Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 575/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 575/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100019

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. október 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Írans (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2021, um að synja honum um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var síðast með dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar með gildistíma til 13. mars 2019. Þann 8. febrúar 2019 sótti kærandi um endurnýjun á því dvalarleyfi og með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. nóvember 2019, var umsókninni synjað. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 179/2020, dags. 22. maí 2020, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2021, var umsókn kæranda að nýju synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina hinn 22. september 2021 og hinn 6. október 2021 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinagerð kæranda barst kærunefnd hinn 4. nóvember 2021.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 61. gr. laga um útlendinga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. nóvember 2019, hafi kæranda verið synjað um atvinnuleyfi og með úrskurði félagsmálaráðuneytisins hinn 2. september 2021 hafi ákvörðunin verið staðfest. Væri stofnuninni því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar og var umsókn hans því synjað.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til atriða sem lúta að ákvörðun félagsmálaráðuneytisins í máli kæranda sem ekki er þörf á að rekja nánar. Kærandi hyggist fara með mál sitt fyrir dómstóla eða til umboðsmanns Alþingis. Óskar kærandi eftir því að úrlausn málsins verði frestað þangað til leyst verði úr því.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 61. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna eru m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérþekkingar hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 61. gr.

Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, þ.m.t. hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi.

Samkvæmt gögnum málsins synjaði Vinnumálastofnun kæranda um atvinnuleyfi með ákvörðun, dags. 1. nóvember 2019. Kærandi kærði þá ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins þann 2. desember 2019 en í kæru óskaði hann eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Vinnumálastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 7. febrúar 2020 féllst ráðuneytið á þá beiðni. Vegna þessa var ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. nóvember 2019, felld úr gildi með úrskurði kærunefndar nr. 179/2020 hinn 22. maí 2020. Var vísað til þess í úrskurði kærunefndar að þar sem grundvöllur Útlendingastofnunar um synjun dvalarleyfis byggði í reynd á því að Vinnumálstofnun hafi synjað kæranda um atvinnuleyfi væri óhjákvæmilegt að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar enda hefði félagsmálaráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og ákvörðun Vinnumálastofnunar ekki öðlast réttaráhrif.

Með úrskurði félagsmálaráðuneytisins, dags. 2. september 2021, sem fyrirliggjandi er í gögnum málsins, var ákvörðun Vinnumálstofnunar frá 1. nóvember 2019 í máli kæranda staðfest. Liggur því fyrir endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi um synjun atvinnuleyfis á grundvelli sérfræðiþekkingar sem öðlast hefur réttaráhrif í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði b-liðar 1. mgr. 61. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.

Í ljósi þess að ákvörðun félagsmálaráðuneytisins í máli kæranda hefur öðlast réttaráhrif sem og þeirri meginreglu 9. gr. stjórnsýslulaga, að stjórnvöld skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er, er það mat kærunefndar að ekki sé forsvaranlegt að nefndin bíði með afgreiðslu málsins. Við það mat hefur kærunefnd jafnframt til þess að umsókn kæranda um endurnýjun dvalar- og atvinnuleyfis hefur nú verið til meðferðar hjá stjórnvöldum í rúmlega tvö ár.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares

 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum