Hoppa yfir valmynd
6. október 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2021 Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B ehf

 

Uppsögn. Mismunun á grundvelli skertrar starfsgetu. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun B ehf. um að segja sér upp störfum. Hélt A því fram að henni hefði verið mismunað á grundvelli skertrar starfsgetu með uppsögninni, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., 10. gr. og 13. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að A hefði verið mismunað á grundvelli skertrar starfsgetu við uppsögnina. Var því ekki fallist á að B ehf. hefði gerst brotlegt við lög nr. 86/2018.

 

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 6. október 2021 er tekið fyrir mál nr. 4/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 4. mars 2021, kærði A ákvörðun B ehf. um að segja henni upp störfum. Kærandi telur að með uppsögninni hafi henni verið mismunað á grundvelli skertrar starfsgetu og kærði brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., 10. og 13. gr. laganna, þar sem veikindi og örorka kæranda hafi verið ástæða uppsagnarinnar.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 23. apríl 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 14. maí 2021, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 17. maí 2021. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dags. 3. júní 2021, með athugasemdum við greinargerð kærða og var efni þess kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dags. 4. júní 2021. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 18. júní, og voru þær sendar kæranda til kynningar 28. júní. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 11. júlí 2021, og voru sendar kærða til kynningar 26. júlí 2021. Með tölvupósti kærða 9. ágúst 2021 var upplýst að ekki væri tilefni til frekari viðbragða af hans hálfu.
 4. Þess ber að geta að í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru ákvæði um málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála. Lögin voru felld úr gildi 6. janúar 2021 með lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Um málsmeðferð þessa máls fer því samkvæmt lögum nr. 151/2020. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögunum féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021.

  MÁLAVEXTIR

 5. Kærandi sem er 75% öryrki starfaði sem verkefnastjóri hjá kærða á árunum 2010-2020 í 30-40% starfshlutfalli. Í júlí 2020 skilaði kærandi inn læknisvottorði vegna veikinda og var hún í veikindaleyfi út ágúst 2020, sem síðar var framlengt út október 2020. Hinn 2. september 2020 var kæranda sagt upp störfum. Ástæða uppsagnarinnar var sögð fjárhagsleg endurskipulagning í fyrirtækinu. Kæranda var gefinn kostur á að óska eftir öðrum fundi til að fara yfir ástæður uppsagnarinnar sem hún gerði. Sá fundur var haldinn 16. september 2020.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 6. Kærandi bendir á að henni hafi verið sagt upp störfum á fundi 2. september 2020 þar sem ræða hefði átt vinnumál. Hafi hún reiknað með því að efni fundarins yrði starfshlutfall og verkefnaskipting í samræmi við það. Þess í stað hefði henni verið sagt upp störfum án þess að sú umræða hefði átt sér neinn aðdraganda. Hafi henni ekki verið nægilega ljóst að á henni hefði verið brotið fyrr en á fundi sem var haldinn 16. september 2020 þegar kærði gerði nánar grein fyrir ástæðum uppsagnarinnar. Telur hún því að kæran sé innan kærufrests.
 7. Kærandi telur að kærði hafi með ákvörðun um að segja henni upp störfum 2. september 2020 brotið gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., 10. og 13. gr. laga nr. 86/2018. Heldur hún því fram að uppgefin ástæða uppsagnarinnar um langvarandi fjárhagserfiðleika kærða sé fyrirsláttur en raunveruleg ástæða hennar hafi verið sú að kærandi hafi „spyrnt við fótum“ og farið fram á að fá tækifæri til að endurheimta heilsu sína samhliða því að halda áfram að sinna starfinu hjá kærða með því að vinna heima. Er það mat kæranda að ástæður uppsagnarinnar megi rekja til veikinda kæranda og þess að kærandi er öryrki frekar en fjárhagslegs niðurskurðar hjá kærða.
 8. Kærandi tekur fram að hún hafi starfað hjá kærða frá árinu 2010 í 30-40% starfshlutfalli en hún sé 75% öryrki. Henni hafi verið sagt upp störfum eftir 10 ára farsælt starf en kærða hafi verið heilsufar kæranda ljóst frá upphafi ráðningar. Heilsunni hafi byrjað að hraka á árinu 2015 vegna of mikils vinnuálags og hafi verið ljóst í ársbyrjun 2020 að hún hafi verið komin að þolmörkum. Hafi framkvæmdastjóra kærða verið kunnugt um það. Hún hafi unnið heima, í fjarvinnu, frá miðjum mars 2020 vegna Covid-farsóttarinnar en þá hafi afköst aukist þrátt fyrir lélega heilsu á þessum tíma og veikindi.
 9. Kærandi segist hafa fundið fyrir auknum þrýstingi frá kærða um að mæta á skrifstofuna í maí og júní 2020. Kærandi bendir á að á þessum tíma hafi Almannavarnir og sóttvarnalæknir hvatt þá sem gátu til að vinna að heiman. Kærandi var því ósátt við þennan þrýsting af hálfu kærða og í tilefni af samtali við framkvæmdastjóra kærða sendi hún tölvupóst 8. júlí 2020 þar sem hún rakti aðstæður sínar og veikindi og óskaði eftir svörum en kærði varð aldrei við því. Þetta hafi leitt til þess að hún skilaði læknisvottorði til kærða 11. júlí 2020 vegna veikinda til ágústloka sem var framlengt í tvígang til janúarloka 2021. Hafi henni verið sagt upp störfum einum og hálfum mánuði eftir að veikindaleyfi hófst.
 10. Kærandi tekur fram að hún hafi verið boðuð á fund 2. september 2020 til að ræða „vinnumál“ sín við kærða. Hugðist kærandi ræða nýlega framlengingu veikindaleyfis síns út októbermánuð og komast að samkomulagi umeinhvers konar fjarvinnu. Þegar kærandi mætti á fundinn voru þar mættir framkvæmdastjóri og lögmaður kærða. Sá fyrrnefndi tilkynnti kæranda að með miklum trega væri henni sagt upp störfum vegna fjárhagslegs niðurskurðar. Ekki væri óskað eftir frekara vinnuframlagi frá henni en uppsögnin myndi ekki skerða veikindarétt hennar. Auk þess fengi kærandi, að loknu veikindaleyfi, greidda uppsafnaða tíma sem hún hefði unnið umfram vinnuskyldu. Kærandi þáði boð kærða um annan fund til að fara nánar yfir ástæður uppsagnarinnar, sem fór fram að sömu aðilum viðstöddum 16. september 2020. Hafi hún hvorki verið upplýst um að lögmaður kærða yrði viðstaddur fundinn né hafi henni verið gefinn kostur á að hafa einhvern með sér. Á fundinum hafi framkvæmdastjóri kærða farið yfir helstu fjárhagslegu áföll kærða síðustu þrjú árin. Kærandi telur framkomna ástæðu uppsagnarinnar ekki koma heim og saman við að kærði hafi getað greitt uppsafnaða tíma kæranda í desember 2020.
 11. Kærandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018 sé atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsmönnum vegna skertrar starfsgetu við m.a. stöðubreytingu, uppsögn og vinnuaðstæður. Jafnframt bendir hún á að atvinnurekandi skuli samkvæmt 10. gr. laga nr. 86/2018 gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að taka þátt í starfi, enda séu þær ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann. Heldur kærandi því fram að hún hafi verið látin gjalda fyrir það að hafa krafist leiðréttingar á grundvelli 10. gr., sbr. 13. gr. laganna, þar sem segir að atvinnurekanda sé m.a. óheimilt að segja starfsmönnum upp sökum þess að þeir hafi kvartað undan mismunun vegna skertrar starfsgetu eða krafist leiðréttingar á grundvelli laganna.
 12. Bendir kærandi á að hún hafi haft lengstan starfsaldur allra starfsmanna kærða, að frátöldum framkvæmdastjóra, og mesta þekkingu á verkefnum þeim sem hún hafi sinnt. Ef ástæða uppsagnarinnar hefði í raun verið fjárhagslegur niðurskurður hefði hæglega verið unnt að grípa til annarra sparnaðaraðgerða en uppsagnar reynslumesta starfsmannsins. Í því sambandi bendir kærandi á að starfsfólki kærða hafi verið kunnugt um að tiltekinn hlutastarfsmaður hafi ætlað sér að segja upp störfum. Hafi því legið beint við að skera niður með uppsögn þess starfsmanns. Þá bendir kærandi á að ekki hafi verið rætt við hana um að lækka starfshlutfall sitt í hagræðingarskyni fyrir kærða heldur hafi kæranda verið sagt upp störfum án umræðu um hagræðingu eða verkefnaskiptingu.
 13. Jafnframt bendir kærandi á að þær viðeigandi ráðstafanir, í skilningi 10. gr. laga nr. 86/2018, sem gerðar hafi verið í tilviki hennar með fjarvinnu hafi ekki verið íþyngjandi fyrir kærða. Þvert á móti hafi þær verið fjárhagslega hagkvæmur kostur, enda leitt til töluvert aukinna afkasta kæranda. Samt sem áður hafi kærði lagt bann við frekari fjarvinnu og gert kæranda að mæta á skrifstofuna að loknu sumarleyfi og þrátt fyrir að heimilislæknir og sálfræðingur væru á einu máli um að aukið svigrúm til að vinna að heiman væri nauðsynlegt til að kærandi næði heilsu á ný.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 14. Kærði telur að sex mánaða kærufrestur samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 hafi verið liðinn er kærandi sendi inn kæru þann 4. mars 2021, enda hafi kæranda verið sagt upp störfum 2. september 2020. Kærði segist ekki geta fallist á að heimilt sé að víkja frá kærufrestinum í ljósi þess hvernig málið sé vaxið.
 15. Verði kærunni ekki vísað frá hafnar kærði því alfarið að aðrar ástæður en fjárhagsleg endurskipulagning hafi legið til grundvallar uppsögn kæranda 2. september 2020. Ákvörðun kærða um uppsögn kæranda hafi verið tekin að vandlega athuguðu máli, á faglegum grundvelli og hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Fjárhagsleg endurskipulagning hafi verið óhjákvæmileg í ljósi stöðu kærða á liðnu ári og ákvörðun kærða um uppsögn kæranda hafi verið ótengd frammistöðu kæranda, vinnugæðum og trausti til verka. Hafnar kærði því alfarið að brotið hafi verið gegn lögum nr. 86/2018 af sinni hálfu.
 16. Kærði tekur fram að umsamið starfshlutfall kæranda hafa verið rúm 33% er hún hóf störf hjá kærða á árinu 2010. Á þeim tíma hafi vonir staðið til að hlutfallið færi hækkandi og tæpum þremur árum síðar hafi verið samið um hækkun þess í rúm 40%. Starfshlutfall kæranda hafi engu að síður verið á bilinu 30-40% og sveigjanlegt samkvæmt samkomulagi, sem ætla mætti báðum aðilum til hagsbóta. Hafi samningur milli aðila kveðið á um reglubundna viðveru á skrifstofu kærða fjóra daga í hverri vinnuviku en að kæranda hafi að öðru leyti verið veitt svigrúm til að ákveða vikudaga og tíma milli kl. 8 og 13. Hafi hinn hlutastarfsmaður kærða lagað viðveru sína á skrifstofunni að öllu leyti að fyrirkomulaginu.
 17. Kæranda hafi, vegna óhjákvæmilegrar fjárhagslegrar endurskipulagningar, verið sagt upp á fundi 2. september 2020 en henni jafnframt þakkað fyrir góð verk sem hún hafi unnið á vegum kærða. Nánar hafi verið farið yfir ástæðu uppsagnar á öðrum fundi sem haldinn hafi verið að ósk kæranda 16. september 2020. Lýsingar kæranda á því sem þar fór fram segir kærði rangar og ekki rétt eftir haft.
 18. Kærði tekur fram að kæranda hafi verið greint frá því löngu áður en til uppsagnar kom að unnið væri að endurskipulagningu starfsmannahalds, m.a. með því að fela öðrum verkefnastjóra að annast umsjón með úttektum.
 19. Kærði bendir á að tekjuflæði félagsins sé að nokkru leyti árstíðabundið. Af ýmsum ástæðum hafi fyrirtækið verið rekið með tapi síðustu ár. Í seinni hluta júlímánaðar 2020 hafi orðið ljóst, eftir að drög hálfs árs uppgjörs lágu fyrir, að í verulegan taprekstur stefndi á því ári. Hafi versnandi lausa- og eiginfjárstaða blasað við á tímum sem einkenndust af efnahagsþrengingum og því hafi þurft að leita ýmissa leiða í sparnaðarskyni. Hafi allir þættir verið skoðaðir en ljóst hafi verið að sparnaðaraðgerðirnar hlytu að koma við launakostnað meira en aðra liði, enda sé launakostnaður 70-80% af rekstrarkostnaði kærða.
 20. Eftir heildstæða yfirferð á verkefnastöðu og sérhæfingu starfsmanna sinna fimm, þar af þriggja í 100% starfi og tveggja í hlutastarfi, hafi kærði ákveðið í hagræðingarskyni að færa verkefni hlutastarfsmannanna tveggja, að einhverju eða öllu leyti, til starfsmanna sem hefðu hæfni og getu til að taka við þeim. Stjórn kærða hafi metið það svo að sá sparnaður sem næðist með þessum ráðstöfunum gæti komið í veg fyrir eða dregið verulega úr hallarekstri félagsins.
 21. Bendir kærði á að kærandi hafi í 30-40% starfi sínu sem verkefnastjóri annast skipulagningu úttekta á vottunarsviði sínu, afgreiðslu vottana, almenn samskipti við viðskiptavini á sviðinu og utanumhald á gagnagrunni fyrir vottunarsviðið. Einkum tvennt hafi ráðið því að kæranda hafi verið sagt upp störfum. Annars vegar hafi framkvæmdastjóri kærða sinnt vottunarsviðinu og stýrt uppbyggingu þess þar til kærandi tók til starfa og í kjölfarið komið að yfirstjórn þess og þróun með ýmsum hætti. Hann hafi getað tekið við hluta verkefnastjórnunar vottunarsviðs kæranda án sérstakra viðbótargreiðslna frá kærða, enda hafi starf hans við verkefnastjórn á öðru vottunarsviði hrunið úr 30-35% starfshlutfalli í 3-5%. Hins vegar hafi kærandi í samtölum við framkvæmdastjóra kærða ekki lýst vilja til þess að lækka starfshlutfall sitt í 20% vegna aðstæðna kærða. Þá nefnir kærði að sá kostur hafi verið ræddur við uppsögnina að kærandi kæmi að afmörkuðum verkefnum á sviðinu en ekki hafi verið ljóst hvort hún gæfi kost á því.
 22. Kærði segir hinn hlutastarfsmanninn hafa verið í breytilegu starfshlutfalli á bilinu 25-35% en lýst yfir vilja til þess að draga smám saman úr því. Unnið sé að því að lækka starfshlutfall þess starfsmanns og er það nú komið niður í 18% og mun lækka frekar á næstu mánuðum. Tveir aðrir starfsmenn hafi hæfni til að taka við þeim verkefnum sem sá starfsmaður hafi annast þótt áfram sé reiknað með að hún komi að afmörkuðum verkefnum.
 23. Kærði segir hina þrjá starfsmenn sína, tvo verkefnastjóra og framkvæmdastjóra, hafa gegnt hlutastarfi um skeið árið 2020 vegna efnahagsþrenginga en ekki hafi komið til greina að skerða starfshlutfall þeirra til frambúðar. Framkvæmdastjórinn og annar verkefnastjórinn séu helstu matsmenn kærða. Framkvæmdastjóri kærða hafi hæfni til að annast úttektir á öllum sviðum nema ferðaþjónustu, sem og sérstaka þekkingu á vottunarsviði kæranda. Því hafi kærði ákveðið að bæta nýtingu starfshlutfalls hans með því að láta hann taka að sér hluta verkefnastjórnunar vottunarsviðs kæranda. Annar verkefnastjórinn hafi þekkingu til úttekta á tveimur meginvottunarsviðum, sínu eigin og sviði kæranda, sem og hæfni til að skipuleggja úttektir og annast lokaafgreiðslu í kjölfar vottunarákvarðana. Kærði segir ekki hafa komið til greina að skerða starfshlutfall hans án þess að stefna þjónustuöryggi á umræddum sviðum í hættu. Hinn verkefnastjórinn hjá kærða, á sviði vottunar ferðaþjónustu, hafi gegnt hlutastarfi um skeið árið 2020 vegna efnahagsþrenginga og fengið hlutabætur en verið reiðubúinn að fara í fyrra starfshlutfall er því sleppti, samhliða námi. Kærði segir hann eina starfsmanninn með sérþekkingu á vottun ferðaþjónustu en æskilegt hafi verið að halda þekkingu hans innan fyrirtækisins, þar sem ljóst væri að vöxtur yrði á sviðinu þegar farsóttinni linnti. Þá taldi kærði skynsamlegt til hagræðingar, sökum reynslu starfsmannsins og þekkingar á hugbúnaðar- og gagnakerfum, að fela honum hluta umsjónar með utanumhaldi úttekta á sviði vottunar.
 24. Kærði mótmælir þeim fullyrðingum kæranda að kærði og framkvæmdastjóri kærða hafi ekki sýnt vinnuálagi og mögulegum áhrifum þess á heilsu kæranda nægan skilning. Í því sambandi bendir kærði á að kærandi hafi verið í sveigjanlegu 30-40% starfshlutfalli hjá kærða til fjölda ára og ríkulegt tillit hafi verið tekið til óska kæranda hvað varðar vinnumagn og vinnufyrirkomulag á þeim tíu árum sem hún starfaði fyrir kærða. Þjónustuálag kærða sé breytilegt frá einum árstíma til annars og starfsmenn hans hafi því almennt verið reiðubúnir að bregðast við því með sveigjanleika í vinnumagni. Síðustu ár hafi kærandi verið í rúmlega 30% starfshlutfalli en gefið kost á því að vinna umfram það hlutfall á annatímum, þó þannig að það drægi úr vinnuskyldu á öðrum tímum ársins. Hafi kærði komið til móts við þær óskir kæranda.
 25. Kærði telur rétt að árétta að lýsingar kæranda hvað varðar viðveru á skrifstofu og fjarvinnu séu ekki alfarið réttar þótt kærði telji þær málinu óviðkomandi. Eftir að Covid-19 farsóttin braust út hafi kærði búið starfsmenn sína undir fjarvinnu að heiman, að hluta eða öllu leyti. Kærði hafi sömuleiðis þurft að taka tillit til fyrirmæla og heimilda eigenda og/eða umráðaaðila vottunarkerfa sem hann þjónar. Þrír starfsmenn hafi nýtt sér fjarvinnu til lengri eða skemmri tíma en ekki hafi verið talin þörf á fjarvinnu er leið á sumarið 2020, enda fyrsta bylgja farsóttarinnar þá að mestu yfirstaðin og úttektir hafnar að nýju með vettvangsheimsóknum.
 26. Kærði bendir á að kærandi hafi tekið ákvörðun um að vinna að heiman án samráðs við yfirmann, líkt og komi raunar fram í greinargerð kæranda. Framkvæmdastjóri kærða minnist þess að hafa þrívegis spurt kæranda, jafnan með vinsamlegum og jákvæðum hætti, hvort og hvenær væri von á henni á skrifstofu kærða að nýju. Við þeim fyrirspurnum og tilmælum hafi kærandi ekki brugðist fyrr en í þriðja sinn og þá litið á þau sem gagnrýni á störf sín, vantraust til verka utan skrifstofu og tillitsleysi. Engar formlegar eða óformlegar beiðnir eða tillögur hafi borist frá kæranda um áframhaldandi fjarvinnu. Hún hafi ekki svarað framkvæmdastjóra kærða er hann spurði hvort hún teldi ákvarðanir um fjarvinnu alfarið hennar en tjáð honum að slíkar spurningar og tilmæli teldust ósanngjarnar ávítur og skammir. Á það getur kærði ekki fallist með kæranda, enda geti starfsmenn í ljósi eðlis vinnuréttarsambandsins almennt ekki tekið einhliða ákvarðanir um fjarvinnu. Í því sambandi vitnar kærði til ákvæðis starfskjarasamnings kæranda og kærða, þar sem segir m.a. að „reglubundin viðvera á skrifstofu B miðast við fjögurra til fimm stunda vinnu á dag í fjóra daga í hverri vinnuviku“.
 27. Þá telur kærði þá fullyrðingu kæranda ekki rétta að kærði hafi lagt bann við frekari fjarvinnu. Í því sambandi vísar kærði í tölvupóst framkvæmdastjóra kærða sem sendur var öllum starfsmönnum 3. júlí 2020 þar sem segir: „Fjarvinna hefur ýmsa kosti og verður að sjálfsögðu ekki útilokuð, og verður heimiluð ef um er að ræða afmörkuð, tímabundin verk, sem skrifstofan hefur fyrirfram skilgreint, áætlað og samþykkt að vinna megi í fjarvinnu.“ Kærði hafi ekki talið tilefni til að bregðast formlega við tölvupósti kæranda, dags. 8. júlí 2020, þar sem fyrri viðbrögð hennar við vinsamlegum tilmælum um viðveru á skrifstofu voru nánar útlistuð, enda hafði tölvupósturinn hvorki að geyma formlegt erindi, fyrirspurn, beiðni né tillögur.
 28. Tekur kærði fram að ákvörðun um uppsögn kæranda hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og tekin að vandlega athuguðu máli og á faglegum grundvelli. Ákvörðunin hafi því ekki falið í sér brot gegn ákvæðum laga nr. 86/2018.

  NIÐURSTAÐA

 29. Mál þetta snýst um það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., 10. gr. og 13. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði með uppsögn kæranda. Telur kærandi að henni hafi verið mismunað á grundvelli skertrar starfsgetu við uppsögnina.
 30. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.
 31. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna, og gildir það sama um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfsmanna. Í 10. gr. laganna er tekið fram að atvinnurekandi skuli gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann. Samkvæmt 13. gr. laganna er atvinnurekanda óheimilt að segja starfsmönnum upp störfum sökum þess að þeir hafi kvartað undan eða kært mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna eða krafist leiðréttingar á grundvelli þeirra. Jafnframt skal atvinnurekandi gæta þess að starfsmenn verði ekki látnir gjalda þess í starfi að kvartað hafi verið undan eða kærð mismunun eða krafist leiðréttingar á grundvelli laganna.
 32. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 86/2018 hafi verið brotin, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála.
 33. Í tilefni af afstöðu kærða um að ekki sé heimilt að víkja frá kærufresti til kærunefndar er rétt að taka fram að samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 skulu erindi berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Tekið er fram að kærunefndin geti þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Er það því kærunefndarinnar að taka ákvörðun um það hvort kæra verði tekin til meðferðar fyrir nefndinni og óháð því hvort kærði fallist á það.
 34. Fyrir liggur að kæra barst tveimur dögum eftir að kærufrestur rann út. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir nefndinni var kærandi boðuð á fund kærða 2. september 2020 til að fjalla um vinnumál hennar. Á fundinum, þar sem viðstaddir voru, auk kæranda, framkvæmdastjóri kærða og lögmaður kærða, var kæranda afhent uppsagnarbréf. Þar kom fram að kæranda væri sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara miðað við næstu mánaðamót í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings en ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hennar frá þeim degi. Þá var kæranda gefinn kostur á að fara yfir ástæður uppsagnarinnar á öðrum fundi sem hún þáði en sá fundur var ekki haldinn fyrr en 16. september 2020 með sömu aðilum. Í ljósi alls framangreinds verður talið að sérstaklega standi á í þessu máli og kæran því tekin til efnismeðferðar, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020.
 35. Í 15. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun hafi átt sér stað skal sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að skert starfsgeta hafi haft áhrif á uppsögn hennar hjá kærða.
 36. Í málinu liggur fyrir að kæranda, sem er 75% öryrki og var í hlutastarfi hjá kærða, var sagt upp störfum með vísan til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Í gögnum sem kærandi hefur lagt fram í málinu kemur fram að kæranda hafi verið kunnugt um að fjárhagur kærða hafði verið til umræðu innan fyrirtækisins og að gripið hafði verið til aðhaldsaðgerða í rekstri kærða áður en kæranda var sagt upp störfum. Hér ber að hafa í huga að uppsögn kærða á ráðningarsamningi kæranda verður að meta með hliðsjón af þeirri viðurkenndu meginreglu vinnuréttar að atvinnurekandi á almennum vinnumarkaði hefur verulegt svigrúm til að segja upp starfsmanni sínum á grundvelli uppsagnarréttar enda standi hvorki fyrirmæli laga, eins og laga nr. 86/2018, né kjarasamninga því í vegi.
 37. Ekki verður séð af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í málinu að ástæður uppsagnarinnar hafi verið skert starfsgeta kæranda, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018. Þá er ekkert sem bendir til þess í gögnum málsins að kærði hafi látið skerta starfsgetu kæranda hafa áhrif á þá ákvörðun að segja henni upp störfum. Ekki verður heldur séð að kærandi hafi kvartað undan mismunun á grundvelli skertrar starfsgetu eða krafist leiðréttingar á þeim grundvelli og að henni hafi verið sagt upp störfum af þeim sökum, sbr. 13. gr. laga nr. 86/2018. Þá verður ekki heldur talið að ákvörðun stjórnanda um að vinna sé innt af hendi á vinnustað fari ein og sér gegn ákvæðum 10. gr. laga nr. 86/2018. Telja verður að það felist í stjórnunarrétti vinnuveitanda að taka ákvörðun um það hvar vinna verði innt af hendi en ekki starfsmannsins. Til þess verður að líta að samkvæmt ráðningarsamningi aðila (starfskjarasamningi), dags. 27. febrúar 2013, var mælt fyrir um reglubundna viðveru á skrifstofu kærða sem miðaðist við tiltekinn tímafjölda á dag fjóra daga vikunnar. Hafði kærandi innt vinnu sína af hendi á vinnustaðnum þann tíma sem hún starfaði hjá kærða, fyrir utan á vormánuðum 2020. Verður ekki séð að kærði hafi þurft að bregðast við með sérstökum hætti í tengslum við aðgengi kæranda að vinnustaðnum og þátttöku í starfinu að öðru leyti, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2018.
 38. Samkvæmt því verður að mati kærunefndar að telja að þau sjónarmið sem kærði lagði til grundvallar við uppsögn kæranda hafi verið málefnaleg og forsvaranleg og innan þessi svigrúms sem hann hafði samkvæmt lögum nr. 86/2018. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að uppsögn kæranda hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 86/2018.
 39. Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli skertrar starfsgetu, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., 10. og 13. gr. laga nr. 86/2018, við uppsögnina eða að ástæður tengdar skertri starfsgetu hafi haft áhrif á uppsögn kæranda. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut ekki gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði við uppsögn kæranda.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir

 

Andri Árnason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira