Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mínútu þögn í minningu þeirra sem látist hafa í umferðarslysum

Frá minningarathöfn um þá sem hafa látist í umferðarslysum. - mynd

Minningarathöfn um þá sem hafa látist í umferðarslysum á Íslandi var haldin í Reykjavík í dag. Um leið var viðbragðsaðilum, lögreglu, Landhelgisgæslu, björgunarsveitum og heilbrigðisstéttum þakkað fyrir framlag þeirra.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti ávarp, einnig Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórir Guðmundsson, lögreglumaður á Ísafirði, en tvíburasystir hans lést í umferðarslysi á Hnífsdalsvegi árið 2006 og Ágúst Mogensen, sem um árabil starfaði við rannsóknir á umferðarslysum hjá rannsóknarnefnd umferðarslysa og síðar rannsóknarnefnd samgönguslysa og er nú ráðgjafi í slysavörnum. Ragnhilur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, stýrði athöfninni.

Athöfnin í Reykjavík fór fram við þyrlupall Landspítalans í Fossvogi og lenti TF-GNÁ, ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar, þar áður en athöfnin hófst klukkan 11 og þar var einnig stillt upp nokkrum bílum lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og Rauða krossins.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson ræddi meðal annars ábyrgð ökumanna og minnti á alvöru þess að sinna farsímanum undir stýri og sagði brýnt að láta símann ekki trufla einbeitingu við akstur. Hann þakkaði fyrir hönd þjóðarinnar þeim starfsstéttum sem sinna aðhlynningu og hjálp þegar slys verður, lögreglu, sjúkraflutningafólki, starfsliði Landhelgisgsælunnar og heilbrigðisstéttum og í framhaldinu var einnar mínútu þögn í minningu þeirra sem hafa látist í umferðarslysum.

Forseti Íslands flytur ávarp sitt.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra voru meðal þeirra sem fluttu ávörp,

Ekki nota símann meðan við ökum

Jón Gunnarsson sagði mikilvægt að rannsaka og læra af slysum, setja reglur og beita fyrirbyggjandi aðgerðum. Ekkert væri hins vegar eins áhrifamikið og betri og öruggari vegir og minnti því því sambandi á að eftir að Reykjanesbraut var að stærstum hluta tvöfölduð hefðu ekki orðið þar banaslys. Þá minntist ráðherra á farsímanotkun undir stýri og sagði skilaboðin einföld: Við eigum ekki að nota símann á meðan við ökum. Ráðherra sagði einn frá samgönguþingi unga fólksins sem haldið var nýverið en markmið þess hefði verið að kalla eftir hugmyndum og tillögum ungs fólks um ýmis atrið sem tengdust akstur og umferð. Í ályktun þingsins hefðu m.a. komið fram tillögur um að hækka sektir fyrir notkun snjalltækja undir stýri og lækka áfengismörk til að draga úr akstri undir áhrifum. Sagði hann þessar tillögur verða notaðar við endurskoðun á umferðarlögum sem nú stæði yfir og kvaðst binda vonir við að samgönguþing unga fólksins yrði haldið árlega. Í lok ræðu sinnar tók hann undir þakkir forseta til björgunarsveita, heilbrigðisstétta og viðbragðsaðila allra og sagði framlag þeirra einstakt.

Þórir Guðmundsson lögreglumaður á Ísafirði flytur ávarp

Þórir Guðmundsson, lögreglumaður á Ísafirði segir frá reynslu sinni.

Þórir Guðmundsson sagði frá reynslu sinni þegar tvíburasystir hans lést í umferðarslysi á Hnífsdalsvegi í janúar 2006 þegar bíll hennar fór útaf veginum og lenti í sjónum. Sagði hann sárt að vita til þess að ein aðalorsök slyssins hafi verið farsímanotkun hennar við stýrið. Hann hafi iðulega bent á alvöru þess að nota ekki símann um leið og ekið er og kvaðst trúa því að þetta hafi verið eina skiptið sem hún gerði það. Það hafi hins vegar verið einu sinni of oft.

Ágúst Mogensen rannsakaði áðurnefnt slys en hann hefur 18 ára reynslu af slysarannsóknum í umferðinni. Nefndi hann dæmi um hversu langt bíll færi þegar ökumaður liti í örfáar sekúndir af vegi og á símann, það gæti verið vegalengd sem samsvaraði lengd fótboltavallar. Sagði hann ljóst að farsímanotkun væri oftlega meðvirkandi orsök umferðarslysa og þegar fram kæmi við rannsókn slysa að ökumenn segðust hafa verið annars hugar án þess að nefna sérstaka ástæðu vöknuðu oft grunsemdir um að þá hefði farsíminn komið við sögu.

Hér að neðan má sjá hvar Ágúst Mogensen flytur ávarp sitt og hjá honum standa Ragnhildur Hjaltadóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Þórir Guðmundsson og Jón Gunnarsson.

Ágúst Mogensen flytur ávarp

Eftir athöfnina þáðu viðstaddir hressingu og forseti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heilsuðu uppá starfsfólk á bráðamóttökunnar.

Forseti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heilsa uppá starfsfólk á bráðamóttöku.

Fulltrúar viðbragðsaðila og ræðumenn stilltu sér upp  í lok athafnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira