Hoppa yfir valmynd
13. september 2014 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp í dag á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem nú stendur í Sveitarfélaginu Vogum. Ræddi hún meðal annars samstarf ríkis og sveitarfélaga, tekjustofna sveitarfélaga, atvinnuuppbyggingu og fleira. Fundurinn hófst í gær og voru þar meðal annars til umræðu menntamál, almenningssamgöngur, málefni fatlaðs fólks og fjallað var um tækifærin á Keflavíkurflugvelli.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fór fram í gær og í dag.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fór fram í gær og í dag.

Innanríkisráðherra óskaði í upphafi ávarps síns nýjum sveitarstjórnarmönnum til hamingju með kjörið og gerði samstarf ráðuneytisins og sveitarstjórnarmanna að umtalsefni. Kvaðst hún leggja mikla áherslu á gott samstarf við fulltrúa sveitarstjórnarstigsins og að hún hefði átt reglulega fundi með forystumönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún sagði ánægjulegt hversu hlutur kvenna sveitarstjórnum væri að aukast, væri 44% eftir síðustu kosningar en jöfn staða kynjanna væri síðri þegar litið væri til embætta í sveitarstjórnum eða ábyrgðarstarfa hjá þeim. Þá sagði hún áhyggjuefni hversu kosningaþátttaka færi dvínandi og sagði nauðsynlegt að vera vakandi fyrir þeirri þróun og brýnt að snúa henni við. Gat ráðherra um könnun sem nú stendur yfir á vegum ráðuneytisins í samstarfi við háskólasamfélagið til að leita skýringa á þessari þróun síðustu 5 til 10 árin. Einnig vék hún að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga og sagði unnið að því að fara yfir þann málaflokk í heild og kvaðst ekki gera ráð fyrir að málið kæmi til kasta Alþingis á komandi vetri.

Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti ávarp á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.Ráðherra vék einnig að atvinnumálum og sagði mikil umsvif þeim sviðum á Suðurnesjum um þessar mundir vera tengd Keflavíkurflugvelli; þar stæði yfir uppbygging vegna fjölgunar ferðamanna og fyrirsjáanleg væri áframhaldandi uppbygging á næstu misserum fyrir milljarða króna. Minnti hún á að til skoðunar væri hvort og hvernig fá mætti einkaaðila til að taka þátt í fjárfestingum á sviði flugsins.

Í lok ávarps síns ræddi ráðherra um sameiningar sveitarfélaga sem hún sagði vera eins konar eilífðarmál. Hún sagðist ekki hlynnt lögþvinguðum sameiningum, sameiningar ættu að vera algjörlega á forræði sveitarfélaganna sjálfra en ef hugmyndir væru uppi um sameiningar gæti ráðuneytið komið til aðstoðar á ýmsan hátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum