Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2014 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra hvatti sveitarfélög til að nýta rafrænt kosningakerfi

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra setti í dag fund hjá Þjóðskrá Íslands þar sem sveitarfélögum var kynnt nýtt kerfi til að nota við rafrænar íbúakosningar. Fundinn sátu fulltrúar allmargra sveitarfélaga en auk þess var hann sendur beint út á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Möguleikar á rafrænum atkvæðagreiðslum voru kynntir fyrir sveitarfélögum í dag.
Möguleikar á rafrænum atkvæðagreiðslum voru kynntir fyrir sveitarfélögum í dag.

Í ávarpi sínu hvatti Hanna Birna sveitafélögin til að nýta þetta tækifæri til þróunar við framkvæmd kosninga. Hún sagði að rétturinn til að kjósa væri ein dýrmætasta eignin í lýðræðisþjóðfélagi og miklu máli skipti hvernig kosningar væru framkvæmdar.

„Íslendingar eru almennt íhaldssamir þegar kemur að kosningum,” sagði ráðherra.

„Við erum vön því að kosningar fari fram á laugardögum, margir líta á kjördag sem hátíðardag, sumir klæða sig upp í tilefni dagsins, fara í kosningakaffi og skrifa í gestabók og loks tekur við löng kosninganótt þar sem við fylgjumst með tölum koma í hús. Það má segja að það ríki ákveðin stemning hjá Íslendingum á kjördegi enda hefur kosningaþátttaka yfirleitt verið mjög góð hér á landi og mun hærri en í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum.“

Ráðherra ræddi síðan um dvínandi þátttöku í kosningum á síðustu árum og hætt væri við áframhaldandi þróun í þá átt ef ekki væri spyrnt við fótum. Sagði ráðherra því ekki úr vegi að huga að öðrum leiðum og hröð tækniþróun á öllum sviðum þjóðfélagsins kallaði á endurskoðun varðandi kosningar. Brýnt væri að þróa rafrænar atkvæðagreiðslur með vandvirkum hætti og hún sagði Íslendinga mjög meðvitaða um mikilvægi kosningaleyndar, öryggisatriði sem þurfa að vera til staðar við kosningar og ekki síður um vandaða og faglega stjórnsýslu þegar kemur að kosningum.

Í lok ávarpsins þakkaði ráðherra þeim sem hafa unnið að því að undirbúa þessa leið og sagði markmið fundarins hafa verið að kynna sveitarfélögunum nýtt kerfi til að nota við íbúakosningar og leita eftir samstarfi við sveitarfélög um tvennar kosningar í tilraunaskyni.

Fundurinn var haldinn í samstarfi innanríkisráðuneytis. Þjóðskrár Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þjóðskrá skrifaði nýverið undir samning við spænska tæknifyrirtækið Scytl um afnot af búnaði til að nota við rafrænar kosningar en kerfi fyrirtækisins hefur meðal annars verið notað í Noregi með góðum árangri.

Að loknu ávarpi ráðherra greindu þau Ástríður Jóhannesdóttir, Bragi Leifur Hauksson og Arnar Pálsson sem sitja í verkefnisstjórn fyrir hönd Þjóðskrár, frá helstu þátttum hins rafræna kerfis og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, hvatti sveitarfélög til að bregðast skjótt við og gera tilraun með rafræna atkvæðagreiðslu á næstu mánuðum.

Möguleikar á rafrænum atkvæðagreiðslum voru kynntir fyrir sveitarfélögum í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum