Hoppa yfir valmynd
29. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Tuttugu ára afmæli ályktunar um konur, frið og öryggi

Ljósmynd: UN Women. - mynd

„Í dag fögnum við byltingarkenndu skrefi sem stigið var fyrir 20 árum þegar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun númer 1325 um konur, frið og öryggi. Þar með viðurkenndi alþjóðasamfélagið að stríðsátök hafi sértæk áhrif á konur, mikilvægi þess að konur taki jafnan þátt í friðarumleitunum, gerð friðarsamninga og að konur væru mikilvægir þátttakendur við að koma í veg fyrir átök,“ segir Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Kynjajafnrétti hefur verið eitt af kjarnamálum Íslands í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna og utanríkisráðuneytið hefur gefið út þrjár landsáætlanir um framkvæmd ályktunar nr. 1325, þá síðustu í nóvember 2018. Ísland var meðal fyrstu ríkja heims til að setja sér slíka framkvæmdaáætlun.

Samstarfsverkefni á þessu sviði á vegum ráðuneytisins hafa meðal annars verið við UN Women í Mósambík, Malaví, Palestínu og Afganistan, auk þess sem unnið er í góðu samstarfi við Jafnréttisskóla GRÓ – þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Einnig hefur Ísland tekið þátt í að styðja við framkvæmd ályktunar 1325 á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Frá árinu 2000 hefur öryggisráðið samþykkt níu ályktanir til viðbótar beintengdar efni ályktunarinnar. Þar er meðal annars tekist á við brot eins og kynferðisofbeldi sem beitt hefur verið sem vopni í stríði og einnig að setja þátttöku kvenna í friðarumleitunum á dagskrá.

„En ekkert af þessu gerðist af sjálfu sér,“ segir Stella. „Öryggisráðið var undir gífurlegum þrýstingi frá kvennasamtökum um allan heim áður en ályktunin var samþykkt. Eins hafði máttur og þrýstingur kvenna sem sótt höfðu kvennaráðstefnuna í Peking aðeins fimm árum áður, óumdeilanleg áhrif á öryggisráðið.“

-En hefur þátttaka kvenna í friðarumleitunum aukist á þessum tuttugu árum? 

„Nú tuttugu árum síðar búa tveir milljarðar manna við ófrið og átök í stríðshrjáðum löndum. Í þessum löndum eru konur þrátt fyrir allt, að koma í veg fyrir átök og koma á friði. Enn eru  konur samt í miklum minnihluta í friðarviðræðum og fá ekki ennþá sæti við samningaborðið. Aðeins einn af hverjum fimm friðarsamningum sem undirritaðir voru frá 2015–2018 kváðu á um að taka mið af þörfum kvenna. Konur voru aðeins sex prósent sáttasemjara og samningsaðila í friðarviðræðum árin 1992-2019 og konur voru aðeins þrettán prósent viðsemjenda á sama tímabili,“ segir Stella.

Að mati hennar eru framfarir alltof hægar þrátt fyrir að rannsóknir sýni fram á að þegar konur taka þátt í samningarviðræðum um frið, endist friðurinn að meðaltali 15 árum lengur. Konur séu því enn nánast ósýnilegar á þessu karllægasta sviði ákvarðanatöku á heimsvísu.

„Jafnvel nú á tímum heimsfaraldrar eru konur að vinna baki brotnu við að halda friðinn, þrátt fyrir að búa margar við ófrið inn á eigin heimilum. Úttekt UN Women sýnir að þrír mánuðir af útgöngu banni þýði að 15 milljónir kvenna og stúlkna til viðbótar verði beittar kynbundnu ofbeldi. Þessar hægu framfarir, bakslagið og aðförin að réttindum kvenna á öllum sviðum, sem á sér stað um þessar mundir, sýna okkur enn á ný, að baráttan fyrir bættum hag og auknum réttindum kvenna er hvergi nærri lokið. Aðkoma kvenna að friðarviðræðum og friðarumleitunum er grundvallarforsenda þess að halda friðinn,“ segir Stella Samúelsdóttir.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum