Hoppa yfir valmynd
1. október 2014 Forsætisráðuneytið

Hákon Jóhannesson - Umsögn um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar

Ágæta stjórnarskrárnefnd Alþingis.

Ég þakka fyrir tækifærið til að leggja inn þetta erindi til nefndarinnar og fylgir það hér. 

Í aðfararorði frumvarps til stjórnarskipunarlaga stendur ritað: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð“. 

Nú þegar liggur fyrir mikið og gott starf Stjórnlagaráðs sem skilaði af sér þann 29. júlí 2011 til forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Þarna var um að ræða  afrakstur 950 manna þjóðfundar þann 6. nóvember 2010, til að fá fram sjónarmið þjóðarinnar á grunngildum stjórnarskrár landsins.  Við tók starf 7 manna stjórnlaganefndar og loks 25 manna Stjórnlagaráðs.  Stjórnlagaráð vann að tillögum sínum á opnum fundum og fékk umsagnir og athugasemdir frá þúsundum aðila, bæði lærðra og leikra.

Ég gekk í kjörklefann í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012 um tillögur Stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.  

Spurt var m.a. „Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“   2/3 hluti kjósenda svaraði „Já, ég vil að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“

Það var mikil spenna og gleði í kring um endurskoðun stjórnarskrárinnar okkar síðla árs 2010  þegar þjóðfundurinn fór í gang, skipaður þverskurði þjóðarinnar. 

Nú hafa valdhafar handvalið ykkur í  stjórnarskrárnefnd til þess að yfirfara núverandi Stjórnarskrá. 

Ég verð að lýsa yfir verulegum áhyggjum með þessa grundvallarbreytingu í ljósi þess að fámenn, handvalin nefnd getur engan vegin talist geta komið í stað ofangreinds starfs.  Ekki er t.a.m. raunhæft að álykta að hér sé um þverskurð þjóðarinnar að ræða eða að þið hafið hlotið kosningu borgaranna til verksins. 

Ég hef verulegar áhyggjur af því að niðurstöður þessarar nefndar endurspegli ekki sýn og einlægan vilja þjóðarinnar á sama hátt og áðurnefnt starf og mæti þar af leiðandi ekki væntingum þjóðarinnar.

Alþingi og alþingismönnum ber skylda sem kjörinna fulltrúa í lýðræðisríki að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu sem það sjálft boðaði til.  Niðurstöður kosningarinnar þann 20. október 2012 voru skýrar og afgerandi.  

Eins og lýst er hér að ofan voru tillögur Stjórnlagaráðs afrakstur af lýðræðislegu, markvissu og skipulögðu ferli og ber stjórnarskrárnefndinni því lýðræðisleg skylda til beina athyglinni fyrst og fremst að tillögum Stjórnlagaráðs sem lagt var fram á Alþingi vorið 2013.

Það er því krafa mín í ljósi ofangreinds, að nefndin geri nú þegar tillögu til Alþingis um að það samþykki umrætt frumvarp til nýrrar stjórnarskrár sem  efnislega er nú þegar samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mð vinsemd og virðingu,

Hákon Jóhannesson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum