Hoppa yfir valmynd
13. júní 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins

Frá fundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins
Frá fundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 66/2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sat í dag fund utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins sem haldinn var í Malmö í Svíþjóð. Í ávarpi sínu á fundinum lagði utanríkisráðherra sérstaka áherslu á að aðildarríki Eystrasaltsráðsins ynnu náið saman að baráttunni gegn mansali og að nauðsynlegt væri að ráðast gegn efnahagslegum og félagslegum rótum þessa vágests, þ.m.t. misrétti kynjanna.

Á fundinum ræddu utanríkisráðherrarnir um efnahags- og viðskiptamál, umhverfis- og orkumál, vernd mannréttinda og eflingu lýðræðislegs stjórnarfars. Ennfremur voru ræddar hugmyndir Svía um breytingar á hlutverki og starfsháttum ráðsins en Svíar gegna formennsku í ráðinu um þessar mundir. Voru ráðherrarnir einhuga um mikilvægi þess að ráðast í umbætur á starfi ráðsins þannig að það væri betur í stakk búið til að sinna helstu forgangsverkefnum þess.

Þá áttu ráðherrarnir óformlegan kvölverðarfund í gærkvöldi með Uffe Elleman Jensen, fyrrum utanríkisráðherra Danmerkur, þar sem rætt var um hlutverk og framtíð Eystrasaltsráðsins.

Utanríkisráðherra átti einnig í dag fund með utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier. Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. um öryggismál á norðurslóðum og mögulegt samstarf Íslands og Þýskalands á sviði varnar- og öryggismála, hugsanlega samvinnu ríkjanna á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og málefni Evrópusambandsins, en Þýskaland hefur á fyrri hluta þessa árs haft með höndum formennsku innan þess.

Eystrasaltsráðið var stofnað árið 1992 og eru því 15 ár liðin frá stofnun þess. Aðild að ráðinu eiga Norðurlöndin öll, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Rússland og Þýskaland auk Evrópusambandsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum