Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 81/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 81/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21010007

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. janúar 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […], ríkisborgari Marokkó (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. desember 2020, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 3. september 2020. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 27. október 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. desember 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 4. janúar 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 22. janúar 2021.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á þeirri ákvörðun sinni að fylgja manni sínum til Íslands sem sótti um vernd hér á landi ásamt eiginkonu sinni og börnum.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda vísar hún til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar hvað varðar málsatvik og almennar upplýsingar um heimaríki hennar. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hún sé fædd Marokkó en uppalin í Líbýu sökum þess að fjölskylda hennar hafi neyðst til að flýja Marokkó vegna ofsókna sem faðir kæranda hafi orðið fyrir af hálfu marokkóskra yfirvalda. Kærandi sé með ríkisborgararétt í Marokkó en fjölskylda hennar hafi verið búsett í Líbýu. Kærandi sé þó ekki með gilt dvalarleyfi þar í landi. Kærandi hafi greint frá því að hafa yfirgefið Líbýu vegna slæmra aðstæðna þar og farið til Marokkó í þrjá mánuði í von um betra líf. Fljótlega eftir komuna til Marokkó hafi kærandi sótt um inngöngu í skóla en verið hafnað vegna fordóma að hennar sögn. Kærandi sé ekki frönskumælandi og því fylgi miklir fordómar af hálfu marokkósks samfélags. Kærandi hafi stundað nám í Líbýu en það hafi ekki verið neins virði í Marokkó. Af þeim sökum hafi kærandi ákveðið að yfirgefa Marokkó og farið til Tyrklands og þaðan til Grikklands þar sem hún hafi kynnst eiginmanni sínum. Hann sé fjölkvæntur og sé staddur hér á landi ásamt hinni eiginkonu sinni og börnum. Kærandi hafi greint frá því að þau hafi komið hingað til lands saman sem ein fjölskylda og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd vegna ofsókna í garð eiginmannsins. Mál kæranda hafi hins vegar verið aðskilið frá máli eiginmanns hennar þar sem fjölkvæni sé ekki viðurkennt hér á landi.

Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar er fjallað almennt um ástand mannréttindamála í Marokkó, m.a. stöðu kvenna. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé maki og/eða sambúðarmaki útlendings sem njóti alþjóðlegrar verndar á Íslandi og því eigi hún rétt á vernd samkvæmt ákvæðinu. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hafa kynnst eiginmanni sínum, […], í Grikklandi árið 2019 og hafi þau fljótlega gengið í hjónaband þar í landi að íslömskum sið. Kærandi hafi komið hingað til lands með eiginmanni sínum og séu þau nú farin að huga að barneignum. Kærandi hafi orðið ófrísk eftir umræddan mann í desember 2020 en misst fóstrið skömmu síðar. Að framangreindu virtu þyki ljóst að kærandi teljist vera maki og/eða sambúðarmaki umrædds manns í skilningi 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, sbr. 16. tl. 3. gr. sömu laga, þó svo að hjónaband þeirra hafi ekki lagalegt gildi hér á landi. Eiginmaður kæranda hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi og með vísan til framangreinds beri að veita kæranda sömu réttindi og maka hennar.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Í greinargerð kæranda er byggt á því að hún hafi ríka þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra- og almennra aðstæðna í Marokkó. Horfa verði til þess að kærandi sé stödd hér á landi með eiginmanni sínum og fjölskyldu sem öll hafi hlotið alþjóðlega vernd. Verði kæranda synjað um dvalarleyfi og henni gert að snúa aftur til Marokkó, án eiginmanns síns, sé í raun verið að sundra fjölskyldunni, jafnvel þótt umrætt fjölskyldumynstur sé ekki viðurkennt hér á landi. Slík niðurstaða færi gegn sjónarmiðum um einingu fjölskyldunnar. Þá beri að hafa í huga félagslega stöðu kæranda við komuna til Marokkó sem einstæðri konu, yrði henni gert að snúa aftur án eiginmanns síns. Konur í Marokkó standi oft höllum fæti gagnvart körlum í samfélaginu, einkum hvað varði aðgengi að atvinnumarkaðinum. Kærandi muni því koma til með að eiga í erfiðleikum með að útvega sér atvinnu og þar með að tryggja sér örugga framfærslu. Þá hafi kærandi engin tengsl við Marokkó þrátt fyrir að vera með ríkisborgararétt þar í landi. Hún hafi alist upp í Líbýu og aldrei átt fasta búsetu í Marokkó til lengri tíma. Af þeim sökum sé kærandi ekki frönskumælandi en það sé forsenda þess að unnt sé að aðlagast marokkósku samfélagi. Kærandi hafi orðið fyrir kerfislægri mismunun en henni hafi m.a. verið meinað um inngöngu í marokkóskan skóla á þeim grundvelli að hún væri ekki frönskumælandi. Þar að auki hafi henni verið gert ljóst að nám hennar frá Líbýu væri einskis virði í Marokkó. Draga megi þá ályktun af framburði kæranda að umrædda mismunun og fordóma megi rekja til þess að hún hafi alist upp í Líbýu. Því muni hún koma til með að eiga erfitt með að fóta sig í marokkósku samfélagi. Þá sé fjölskylda kæranda búsett í Líbýu og skorti kæranda því jafnframt allt bakland í Marokkó.

Auk framangreinds er m.a. byggt á því í greinargerð kæranda að almennar aðstæður í Marokkó séu erfiðar. Skortur á ábyrgð vegna ofbeldis gegn konum sé meðal helstu vandamála á sviði mannréttinda. Konur verði fyrir kerfislægri mismunun í marokkósku samfélagi, t. a. m. geti konur einungis erft helming af því sem karlmaður erfi. Þar að auki sé óheimilt að eftirláta konum eignarhald að landi samkvæmt hefðbundnum venjum um erfðarétt. Það megi því segja að mannréttindabrot séu viðvarandi í Marokkó og yfirvöld veiti þegnum sínum takmarkaða vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað afriti af marokkósku skilríki. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað hver hún væri en stofnunin taldi ekki ástæðu til að efast um að hún væri marokkóskur ríkisborgari. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé marokkóskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Marokkó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: 

  • Amnesty International Report 2017/18 – Morocco/Western Sahara (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • CCPR General Comment No. 28: Article 3 (The Equality of Rights Between Men and Women) (UN Human Rights Committee (HRC), 29. mars 2000);
  • CEDAW General Recommendation No. 21: Equality in Marriage and Family Relations (CEDAW, 12. apríl 1994);
  • Family Reunification in Europe (UNHCR, október 2015);
  • Morocco: Covid-19 Overview (John Hopkins University of Medicine, https://coronavirus.jhu.edu/region/morocco);
  • Morocco: Marriage and divorce – legal and cultural aspects (Landinfo, 21. apríl 2017);
  • Morocco: UN expert urges action on anti-discrimination and racial equality commitments (United Nations Human Rights: Office of the High Commissioner, 8. júlí 2019);
  • New Country Partnership Framework between the Kingdom of Morocco and the World Bank Group- 2019-2024 (upplýsingar af vefsíðu Alþjóðabankans (e. The World Bank), vefslóð: https://www.worldbank.org/en/news/factsheet/2019/02/19/morocco-new-country-partnership-framework-2019-2024);
  • Realising the right to family reunification of refugees in Europe (Council of Europe, júní 2017);
  • Social Security Programs Throughout the World: Africa – Morocco (Social Security, september 2019);
  • Summary of stakeholders‘ submissions on Morocco (UN Human Rights Council, 20. febrúar 2017);
  • The “Essential Right” to Family Unity of Refugees and Others in Need of International Protection in the Context of Family Reunification (Frances Nicholson, Consultant for UNHCR, janúar 2018);
  • The Morocco Case Study: Positive Practice Environments (The Global Health Workforce Alliance, 2010);
  • The World Factbook. Morocco (Central Intelligence Agency, uppfært 26. janúar 2021);
  • UNHCR Resettlement Handbook: Chapter 5 – Protection Considerations, and the Identification of Resettlement Needs (UNHCR, júlí 2011);
  • Universal Health Coverage Study Series No. 36 – Morocco’s Subsidized Health Insurance Regime for the Poor and Vulnerable Population: Achievements and Challenges (World Bank Group, 2018);
  • WHO Country Cooperation Strategy at a glance. Morocco (WHO, uppfært maí 2018);
  • World Report 2021 – Events of 2020(Human Rights Watch, 13. janúar 2021) og
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices – Morocco (U.S. Department of State, 11. mars. 2020).

Marokkó er konungsríki með tæplega 36 milljónir íbúa, þar sem konungurinn, Mohammed VI, fer með yfirstjórn ríkisins. Árið 1956 gerðist Marokkó aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1976 gerðist ríkið aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Marokkó gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að stjórnvöld hafi skilvirka stjórn á löggæslustofnunum ríkisins og að lögregla hafi rannsakað ásakanir um mannréttindabrot af hálfu stjórnvalda, svo sem ásakanir gagnvart öryggissveitum. Fram kemur að löggæslunni í landinu sé dreift niður á nokkrar mismunandi stofnanir, þ. á m. ríkislögregluna sem sé undir yfirstjórn innanríkisráðuneytisins. Til staðar sé til að mynda embætti umboðsmanns, sem m.a. hafi sinnt sáttameðferðum í einkamálum og rannsóknum vegna kvartana sem beint hafi verið til hans vegna brota á grundvallarréttindum borgara landsins. Samkvæmt framangreindri skýrslu hafi verið greint frá tilvikum um spillingu á öllum stigum stjórnsýslu landsins. Þá gæti virðingarleysis gagnvart landslögum hjá öryggissveitum landsins. Dómskerfið eigi að vera sjálfstætt en í málum sem snerti öryggi ríkisins eða stjórnarfar þess eða önnur pólitísk mál kunni stjórnvöld að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála.

Stjórnarskrá Marokkó tryggir ríkisborgurum landsins m.a. jafnan rétt til heilbrigðisaðstoðar og menntunar. Samkvæmt vefsíðu bandarísku velferðarstofnunarinnar er jafnframt almannatryggingakerfi við lýði í Marokkó. Þá eigi íbúar landsins m.a. rétt á atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofi og barnabótum. Heilbrigðiskerfi landsins sé bæði ríkis- og einkarekið. Almannatryggingakerfið veitir fátækum og bágstöddum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu hins opinbera. Þá sé lögbundin heilbrigðistrygging hjá opinberum aðilum og einkaaðilum. Samkvæmt gögnum frá Alþjóðabankanum hafi Marokkó, í samstarfi við bankann, sett rammaáætlun fyrir árin 2019-2024 með það að markmiði að styðja við þróun atvinnumála í landinu og m.a. að bæta stöðu þeirra sem séu fátækir og standi höllum fæti í samfélaginu. Meðal verkefna séu þróun og styrking innviða velferðarkerfisins, bætt skráning og aðgengi að þjónustu.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2020 hafi marokkósk yfirvöld samþykkt ný lög árið 2018 sem tryggi konum ríkari vernd gegn ofbeldi, kynferðislegri áreitni og misnotkun. Þá hafi lögunum verið breytt árið 2020 að því leyti að krafa hafi verið gerð til ýmissa stofnana, m.a. saksóknara, hæstaréttar landsins og ráðuneyta, að stofnaðar yrðu sérstakar deildir með það hlutverk að samhæfa aðgerðir yfirvalda í málum er varði ofbeldi gegn konum. Umrædd lög hafi verið gagnrýnd af hálfu frjálsra félagasamtaka vegna óskýrleika þeirra í tengslum við framkvæmd laganna og þá vernd sem lögin eigi að tryggja konum sem tilkynni ofbeldi. Þá sé enn ekki ljóst hve virk lögin séu í reynd. Sjaldgæft sé að gerendur séu ákærðir af lögreglu fyrir kynferðisbrot gegn konum. Í framangreindri skýrslu, auk skýrslu frá samtökunum Human Rights Watch frá 2021, kemur fram að stjórnarskrá landsins tryggi jafnrétti kynjanna, m.a. á sviði borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda, auk efnahagslegra og menningarlegra réttinda, en þrátt fyrir það sé konum mismunað að því er viðkomi eignum og arfi. Þá hafi Marokkó jafnframt fullgilt Samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) þann 21. júní 1993. Talsverð mismunun gegn konum viðgangist þó á vinnumarkaði og hafi þingið samþykkt fyrirmæli um að koma á fót stofnun, Authority for Gender Parity and Fighting All Forms of Discrimination, til að bæta stöðu kvenna. Stofnunin sé þó ekki komin á laggirnar. Samkvæmt skýrslu Landinfo um hjúskap og skilnað í Marokkó frá 2017 kemur fram að viðhorf gagnvart fráskildum konum sé misjafnt milli landshluta, þjóðfélagshópa og fjölskyldna. Skilnaður hafi færst í aukana í Marokkó á undanförnum árnum og sé orðinn viðteknari meðal almennings. Ekki sé óalgengt að fráskildar konur stofni sitt eigið heimili en talið sé að um fimmta hvert heimili sé rekið af einstæðum konum. Fráskildar konur geti leigt eða keypt eigið húsnæði að vild og unnið launaðar vinnur en þurfi þó að takast á við hinn sama krefjandi vinnu- og fasteignamarkað og aðrir Marokkóbúar. Almennt geti einstæðar konur, þ.m.t. fráskildar konur, lifað eðlilegu lífi í Marokkó og séð um eigið heimilishald.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hún hafi þurft að fylgja eiginmanni sínum, […] (hér eftir M) til Íslands eftir að honum hafi borist hótanir á Grikklandi. Eiginmaður hennar njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi og því eigi kærandi jafnframt rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki óttast neitt eða neinn í heimaríki sínu. Þá kvaðst kærandi ekki tilheyra neinum sérstökum minnihlutahópi. Kærandi kvaðst einungis hafa upplifað mismunun í heimaríki af hálfu skólayfirvalda en þau hafi ekki viðurkennt námsgráðu hennar frá Líbýu sökum þess að námsgögnin hafi verið á arabísku en ekki frönsku. Kærandi hafi verið beðin um að láta þýða skjölin yfir á frönsku en hún hafi ekki getað gert það þar sem marokkóska sendiráðið í Líbýu hafi verið sprengt upp og því væri ekki starfandi marokkóskt sendiráð þar í landi. Samkvæmt upplýsingum frá The World Factbook er arabíska hið opinbera tungumál í Marokkó, ásamt tungumálinu Berber. Franska sé þó oft töluð líka, m.a. hjá fyrirtækjum og stjórnvöldum. Þá kemur fram í skýringarriti samtakanna Center for Strategic & International Studies, Morocco‘s Language Politics, að arabíska hafi verið ríkjandi í marokkóska menntakerfinu allt frá árinu 1970. Enska og franska séu þó að verða algengari á sviði vísinda og tækni en arabíska sé algengari á sviði félagsvísinda og láglaunastarfa. Þá kemur fram á vefsíðu EmbassyPages að í höfuðborg Líbýu, Tripoli, sé starfrækt marokkóskt sendiráð. Þá sé einnig skrifstofa ræðismanns Marokkós í borginni Benghazi í Líbýu. Samkvæmt fréttamiðlinum BBC sprakk sprengja fyrir utan sendiráð Marokkó í Tripoli í apríl 2015 en enginn særðist í árásinni. Þrátt fyrir árásina er ekkert sem bendir til annars en að sendiráðið sé starfandi í dag. Kærandi getur því leitað til marokkóska sendiráðsins í Líbýu telji hún vera þörf á því.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í Marokkó sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Jafnframt hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í Marokkó geti ekki eða vilji ekki veita henni vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hún telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Líkt og fram hefur komið hefur kærandi ekki greint frá því að hún óttist ofsóknir eða eigi á hættu að sæta meðferð sem falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún hefði farið til Grikklands árið 2018 og sótt um vernd þar í landi eftir að hafa verið meinuð innganga í líbýskan skóla í Tyrklandi. Kærandi kveðst hafa kynnst M í Grikklandi og þau hafi gengið í hjúskap í mosku að íslömskum sið. Að sögn kæranda hafi þau ekki getað gifst borgaralega, þ.e. á grundvelli grískra hjúskaparlaga, sökum þess að þau hafi ekki átt skilríki. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að þau búi saman hér á landi og séu farin að huga að barneignum. Kærandi hafi orðið ófrísk eftir M en hún hafi misst fóstrið skömmu síðar. Kærandi greindi frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að þar sem hún væri eiginkona M yrði hún að ferðast þangað sem hann færi og að hún gæti ekki yfirgefið hann.

Að mati kærunefndar verður 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga ekki túlkuð með þeim hætti að kona, sem kveðst vera seinni eiginkona maka síns, geti átt rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli ákvæðisins sem maki einstaklings sem hlotið hefur alþjóðlega vernd. Samkvæmt 11. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er tvíkvæni ólögmætt hér á landi en í ákvæðinu kemur fram að eigi megi vígja þann sem sé í hjúskap. Í málinu er óumdeilt að M er nú þegar í hjúskap og nýtur hann alþjóðlegrar verndar hér á landi ásamt eiginkonu sinni og börnum þeirra. Með vísan til þess að M er nú þegar í hjúskap er vafalaust að mati kærunefndar að kærandi geti ekki talist vera maki M í skilningi íslenskra hjúskaparlaga.

Hugtakið sambúðarmaki er ekki skilgreint í lögum um útlendinga. Við mat sitt horfir kærunefnd því til lögskýringasjónarmiða að baki hugtakinu. Almennt er viðurkennt að einstök lagaákvæði skuli skýra með hliðsjón af ákvæðum og efni viðkomandi lagabálks í heild, sem og að gæta skuli samræmis við aðra lagabálka við skýringu lagaákvæða. Því ber að skýra hugtök, sem koma fyrir í mismunandi lagaákvæðum eða lagabálkum, með sams konar hætti eftir því sem við á.

Í ákvæði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, sem fjallar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar, er vikið að ýmsum skilyrðum sem uppfylla þarf til að teljast sambúðarmaki í skilningi laganna. Meðal þess sem kemur fram í ákvæðinu er að hjúskapur eða sambúð þurfi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum og hafa varað lengur en eitt ár. Í ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, sem fjallar um skilyrði til skráningar á sambúð, segir m.a. að tveir einstaklingar sem séu í samvistum og uppfylli hjónavígsluskilyrði hjúskaparlaga geti skráð sambúð sína í þjóðskrá. Meðal hjónavígsluskilyrða, sem vísað er til í framangreindu ákvæði, er 11. gr. hjúskaparlaga sem mælir fyrir um bann við tvíkvæni. Í ákvæði 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er svipuð merking lögð í hugtakið sambúð en þar kemur m.a. fram að með óvígðri sambúð sé átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráðir séu eða skrá megi í þjóðskrá samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Þá horfir kærunefnd til þess að í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur m.a. fram að með ákvæðinu sé tekinn af allur vafi um að brjóti stofnun hjúskapar í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga sé ekki um gildan gerning að ræða og hann veiti þar af leiðandi ekki rétt til dvalarleyfis. Með broti á allsherjarreglu eða meginreglum laga sé átt við gerning sem stofnað hafi verið til í einu landi en sé talinn stríða svo gegn réttarreglum annars lands þar sem beita eigi honum að rétt þyki að virða hann að vettugi.

Við mat sitt horfir kærunefnd m.a. til samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW), sem fullgiltur var af hálfu Íslands þann 18. júní 1985, enda viðurkennt að skýra beri lagaákvæði til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Í 3. gr. samningsins kemur fram að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir á öllum sviðum, sérstaklega á sviði stjórnmála, félagsmála, efnahags og menningar, þ. á m. með lagasetningu, til að ábyrgjast fulla þróun og framfarir handa konum í þeim tilgangi að tryggja að þær geti á grundvelli jafnréttis við karla framfylgt og notið mannréttinda og grundvallarfrelsis. Í skýrslu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um athugasemdir við ákvæði 3. gr. samningsins frá árinu 2000 kemur m.a. fram sú afstaða nefndarinnar að fjölkvæni brjóti gegn mannlegri reisn kvenna. Fjölkvæni feli í sér, að mati nefndarinnar, ótæka mismunun gagnvart konum, auk þess sem það sé ósamrýmanlegt 3. gr. samningsins. Að mati nefndarinnar eigi að afnema fjölkvæni allsstaðar þar sem það sé enn heimilað. Þá kemur fram í álitsskýrslu Nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gegn konum (UN Committee on the Elimination of Discrimination against Women), frá 1994, að fjölkvæni brjóti í bága við 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og hafi jafnframt í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir andlega heilsu kvenna og fjárhagsstöðu þeirra. Í tilskipun Evrópusambandsins nr. 2003/86/EB, um rétt til fjölskyldusameiningar, birtist sama afstaða Evrópusambandsins til fjölkvænis en þar kemur m.a. fram að í þeim tilvikum sem einstaklingur sem nýtur alþjóðlegra verndar eigi þegar maka, sem jafnframt búi með honum á yfirráðasvæði aðildarríkis, skuli hlutaðeigandi aðildarríki ekki fallast á beiðni hans um fjölskyldusameiningu fyrir síðari maka, sbr. 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar.

Fyrir liggur að M kvæntist eiginkonu sinni í heimaríki þeirra og að hann hafi ekki kynnst kæranda fyrr en í Grikklandi árið 2018. Jafnframt liggur fyrir að kærandi og M eru ekki formlega gift samkvæmt grískum lögum en líkt og hér á landi er fjölkvæni ólöglegt í Grikklandi. Kærunefnd horfir til þess að kærandi er heilsuhraust, menntuð og vinnufær og því er ekkert sem bendir til þess að hún sé upp á M komin eða sé ósjálfstæð að öðru leyti. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er það mat kærunefndar að 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga verður ekki túlkuð með þeim hætti að kærandi geti öðlast alþjóðlega vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar sem sambúðarmaki M í skilningi ákvæðisins.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga fyrir alþjóðlega vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir á því að hún hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra- og almennra aðstæðna í Marokkó. Kærandi telji að það brjóti gegn sjónarmiðum um einingu fjölskyldunnar verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis án eiginmanns síns. Kærandi hafi upplifað mismunun í heimaríki þar sem hún tali ekki frönsku, auk þess sem konur verði almennt fyrir kerfislægri mismunun í Marokkó. Þá skorti kæranda allt bakland í Marokkó þar sem fjölskylda hennar sé búsett í Líbýu.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði íslenskra laga til að geta talist vera maki eða sambúðarmaki M. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að eiga foreldra og fjögur systkini. Kærandi kvað föður sinn vera búsettan í Líbýu en að móðir hennar dvelji í Marokkó vegna ferðatakmarkana sem hafi verið settar í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins. Þá eigi kærandi jafnframt ömmu og afa, systur og frændur í Marokkó. Að mati kærunefndar verður því ekki annað ráðið en að kærandi eigi bakland í heimaríki sínu. Þá er ekkert sem bendir til þess að kærandi sé útsettari fyrir mismunun eða muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður sem einstæð kona í Marokkó. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kæranda og mats á trúverðugleika hennar er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Í athugasemdum með 74. gr. segir að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki óttast neitt í Marokkó. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir er jafnframt ekkert sem bendir til annars en að svæðið þar sem kærandi kveðst hafa búið, Kenitra, sé öruggt svæði. Þrátt fyrir að lög á sviði eigna- og erfðaréttar mismuni konum að einhverju leyti verður ekki talið að mati kærunefndar að slík mismunun nái því alvarleikastigi að teljast vera viðvarandi mannréttindabrot í skilningi ákvæðisins. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hennar séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 3. september 2020 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Sindri M. Stephensen                              Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum