Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2023 Matvælaráðuneytið

Gagnsæi tryggt með birtingu gagna  

Langreyður í hafi. - myndiStock/JG1153

Matvælaráðuneytið hefur tekið saman yfirlit vegna breytinga á reglugerð um hvalveiðar sem gerðar voru 20. júní sl. Þetta er gert til hægðarauka fyrir þau sem vilja kynna sér gögn málsins.

Júní - ágúst 2022

  • Minnisblað er lagt fyrir matvælaráðherra um eftirlit við hvalveiðar, reglugerð um eftirlit með hvalveiðum sett eftir kynningu í Samráðsgátt.

Ágúst - september 2022

  • Eftirlit á vegum MAST, framkvæmt af Fiskistofu í hvalveiðiskipum. Gögnum og upplýsingum safnað, þ.m.t. myndbandsupptökum.

Desember 2022

  • Minnisblað um eftirlit við hvalveiðar og bráðabirgðaniðurstöður úr eftirliti MAST kynnt fyrir matvælaráðherra.

Janúar - maí 2023

  • Drög að eftirlitsskýrslu MAST vegna eftirlits með veiðum send til athugasemda, skýrslan birt 8. maí. MAST óskar eftir áliti fagráðs um velferð dýra.

Júní 2023

  • Minnisblað lagt fyrir matvælaráðherra 12. júní um reglugerðarheimildir vegna veiða á langreyðum. Athugun á mögulegum viðbrögðum ráðuneytis við eftirlitsskýrslu á meðan álits fagráðs var beðið. Minnisblað um eftirlit með hvalveiðum lagt fyrir ráðherra 16. júní, undirbúningur eftirlits með veiðum 2023 hafinn.
  • Drög gerð að minnisblaði 16. júní um tilefni og nauðsyn reglusetningar á grundvelli laga um velferð dýra, vinna sett á bið þegar álit fagráðs var birt 19. júní sl.
  • Álit fagráðs um velferð dýra um hvalveiðar berst ráðuneytinu 19. júní. Álitið rýnt innan ráðuneytisins 19. og 20. júní, lagt til að sett verði reglugerð til bráðabirgða um frestun upphafs veiða og áfram verði unnið að skoðun á mögulegum leiðum til að draga úr frávikum svo stunda megi veiðarnar löglega.
  • Gögn tekin saman fyrir hvalveiðitímabilið 2023 og minnisblað lagt fyrir matvælaráðherra. Minnisblað lagt fyrir ríkisstjórn 20. júní um velferð dýra við veiðar á langreyðum. Bréf sent til Hvals samdægurs um fyrirhugaða takmörkun á veiðitíma langreyða á árinu 2023, reglugerð þess efnis birt og tölvupóstur sendur til Hvals hf. um birtingu reglugerðarinnar.

Matvælaráðuneytið hefur jafnframt orðið við beiðnum hagaðila og fjölmiðla um afhendingu allra gagna sem varða breytingar á reglugerð um hvalveiðar sem gerðar voru 20. júní sl. Auk þeirra gagna sem skylt er að veita aðgang að samkvæmt upplýsingalögum hefur ráðuneytið ákveðið að afhenda að auki minnisblöð til ráðherra og ríkisstjórnar auk annarra vinnugagna sem hafa að geyma upplýsingar um forsendur breytinganna. Tekið skal fram að öllum sem þess óskuðu voru afhent gögnin í heild sinni.

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum og framkominna fullyrðinga málinu tengdar, telur ráðuneytið rétt að árétta eftirfarandi atriði:

  • Ákvörðun ráðherra um tímabundna frestun upphafs veiða á langreyðum á árinu 2023 var í samræmi við mat og ráðgjöf sérfræðinga ráðuneytisins. Með ákvörðuninni var valið vægasta úrræði sem völ var á að mati sérfræðinga ráðuneytisins til að ná því lögmæta og nauðsynlega markmiði að tryggja að kröfur um dýravelferð og kröfur um hvalveiðar geti veri uppfylltar við veiðar á langreyðum á komandi vertíð, þ.m.t. að tryggja að ekki yrðu veiddir hvalir sem kálfar fylgja eða hvalir undir lágmarksstærð. Það var því mat ráðuneytisins að veiðarnar uppfylltu ekki lögbundnar kröfur og að nauðsynlegt væri að bregðast við því.

  • Mat ráðuneytisins styðst við ítarleg gögn um aflífun hvala við veiðar á langreyðum og álit fagráðs um velferð dýra sem ráðuneytið lagði sjálfstætt mat á.

  • Við matið var tekið mið af hagsmunum leyfishafa og valin sú leið sem var talin hafa í för með sér minnstu mögulegu röskun á þessum hagsmunum. Í ljósi afgerandi niðurstöðu fagráðs um velferð dýra og mat ráðuneytisins á henni, var ekki völ á vægara úrræði en að fresta tímabundið veiðum.

  • Rétt er að árétta að öll umbeðin gögn voru afhent og mikið magn gagna umfram skyldu, þ.m.t. vinnugögn ráðuneytisins sem alla jafna eru ekki afhent.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum