Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2007 Félagsmálaráðuneytið

Nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir
Frá fréttamannafundi þar sem frumvarpið var kynnt

Frumvarp félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, um breytingu á lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, hefur verið lagt fram á Alþingi. Frumvarpið felur í sér endurskoðun á því greiðslukerfi sem komið var á árið 2006 með lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Markmiðið með frumvarpinu er að koma betur til móts við aðstæður foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna enda hefur reynslan sýnt að fjölskyldur barna með mjög alvarlega og langvinna sjúkdóma eða fatlanir lenda oft í fjárhagslegum erfiðleikum enda eru tækifæri þeirra til tekjuöflunar takmörkuð af verulegri umönnun barnanna.

Frumvarpið gerir annars vegar ráð fyrir vinnumarkaðstengdum greiðslum en lagt er til að foreldri sem hefur verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en að barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun geti átt sameiginlegan rétt með hinu foreldri barnsins á tekjutengdum greiðslum sem nema 80% af meðaltali heildarlauna í allt að þrjá mánuði. Í alvarlegustu tilvikunum er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra á tekjutengdum greiðslum í allt að þrjá mánuði til viðbótar með hinu foreldri barnsins eða samtals í sex mánuði. Áfram er gert ráð fyrir sömu skilyrðum og gilda samkvæmt lögunum og fellur það í hendur framkvæmdaraðila að meta hvort og í hversu langan tíma foreldrið geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum.

Hins vegar er lagt til með frumvarpinu að sá hópur foreldra barna sem þarfnast verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegra og langvinnra sjúkdóma eða fatlana og geta þar af leiðandi ekki verið virkir á vinnumarkaði í lengri tíma njóti almennrar fjárhagsaðstoðar í formi mánaðarlegra greiðslna að fjárhæð 130.000 kr. auk barnagreiðslna. Gert er ráð fyrir að það greiðslukerfi taki við þegar vinnumarkaðstengda kerfinu sleppir og ljóst er að foreldrar mjög alvarlega sjúkra eða fatlaðra barna geti ekki snúið til baka á vinnumarkaðinn vegna verulegrar umönnunar barna sinna. Enn fremur er gert ráð fyrir að foreldrar þessara barna sem þegar eru utan vinnumarkaðar kunni að eiga rétt á þessum greiðslum sem og þeir sem eru ekki virkir á vinnumarkaði þegar barn greinist langveikt eða fatlað enda geti þeir ekki orðið virkir þátttakendur á vinnumarkaði vegna verulegrar umönnunar barna sinna. Miðar frumvarpið við að réttur til almennrar fjárhagsaðstoðar falli niður þegar foreldri uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir greiðslunum eða barnið nær 18 ára aldri.

Skjal fyrir Acrobat ReaderNánari upplýsingar um frumvarpið (PDF, 31KB)

Tenging frá vef ráðuneytisinsFrumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlaga fatlaðra barna, nr. 22/2006Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira