða málsmeðferð eins og kostur er og byggt er á því að það hafi sérstaklega mikla þýðingu fyrir kæranda að fá skjóta úrlausn á endurupptökubeiðni sinni en málið teljist vart umfangsmikið né flókið. Þá er kærunefnd hvött til þess að hafa meðalhófsregluna í 12. gr. stjórnsýslulaga til hliðsjónar við vinnslu málsins.

Samkvæmt framangreindu óskaði kærandi eftir alþjóðlegri vernd hér á landi þann 15. maí 2017. […].

Þann 31. maí 2018 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um ástæður þess að kærandi var ekki fluttur á tímabilinu 5. apríl 2018, […], til 15. maí 2018 þegar 12 mánaða frestur til flutnings úr landi rann út. Þann 1. júní bárust svör frá Útlendingastofnun þar sem greint var frá því að stoðdeild lögreglunnar hefði ekki fengið […] til þess að flytja kæranda úr landi fyrr en 16. maí 2018. Í ljósi framangreinds var lögreglunni ómögulegt að flytja kæranda úr landi innan tilskilinna tímamarka. Kæranda var veittur frestur til að leggja fram andmæli við þessum nýju upplýsingum til 4. júní 2018. Engar athugasemdir varðandi þetta tiltekna atriði bárust kærunefnd en þann 4. júní sl. framsendi talsmaður kæranda kærunefnd tölvupóst frá […].

Í andmælum kæranda og viðbótarathugasemdum við þau er vísað til þess að réttur kæranda skv. 13. og 18. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotinn við meðferð málsins þar sem hann hafi verið fluttur úr landi áður en frestur til andmæla hafi verið liðinn. Endurupptaka máls frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar kærunefndar en í 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er að finna heimild til handa kærunefnd til að fresta framkvæmd flutnings ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. Kærunefnd taldi að ekki væru forsendur til að beita umræddri heimild í tengslum við flutning á kæranda. Fyrir liggur að kæranda var veittur frestur til 24. maí 2018 til að andmæla nýjum upplýsingum í endurupptökumáli hans. Andmæli bárust kærunefnd þann 22. maí og viðbótarathugasemdir við andmælin þann 24. og 30. maí 2018. Þá var kæranda veittur frekari frestur til að taka afstöðu til nýrra upplýsinga til 4. júní sl. og bárust gögn frá kæranda þann dag. Þar sem úrskurðað er í málinu þann 7. júní 2018 þykir ljóst að kærunefnd tók ákvörðun í málinu eftir að andmælafrestur rann út. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að umrædd ákvæði stjórnsýslaga hafi verið virt í málinu.

Í viðbótarandmælum kæranda þann 30. maí 2018 kemur fram að kærandi hafi fengið tilkynningu frá sænsku lögreglunni um að hann yrði fluttur til […] á næstu dögum. Fyrir liggur í málinu að samþykki Svíþjóðar hafi byggst á d-lið 1. mgr. 18. gr. DRR. Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hafi ekki leitt í ljós gögn sem gáfu tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi væru þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Svíþjóð bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá er hægt að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja umsækjanda áður en 12 mánaða fresturinn leið. Af ofangreindu má ráða að þegar frestur til að flytja kæranda rann út hafi hann […]. Afleiðingar þeirrar atburðarásar voru tafir á flutningi kæranda til viðtökuríkis. Með því að hrinda af stað þessari atburðarás ber kærandi ábyrgð á þeim töfum sem af henni leiddu, enda hefur ekki verið sýnt fram á að viðbrögð stjórnvalda við […] hafi verið óforsvaranleg í ljósi aðstæðna og athafna kæranda. Nefndin telur það ótæka túlkun á 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga að kærandi geti, […], öðlast betri rétt en hann hefði notið ef hann hefði ekki […].

Það er mat kærunefndar í ljósi alls ofangreinds að tafir sem urðu á framkvæmd úrskurðar kærunefndar í máli kæranda séu á ábyrgð kæranda sjálfs. Af því leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga fyrir því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar eru ekki uppfyllt. Kærunefnd telur að það hafi ekki áhrif á þau álitaefni sem til skoðunar eru í þessu máli að meðferð […].

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar frá 24. október 2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

Hvað varðar kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga vekur kærunefnd athygli á því ákvæðið fjallar um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar og mögulega frestun réttaráhrifa vegna kærumeðferðar. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar kveðið upp úrskurð í máli kæranda sem felur í sér endanlega niðurstöðu í máli hans á stjórnsýslustigi. Kemur því ekki til skoðunar að veita frestun réttaráhrifa á grundvelli þessa ákvæðis.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum