Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 192/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 192/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19020065 og KNU19020066

Kæra […],

[…]

og barns þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. febrúar 2019 kærðu […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 6., 7. og 11. febrúar 2019 um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barns þeirra, […], fd. […], um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, auk 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

K lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 15. júlí 2018. Við meðferð málsins lagði K fram ferðaskilríki, útgefið af ítölskum yfirvöldum með gildistíma til 14. mars 2021. Auk þess lagði K fram ítalskt dvalarleyfisskírteini vegna alþjóðlegrar verndar með gildistíma til 14. mars 2021. Þann 24. júlí 2018 óskaði Útlendingastofnun eftir upplýsingum frá ítölskum yfirvöldum, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari ítalskra stjórnvalda, dags. 24. ágúst 2018, kom fram að K hefði verið veitt dvalarleyfi þar í landi vegna stöðu sem flóttamaður, með gildistíma til 14. mars 2021.

M lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 27. ágúst 2018. Þar sem M hafði fengið útgefið dvalarskjal hjá ítölskum yfirvöldum var þann 10. september 2018 send beiðni um viðtöku M og umsóknar hans um alþjóðlega vernd til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í tilkynningu Útlendingastofnunar til ítalskra yfirvalda, dags. 30. nóvember 2018, kom fram að þar sem þarlend stjórnvöld hefðu ekki svarað viðtökubeiðni stofnunarinnar innan tilskilins frests samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni liti stofnunin svo á að ítölsk yfirvöld hefðu samþykkt beiðnina, sbr. 7. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar.M og K eignuðust barn hér á landi þann […]. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 8. janúar 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 6., 7. og 11. febrúar 2019 að taka ekki umsóknir kærenda og barns þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 12. febrúar 2019 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 26. febrúar 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 7. mars 2019. Fylgigögn bárust degi síðar og viðbótargögn þann 15. mars 2019. Þann 28. mars og 17. apríl sl. leiðbeindi kærunefnd K og M um framlagningu frekari gagna. Kærunefnd bárust ekki frekari gögn.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda kom fram að K hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu. Þá bæru þarlend stjórnvöld ábyrgð á meðferð umsóknar M um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknir þeirra yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a. lið 1. mgr. 36. gr. í tilviki K og c. lið 1. mgr. sama ákvæðis varðandi M, enda fæli flutningur kærenda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Í ákvörðun í máli barns kærenda kom m.a. fram að þar sem móðir þess hefði hlotið alþjóðlega vernd á Ítalíu ætti barnið rétt á vernd þar í landi samkvæmt ítalskri löggjöf. Þá hefðu K, M og barn þeirra ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum og barni þeirra var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Ítalíu.

Í ákvörðunum í málum K og M kom einnig fram að mál þeirra hefðu verið skoðuð með hliðsjón af meginreglunni um einingu fjölskyldunnar og hagsmunum barnsins. Taldi stofnunin að réttindi barns K og M væru tryggð á Ítalíu. Í ljósi aðstæðna á Ítalíu taldi stofnunin jafnframt ljóst að flutningur fjölskyldunnar til viðtökuríkis fæli ekki í sér hættu á að fjölskyldan myndi aðskiljast, sbr. sérviðmið í 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins kom jafnframt fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þess væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Ítalíu.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda er rakið að M hafi komið til Ítalíu árið 2014. Á Ítalíu hafi M kynnst K en hún hafi komið þangað ári síðar og sótt um alþjóðleg vernd. K hafi fengið alþjóðlega vernd þar í landi en M dvalarleyfi. Hvað varðar málsástæður og lagarök byggja kærendur á því að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málum þeirra, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjalla kærendur almennt um og gera grein fyrir inntaki og túlkun á 2. mgr. 36. gr. laganna, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum, fyrri úrskurðum kærunefndar útlendingamála og hugtakinu sérstaklega viðkvæm staða, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Að mati kærenda séu þau og barn þeirra í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Fjölskyldan muni eiga erfitt uppdráttar á Ítalíu.

Á Ítalíu hafi kærendur lifað við erfiðar aðstæður. Þau hafi þurft að þola kerfislæga mismunun sem þrífist gegn umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttafólki. K og M hafi reynt að byggja upp líf á Ítalíu en ekki haft erindi sem erfiði. Þau hafi ekki fengið aðstoð við atvinnuleit, húsnæðisleit, fjárhagsstuðning eða heilbrigðisþjónustu. Þá sé M ekki með gilt dvalarleyfi á Ítalíu og alls óljóst hvort honum verði veitt staða flóttamanns verði hann sendur til Ítalíu. Í komunótum sem liggi fyrir í málinu komi fram að M muni þurfa á aðstoð sálfræðings að halda. Samtökin Medecins Frontieres hafi gagnrýnt þá geðheilbrigðisþjónustu sem standi umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttafólki til boða á Ítalíu. Þjónustan sé ekki í samræmi við þarfir sjúklinga af ólíkum uppruna og þá sé meðferð einstaklinga ekki fylgt nægilega vel eftir. Kærendur telji að staða fjölskyldunnar muni vera verulega síðri en staða almennings á Ítalíu og að endursending þangað muni hafa slæmar afleiðingar fyrir þau. Þá hafi aðstæður þeirra breyst verulega síðan þau dvöldu á Ítalíu en þau hafi eignast barn hér á landi […]. Einnig hafi K greinst með […]. Kærendur vísa til úrskurðar kærunefndar nr. 242/2018 sem kunni að eiga við um mál þeirra.

Kærendur taka fram að þau séu með ungabarn á framfæri og þá glími M við andleg veikindi. Jafnframt sé dvalarleyfi hans á Ítalíu útrunnið og óljóst hver staða hans sé. Úthlutun dvalarleyfa á Ítalíu sé ábótavant, en t.d. sé gert ráð fyrir því að viðtakandi hafi skráð heimilisfang. Flestir þeir sem hlotið hafi vernd á Ítalíu hafi ekki fast heimilisfang. Þá geti endurnýjun dvalarleyfis tekið nokkra mánuði. Hvað varði umsóknir um fjölskyldusameiningu þá feli þær í sér flókið ferli og óljóst sé hvort fjölskyldan komi til með að geta sameinast á grundvelli reglna um slíka sameiningu. Samkvæmt upplýsingum frá ítölskum yfirvöldum virðist sem umsóknarferlið sé byggt upp á þeirri forsendu að umsækjandi sé staðsettur utan Ítalíu á meðan umsókn um fjölskyldusameiningu sé til meðferðar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barns kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn í máli M og K. Meðal annars er um að ræða viðtöl við þau hjá Útlendingastofnun. Barn kæranda er fætt […] og eðli málsins samkvæmt hefur viðtal við það því ekki farið fram. Það er þó mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að ekki séu forsendur til annars en að ætla að hagsmunum M, K og barns þeirra sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða barnsins verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Barnið er í fylgd foreldra sinna og m.a. í því ljósi verður tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli K var henni veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu og hefur hún dvalarleyfi þar í landi til 14. mars. 2021 sem að mati kærunefndar felur í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Skilyrði ákvæðisins eru því uppfyllt.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Ítalíu á umsókn M er byggð á því að ítölsk yfirvöld hafi ekki svarað beiðni íslenskra stjórnvalda um viðtöku á kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd innan frests, sbr. 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja ítölsk stjórnvöld um að taka við M, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hvað varðar stöðu barns K og M vísar kærunefnd til 3. mgr. 20. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kemur m.a. fram að staða ólögráða barna, m.a. þeirra sem fædd eru eftir að umsækjandi kemur á yfirráðasvæði aðildarríkis, skuli vera óaðskiljanleg stöðu umsækjandans ef hann uppfyllir skilyrði skilgreiningar um aðstandanda. Því heyri staða barnsins undir það aðildarríki sem ber ábyrgð á meðferð umsóknar aðstandandans jafnvel þótt ólögráða barnið sé ekki umsækjandi sjálft, að því gefnu að það samræmist hagsmunum þess. Þá þurfi ekki að hefja nýja málsmeðferð varðandi umsjá þess.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar um að ítalska ríkið beri ábyrgð á meðferð umsóknar M um alþjóðlega vernd samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laganna telur nefndin að staða barnsins heyri einnig undir það ríki, enda gefa gögn málsins ekki til kynna að það samræmist ekki hagsmunum barnsins, sbr. til hliðsjónar dómur Evrópudómstólsins í máli C-661/17 frá 23. janúar 2019 (87.-90. mgr. dómsins). Hefur kærunefnd jafnframt í því sambandi litið til þess að slík niðurstaða sé í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar enda hefur K rétt til dvalar á Ítalíu sem handhafi alþjóðlegrar verndar þar. Er því heimilt að krefja Ítalíu um viðtöku á barni M og K, sbr. 3. mgr. 20. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

K og M eru par sem komu hingað til lands í júlí og ágúst sl. K eignaðist barn á Íslandi þann […] sem samkvæmt gögnum málsins hefur heilsast ágætlega eftir fæðingu. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum um heilsufar K og M að líkamlegt ástand þeirra sé með ágætum en K sé þó að enn jafna sig eftir […]. K hafi þá greinst með […]. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindu K og M bæði frá erfiðri reynslu, m.a. hvað varðar flótta á heimaríki. Kvaðst K m.a. fá martraðir, glíma við ásæknar hugsanir og vera hrædd við að vera ein.

Hvað M varðar þá liggur m.a. fyrir vottorð sálfræðings, dags. 28. janúar 2019. Í því kemur m.a. fram að kærandi hafi lýst […]. Sálfræðingurinn hafi ekki framkvæmt formlega greiningu á kæranda en það sé þó mat hennar að einkenni kæranda séu mjög alvarleg og hamlandi. Mikilvægt sé að kærandi […] fái áframhaldandi stuðning og þurfi mjög líklega á […].

Kærunefnd telur ljóst að gögn málsins beri með sér að M glími við andleg veikindi og er það mat sálfræðings að einkenni hans séu alvarleg, þrátt fyrir að engin formleg greining hafi farið fram. Þá sé ástand M þess eðlis að brýnt sé að hann fái áframhaldandi sálfræðiþjónustu til að fá lausn meina sinna. Í því ljósi og með hliðsjón af ungum aldri barns kærenda telur nefndin að fjölskyldan í heild hafi sérþarfir sem rétt sé að taka tillit til við meðferð málsins og því séu þau í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður á Ítalíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2017 (European Asylum Support Office, 18. júní 2018),
  • Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, apríl 2019),
  • Concluding observations of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 17. febrúar 2017),
  • ECRI Report on Italy (European Commission against Racism and Intolerance, 7. júní 2016),
  • Freedom in the World 2018 – Italy (Freedom House, 5. apríl 2018),
  • Information note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (Elena, European legal network on asylum, október 2015),
  • Italy 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019),
  • Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016),
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights’ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014),
  • UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013),
  • Upplýsingar af vefsíðu ítalska flóttamannaráðsins (í. Consiglio Italiano per I Rifugiati - http://www.cir-onlus.org/en/),
  • Is Mutual Trust Enough – The situation of persons with special reception needs upon return to Italy (Danish Refugee Council, febrúar 2017);
  • Mutual Trust is Still Not Enough – The Situation of persons with special reception needs transferred to Italy undir the Dublin III Regulation (Danish Refugee Council og Swiss Refugee Council, desember 2018);
  • Upplýsingar af vefsíðu OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (http://hatecrime.osce.org/italy),
  • Circular letter nr. 1. 2019, sent til íslenskra stjórnvalda 8. janúar 2019 og,
  • World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Samkvæmt ofangreindum gögnum eru dvalarleyfi einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns og einstaklinga með viðbótarvernd gefin út til fimm ára. Unnt er að endurnýja leyfin að fimm árum liðnum en biðtími eftir slíkri endurnýjun getur verið langur. Þá geta einstaklingar sem hafa dvalið á Ítalíu í fimm ár sótt um ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns geta öðlast ríkisborgararétt að fimm árum liðnum en einstaklingar með viðbótarvernd að tíu árum liðnum. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns fá flóttamannavegabréf (í. documenti di viaggio) með fimm ára gildistíma en handhafar viðbótarverndar geta fengið svonefnt ferðaleyfi (í. titolo di viaggio). Af framangreindum gögnum verður þó ekki séð að á Ítalíu sé munur á réttindum einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns og handhafa viðbótarverndar hvað snertir aðgang að húsnæði, heilbrigðisþjónustu og atvinnuleyfi.

Í framangreindum gögnum kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd eru sendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geta þeir lagt fram umsókn hjá lögreglunni (í. Questura) eða hjá landamæralögreglunni (í. Polizia di Frontiera) hafi þeir ekki áður lagt fram umsókn þar í landi. Fái umsækjendur um alþjóðlega vernd synjun á umsókn sínum þá hafa þeir kost á því að bera synjanirnar undir stjórnsýsludómstól (í. Tribunale Civile).

Af þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu hafi í talsverðum mæli hlotið dvalarleyfi þar í landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt þarlendum lögum, en slíkt leyfi komi til viðbótar alþjóðlegri vernd. Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi verið gefin út til tveggja ára í senn og verið endurnýjanleg að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í gögnunum er þess m.a. getið að í kjölfar nýlegra breytinga á þarlendum lögum á Ítalíu hafi dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða verið afnumin og nýr flokkur dvalarleyfa fyrir sérstaka vernd (e. special protection) verið kynntur í þeirra stað. Þá er þess m.a. getið að útgefin dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða verði ekki endurnýjuð af ítölskum stjórnvöldum. Leyfi vegna sérstakrar verndar gildi í eitt ár, veiti aðgang að ítalska vinnumarkaðnum og séu endurnýjanleg að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Af framangreindum gögnum má sjá að ítölsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að í ítalska hæliskerfinu sé ekki skimað kerfisbundið eftir því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera viðkvæmir einstaklingar. Hins vegar getur greining á þolendum pyndinga eða alvarlegs ofbeldis átt sér stað á öllum stigum umsóknarferlisins um alþjóðlega vernd.

Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á gistirými í móttökumiðstöðvum. Samkvæmt lagabreytingu, sem tók gildi í desember 2018, eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd sem sendir eru til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar rétt á þjónustu og gistirýmum í ítölskum móttökumiðstöðvum, CARA (í. Centro di accoglienza per richiedenti asilo) og CDA (í. Centro di accoglienza). Ef engin pláss eru til staðar í móttökumiðstöðvum eru til staðar gistirými í móttökumiðstöðvum sem nefnast CAS (í. Centro di accoglienza straordinaria). CAS miðstöðvarnar eru einungis ætlaðar til tímabundinnar dvalar en vegna mikils fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu nýtur meiri hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd eingöngu þjónustu í CAS miðstöðvunum. Aðstæður þar hafa verið gagnrýndar, m.a. þar sem einhverjar miðstöðvar séu lítið kyntar og þar verði vart við skort á heitu vatni og rafmagni. Gögn málsins benda þó til þess að aðrar miðstöðvar veiti góða aðstöðu og þjónustu fyrir þá sem þar dvelja. Þá kemur fram í gögnum málsins að sveitarfélög, frjáls félagasamtök og trúfélög í Róm og Mílanó bjóði upp á gistiaðstöðu en þau séu einnig af skornum skammti.

Samkvæmt framangreindum gögnum kemur fram í ítölskum lögum að eining fjölskyldunnar skuli tryggð í móttökumiðstöðvum. Því sé óheimilt að aðskilja börn frá foreldrum sínum í móttökumiðstöðvum. Þó kemur fram í ársskýrslu Asylum Information Database að dæmi þekkist um að feður fái ekki úthlutað gistirými með fjölskyldu sinni en fái þess í stað úthlutað plássi í öðrum álmum eða öðrum móttökumiðstöðvum ásamt öðrum karlmönnum. Mæður og börn séu þó almennt hýst saman.

Samkvæmt lagabreytingu á Ítalíu frá því í desember 2018 heita búsetuúrræði sem áður hétu SPRAR og voru aðgengilegar umsækjendum um alþjóðlega vernd nú SIPROIMI (e. System for the Protection of Beneficiaries of International Protection and Unaccompanied Foreign Minors) og eru eingöngu ætlaðar þeim sem eru handhafar alþjóðlegrar verndar, fylgdarlausum börnum og þeim sem hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og mega þessir einstaklingar dvelja í úrræðunum í allt að sex mánuði. Samkvæmt gögnum málsins geta fjölskyldur fengið flutning úr CAS móttökumiðstöð í SIPROIMI úrræði þegar einn af fjölskyldumeðlimunum hefur fengið alþjóðlega vernd. Aftur á móti eru ekki nógu mörg SIPROIMI úrræði til að mæta þeim fjölda sem hefur fengið alþjóðlega vernd. Eftir að einstaklingur hefur hlotið alþjóðlega vernd hefur hann ekki rétt á því að dvelja áfram í móttökuúrræðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Á grundvelli framangreindra skýrslna og gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér verður jafnframt ráðið að umsækjendur um alþjóðlega vernd og handhafar slíkrar verndar á Ítalíu eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá aðgang að ítalska vinnumarkaðnum tveimur mánuðum eftir að þeir hafa lagt fram umsókn sína. Þó kemur fram í framangreindum gögnum að atvinnuleysi á Ítalíu hafi verið mjög mikið á undanförnum árum og erfitt hafi reynst fyrir marga, bæði ítalska ríkisborgara sem og umsækjendur um alþjóðlega vernd, að finna atvinnu.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast.

Eins og áður hefur komið fram eru kærendur par með ungt barn. Framangreindar skýrslur og gögn málsins bera með sér að þótt úrræði séu til staðar á Ítalíu sem veita einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar stuðning, t.a.m. í formi húsnæðis, benda gögn málsins ekki til þess að einstaklingar geti fengið aðgang að slíkum úrræðum án tafar. Við endurkomu til Ítalíu mun K því að líkindum þurfa að framfleyta sér á eigin spýtur en hún hefur heimild til að stunda atvinnu þar í landi. Þó kemur fram í gögnum málsins að handhafar alþjóðlegrar verndar eigi sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til félagslegrar aðstoðar frá ítalska ríkinu. Í framkvæmd hafi handhafar þó mætt hindrunum við að verða sér úti um þann stuðning, m.a. vegna tiltekinna skilyrða um búsetu á Ítalíu. Vegna stöðu M, sem ítölsk stjórnvöld bera ábyrgð á skv. Dyflinnarreglugerðinni, telur nefndin að hann geti átt rétt á framfærslu frá þarlendum stjórnvöldum sér til lífsviðurværis þar til hann fengi aðgang að vinnumarkaðnum eftir tilgreindan biðtíma.

Í skýrslum sem nefndin hefur skoðað og áður hefur verið greint frá kemur fram að mikið álag er á ítalska kerfinu um alþjóðlega vernd.

Eins og að framan greinir er staða K og M mismunandi enda hefur K hlotið alþjóðlega vernd á Ítalíu en M er umsækjandi um slíka vernd. Í skýrslum um aðstæður í Ítalíu kemur fram að einstaklingar sem hafa fengið alþjóðlega vernd eiga ekki rétt á því að dvelja í búsetuúrræðum sem eru ætluð umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þótt gögnin bendi til þess að ítölsk stjórnvöld reyni að tryggja að fjölskyldur fái úthlutað saman gistirými í móttökumiðstöðum liggur fyrir að dæmi séu um að feður séu aðskildir frá fjölskyldu sinni og þeim úthlutað gistirými meðal annarra karlmanna, stundum í öðrum móttökumiðstöðvum. Engar upplýsingar liggja fyrir um hvernig þessu er farið að því er varðar fjölskyldur þar sem einn fjölskyldumeðlimur hefur hlotið alþjóðlega vernd. Í ljósi þess og aðgangi að búsetuúrræðum fyrir einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar, sem áður hefur verið fjallað um, telur nefndin vafa leika á um hvort fjölskyldan muni eiga sameiginlegan dvalarstað við komuna til Ítalíu. Við mat á hagsmunum barns kærenda verður að líta til þess sjónarmiðs sem fram kemur í 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga um að fjölskyldur séu ekki settar í aðstæður þar sem dvalarstaður fjölskyldunnar sé ekki sá sami. Þá telur nefndin óljóst hvort K, sem þarf að annast mjög ungt barn, geti að öllu leyti eða að hluta til axlað ábyrgð á að sjá fjölskyldunni farborða á Ítalíu með þátttöku á vinnumarkaði. Að öllu framangreindu virtu og með vísan til hagsmuna barnsins er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli K, M og barns þeirra og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kærenda og barns þeirra til efnismeðferðar hér á landi. 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda og barns þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s applications for international protection in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Hilmar Magnússon                                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum