Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Ræddu alvarlega stöðu í mannúðarmálum

Ástand mannúðarmála í heiminum og endurnýjun rammasamnings Íslands við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP) voru til umfjöllunar á fjarfundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og David Beasley framkvæmdastjóra stofnunarinnar í morgun. WFP er ein af áherslustofnunum Íslands á sviði mannúðaraðstoðar. Stofnunin er sú stærsta í heimi á sviði matvælaaðstoðar og náði aðstoð WFP til 115 milljóna manna árið 2021. 

Þórdís Kolbrún og  Beasley ræddu helstu áskoranir samtímans og þau landsvæði sem nú eru í hvað mestri þörf fyrir mannúðaraðstoð, svo sem Afganistan, Jemen og Sahel-svæðið í Afríku. Í máli Beasley kom fram að þeim sem búa við mikið fæðuóöryggi hefur fjölgað mjög að undanförnu. Talið er að fjöldinn nemi nú 285 milljónum á heimsvísu samanborið við 135 milljónir fyrir tveimur árum. Þar af eru 45 milljónir við hungurmörk. Þetta skýrist að verulegu leyti af efnahagslegum áhrifum í tengslum við heimsfaraldur og sóttvarnaaðgerðir, stríðsátökum og loftslagsbreytingum.

Á fundinum var farið yfir samstarf Íslands og WFP en Ísland veitir árleg kjarnaframlög til stofnunarinnar auk þess eru viðbótarframlög veitt vegna neyðartilvika. Árið 2021 námu heildarframlög Íslands til WFP vegna mannúðaraðstoðar 230 milljónum króna.

Ísland hefur jafnframt haft nýsköpun að leiðarljósi í samstarfinu við WFP. Þannig hefur Ísland fjármagnað smærri tilraunaverkefni t.d. í Malaví og Mósambík sem þykja hafa gefið góða raun og í kjölfarið verið tekin upp í öðrum löndum. „Ísland leggur áherslu á að vera áreiðanlegur og lipur samstarfsaðili sem hefur það að leiðarljósi að nýta framlög sín sem best. Nýsköpun er meðal þess sem við leggjum áherslu á í stuðningi okkar við þróunarsamvinnuverkefni WFP ásamt framlögum í gegnum rammasamning sem veita mikilvægan sveigjanleika fyrir stofnunina“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum