Hoppa yfir valmynd
10. mars 2017 Forsætisráðuneytið

Bættur undirbúningur lagasetningar

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun nýjar reglur um undirbúning stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna. Markmiðið er einkum að auka gagnsæi í vinnsluferli frumvarpa, efla samráð milli ráðuneyta og stuðla almennt að vandaðri undirbúningi, sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Breytingarnar endurspegla einnig þá áherslu sem lögð er á vandað mat á áhrifum fyrirhugaðrar lagasetningar í nýjum lögum um opinber fjármál. Þá hefur verið horft til þess hvaða umbætur önnur ríki innan OECD hafa verið að gera á undanförnum árum á undirbúningi lagasetningar.

Helstu breytingar fela í sér að áður en stjórnarfrumvarp er samið kynni viðkomandi ráðuneyti fyrir öðrum ráðuneytum áform um lagasetningu og frummat á áhrifum þeirrar leiðar sem fyrirhuguð er, m.a. mat á áhrifum á jafnrétti kynjanna, sbr. fyrirheit stjórnvalda í því efni. Kveðið er skýrt á um að opið samráð við almenning og hagsmunaaðila um stjórnarfrumvörp á vinnslustigi sé meginregla og eyðublöð og gátlistar uppfærðir. Loks er sérstaklega tekið fram að ráðuneyti skuli láta koma skýrt fram í greinargerð með frumvörpum hvaða breytingar sé fyrirhugað að gera á gildandi lögum, með það fyrir augum að draga megi úr líkum á mistökum.

Breytingarnar endurspegla þá staðreynd að vandaður undirbúningur er tímafrekur. Á móti kemur að sú vinna sem lögð er í áform um lagasetningu og frummat á áhrifum nýtist þegar kemur að sjálfri samningu frumvarps enda verði lagasetningarleiðin ofan á. Einnig endurspegla breytingarnar þann lærdóm að samráð skili hvað mestum árangri þegar það fer fram á fyrri stigum í stefnumótunarvinnu. Þá gerir breytt vinnulag fjármála- og efnahagsráðuneytinu og öðrum ráðuneytum kleift að koma að athugasemdum, til dæmis við mat á áhrifum, í tæka tíð, þ.e. þegar stefnumótun er ekki lokið og áður en samning frumvarps hefst.

Ljóst er að það mun taka nokkurn tíma fyrir nýtt verklag að festast í sessi. Meðal annars þess vegna er gert ráð fyrir undantekningum frá því að kynna áform áður en samning frumvarps hefst, t.d. þegar mál eru brýn. Forsætisráðuneytið mun hins vegar vekja athygli ríkisstjórnar á því ef reglunum hefur ekki verið fylgt eða ef rökstuðning fyrir undantekningu vantar þegar frumvarp er lagt fram í ríkisstjórn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum