Hoppa yfir valmynd
30. maí 2018 Innviðaráðuneytið

Framtíðarfundur um málaflokka samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins

Svipmynd frá framtíðarfundinum. - mynd

„Mikilvægt er að skilja hvaða þættir hafa áhrif á samfélagið og greina helstu stefnur og strauma á næstu árum“, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í upphafi framtíðarfundar sem hann bauð til í dag undir heitinu Mótum framtíðina saman. Markmið fundarins var að fá skapandi umræðu um framtíðarsýn og áherslur í samgöngum, fjarskiptum og sveitarstjórnar- og byggðamálum.

„Saman lærum við hvert af öðru hér í dag og verðum sterkari saman,“ sagði Sigurður Ingi en til fundarins var boðið aðilum úr atvinnulífinu og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga sem eiga það sameiginlegt að hafa þekkingu og skoðanir á málefnum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Ráðherra sagði fundinn vera lið í því að kortleggja þær áskoranir sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér, taka þátt í umræðum og fá innlegg frá fundargestum sem verða nýtt í stefnumótun í málefnum ráðuneytisins.

Í upphafi dagskrár spáðu í framtíðina þau Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Bergur Ebbi Benediktsson rithöfundur og Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, hvert á sinn máta.

Fundargestir tókust á við viðfangsefni fundarins í borðavinnu með fókusinn á framtíðinni. Fjallað var um tækifæri, áskoranir og forgangsröðun vegna tækniframfara og áhrifa þeirra, samþættingu samgöngu-, fjarskipta- og sveitarstjórnar- og byggðamála og skipulag opinberrar þjónustu á málefnasviði ráðuneytisins. Horft var fram í tímann og skoðaðar leiðir til að ná árangri.

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri stýrði framtíðarfundinum og þakkaði hátt í 90 gestum í lokin fyrir gott og gjöfult samtal um framtíðina. Niðurstöðurnar yrðu nýttar í stefnumótun og áætlanagerð. „Það er gagnlegt að spegla hugmyndir – og mikilvægt að við mótum framtíðina saman í okkar málaflokkum sem eiga það sameiginlegt að mynda hornsteina búsetu og velsældar á Íslandi,“ sagði hún að lokum.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd
  • Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri. - mynd
  • Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. - mynd
  • Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur. - mynd
  • Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum