Hoppa yfir valmynd
15. maí 2019 Utanríkisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Menntamálaráðherrar Íslands og Japans funda í Tókýó

Frá fundi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Masahiko Shibayama mennta- og vísindamálaráðherra Japans. - mynd

Ísland og Japan standa sameiginlega að alþjóðlegum ráðherrafundi um vísindi norðurslóða á næsta ári og af því tilefni fundaði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra með Masahiko Shibayama mennta- og vísindamálaráðherra Japans í dag. Vilji er til þess að efla tengsl Íslands og Japans á sviði mennta- og vísindamála og var ákveðið á fundinum að hefja vinnu við gerð rammasamkomulags um rannsókna- og vísindasamstarf íslenskra og japanskra háskóla.

„Vísindamálaráðherrar frá ýmsum löndum munu taka þátt í ráðherrafundinum um málefni norðurslóða sem haldinn verður í Tókýó í nóvember 2020. Það er virkilega ánægjulegt að eiga samstarf um fundinn við japönsk stjórnvöld og ég átti góðan og árangursríkan fund með Shibayama samstarfsráðherra mínum hér. Það er brýn þörf á auknu alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og ráðherrafundirnir eru mikilvægur vettvangur fyrir það samtal sem við þurfum til að ná utan um sameiginlegar áskoranir okkar. Við þurfum að þekkja stefnu, áherslur og innviði samstarfsríkja til þess að þróa árangursríka samvinnu á sviði vísinda og rannsókna, ekki síst í samhengi við hlýnun á norðurslóðum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Fyrsti ráðherrafundur um vísindi norðurslóða var haldinn að frumkvæði Bandaríkjanna árið 2016 í Washington. Annar fundur fór fram í Berlín á síðasta ári en hann var skipulagður í samstarfi Þýskalands, Finnlands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Fundurinn í Tókýó verður því þriðji fundur vísindamálaráðherranna um málefni norðurslóða, ASMIII (e. Arctic Science Ministerial 2020).

Í heimsókn sinni til Japans fundaði mennta- og menningarmálaráðherra einnig með Yoko Kamikawa, framkvæmdastjóra norðurslóðanefndar japanska þingsins, Shinako Tsushiya, formanni vinafélags Íslands á japanska þjóðþinginu og heimsótti höfuðstöðvar Sasakawa stofnunarinnar og hafrannsóknarstofnunarinnar OPRI (e. The Ocean Policy Research Institute).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum