Hoppa yfir valmynd
29. október 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um útgáfu skuldabréfs

SSF slf
Steinn S. Finnbogason
Lágmúla 7
108 Reykjavík

Reykjavík 29. október 2012
Tilv.: FJR12060017/16.2.3

Efni: Úrskurður tollstjóra, dags. 8. mars 2012.

Ráðuneytið vísar til kæru [A], kt. […], dags. 7. júní 2012, þar sem kærð er sú ákvörðun tollstjóra að synja kæranda um útgáfu skuldabréfs samkvæmt 5. gr. laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Málavextir og málsástæður.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um greiðsluuppgjör vegna skulda á trygginga-, þing- og sveitarsjóðsgjöldum á grundvelli 5. gr. laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, í maí 2011. Þann 10. maí sama ár sótti kærandi jafnframt um greiðsluaðlögum samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Umsókn kæranda um greiðsluuppgjör opinberra gjalda samkvæmt lögum nr. 24/2010 var samþykkt af tollstjóraembættinu með bréfi, dags. 8. júní 2011.
Ákvörðun tollstjóra, dags. 8. mars 2012.
Með ákvörðun tollstjóra, dags. 8. mars 2012, synjaði embættið hins vegar útgáfu skuldabréfs samkvæmt 5. gr. laga nr. 24/2010. Í ákvörðun tollstjora kemur fram að óheimilt sé að útbúa skuldabréf fyrir kæranda á grundvelli umsóknar hans þar sem umsókn um greiðsluaðlögun lægi fyrir um hjá umboðsmanni skuldara. Þá vísaði tollstjóri til þess að þau gjöld sem að öðrum kosti hefðu fallið undir lög nr. 24/2010 féllu nú undir lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun.

Kæra, dags. 7. júní 2012.

Með bréfi, dags. 7. júní 2012, var synjun tollstjóra, dags. 8. mars 2012, kærð til ráðuneytisins. Í kærunni kemur fram að kærandi telur að tollstjóra hafi verið óheimilt að breyta fyrri ákvörðun sinni og synja umsókn hans þar sem engar forsendur höfðu breyst frá því umsókn kæranda var samþykkt. Þá telur kærandi jafnframt að ákvörðun embættisins uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 24/2010 sem og að hann telur að ákvörðun tollstjóra sé ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar ásamt því að ákvörðunin brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. mál kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 81/2011. Þá tekur kærandi fram að ákvörðunin sé ólögmæt þar sem hún byggist á ákvæði laga sem fallin voru úr gildi þegar ákvörðunin var tekin þann 8. mars 2012.
Kærandi vísar til þess að lög nr. 24/2010 hafi verið sett með það að markmiði að koma til móts við rekstraðila, sem voru í tímabundnum greiðsluvandræðum, með ívilnandi aðgerðum. Í lögunum sé kveðið á um hvaða aðilar geti fallið undir úrræðið og með tæmandi hætti talið upp hvaða skilyrði þessir aðilar þurfi að uppfylla til að hljóta úrræðið. Þá vísar kærandi til 1. gr. laga nr. 24/2010, líkt og þau voru við gildistöku, þar sem kveðið var á um hvaða aðilar gætu fallið undir úrræðið, þ.e. lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem voru í vanskilum með tiltekna skatta og gjöld ákveðið tímabil. Með lögum nr. 165/2010 hafi ákvæði 1. gr. laga nr. 24/2010 verið breytt en kærandi tekur fram að markmið þeirrar breytingar hafi verið að ákvæðið myndi ná til fleiri aðila en orðalag ákvæðisins við gildistöku gerði ráð fyrir. Breytingin hafi í fyrsta lagi verið sú að úrræðið myndi einnig ná til lögaðila og einstaklinga sem hefðu verið í atvinnurekstri en ekki eingöngu til þeirra sem væru í atvinnurekstri. Þá hafi nýrri málsgrein verið bætt við 1. gr. laga nr. 24/2010 og með þeirri málsgrein hafi löggjafinn viljað taka af allan vafa um að einstaklingar sem sótt hefðu um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara gætu einnig sótt um greiðsluuppgjör vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá verði þeir aðilar sem falla undir úrræðið að uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt 2. gr. laga nr. 24/2010 og vísar kærandi til þess að þann 8. júní 2011 hafi honum verið tilkynnt af tollstjóra að samþykkt væri að hann félli undir úrræðið samkvæmt 1. gr. laganna og jafnframt að hann uppfyllti skilyrði samkvæmt 2. gr. sömu laga. Þá telur kærandi að þegar umsókn aðila um greiðsluuppgjör hafi verið samþykkt samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laganna hefði tollstjóra aðeins verið heimilt að synja umsækjanda um greiðsluuppgjör ef skilyrði 2. gr. hefði ekki verið haldið til 1. júlí 2011, sbr. 5. gr. laganna.

Þá sé óumdeilt að kærandi uppfylli skilyrði 2. gr. laga nr. 24/2010 og jafnframt að hann hafi haldið skilyrði 2. gr. laganna fram til 1. júlí 2011. Ákvörðun embættis tollstjóra, dags. 8. mars 2012, um að hafna útgáfu skuldabréfs kæranda til handa geti ekki byggt á því að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. gr. fram til 1. júlí 2011 og geti þannig ákvörðun embættisins ekki verið í samræmi við lög auk þess sem hún eigi sér ekki viðhlítandi stoð í lögunum. Þá tekur kærandi fram að ákvörðun tollstjóra byggist aðeins á því að kærandi hafi ekki afturkallað óafgreidda umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga frá umboðsmanni skuldara. Ásamt því segir kærandi það óumdeilt að umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hefði verið óafgreidd hjá umboðsmanni skuldara þann 8. júní 2011 þegar tollstjóri hafi samþykkt umsókn hans um greiðsluuppgjör. Með ákvörðun tollstjóra, dags. 8. mars 2012, hafi embættið breytt fyrri ákvörðun sinni án þess að virða ákvæði 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um breytingu og leiðréttingu ákvörðunar.
Kærandi vísar til þess að ákvörðun tollstjóra byggist á gagnályktun frá ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010 eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 165/2010. Í því skyni vísar kærandi til greinargerðar með ákvæðinu þar sem fram kemur að breytingin væri gerð til að tryggja enn frekar aðkomu stjórnvalda til aðstoðar rekstraðilum í skuldavanda og að sérstaklega sé tekið fram að verið væri að rýmka skilyrði gildandi laga. Þá komi einnig fram í greinargerðinni að heimildin í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010 eigi jafnt við um rekstraraðila sem sótt hafa um sértæka greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 107/2009 og þeirra sem ekki hafi gert það.
Kærandi telur þá gagnályktun tollstjóra að úrræðið nái ekki til skuldara trygginga-, þing- og sveitarsjóðsgjalda sem sótt hafa um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010, ekki styðjast við nein rök sem og að hún sé bæði takmarkandi og íþyngjandi. Þá sé ákvörðun embættisins í andstöðu við það markmið sem stefnt var að með setningu laga nr. 101/2010 og með breytingu á skilyrðum til rýmkunar.
Að endingu vísar kærandi til þess að ákvörðun tollstjóra, dags. 8. mars 2012, hafi verið studd með tilvísun til laga nr. 24/2010 en samkvæmt 7. gr. laganna féllu þau úr gildi þann 31. desember 2011, rúmum þremur mánuðum áður en ákvörðun var tekin. Styðjist þannig ákvörðun tollstjóra við brottfallin lög og ætti þar af leiðandi ákvörðunin að vera úrskurðuð sem ólögmæt og ógild.

Umsögn tollstjóra, dags. 16. ágúst 2012.

Þann 3. júlí 2012 óskaði ráðuneytið eftir umsögn tollstjóra. Umsögnin barst með bréfi, dags. 16. ágúst 2012. Vísar tollstjóri til þess að kærandi hafi sótt um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, og hafi honum verið veittur greiðslufrestur til uppgjörs samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá segir tollstjóri að þegar komið hafi verið að því að útbúa skuldabréf fyrir kæranda samkvæmt 5. gr. laganna hafi skoðun leitt í ljós að skuldir hans við ríkissjóð voru eingöngu vegna ógreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda og tryggingagjalds, þ.e.a.s. skatta og gjöld sem falla undir greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun.
Á þeim tímapunkti sem tollstjóri hafi haft skuldbreytingu kæranda til meðferðar var kærandi í greiðsluaðlögunarferli og féll þar af leiðandi undir 2. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010. Þar vísar tollstjóri til þess sem efnislega kemur fram í ákvæðinu að greiðsluuppgjör aðila, sem séu jafnframt í greiðsluaðlögun, takmarkist við virðisaukaskatt og afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá tók tollstjóri fram að þar sem kærandi skuldaði hvorki virðisaukaskatt né afdregna staðgreiðslu þá hafi ekki verið til staðar nauðsynleg forsenda fyrir útgáfu skuldabréfs þar sem skuldir kæranda féllu eingöngu undir greiðsluaðlögun. Af þeim sökum hafi ekki komið til álita að beita ákvæðum 2. mgr. 1. gr. um tilvik kæranda og þótti tollstjóra rétt að taka fram að samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni skuldara, dags. 27. júlí 2012, hafi kærandi enn verið í greiðsluaðlögunarferli og mál hans ekki enn hlotið afgreiðslu hjá umboðsmanni skuldara.
Þá víkur tollstjóri að því að hann hafi verið í tölvupóstssamskiptum við kæranda í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Í tölvupósti, dags. 21. febrúar 2012, hafi kæranda verið greint frá því að ekki væri unnt að útbúa skuldabréf vegna þeirra krafna sem féllu undir greiðsluaðlögun nema að hann myndi afturkalla beiðni sína um greiðsluaðlögun. Kærandi hafi því fengið tækifæri til að breyta því lögboðna ástandi sem gilti um fjármál hans til að fá útbúið skuldabréf vegna skulda á þing- og sveitarsjóðsgjöldum og tryggingagjaldi. Af þeim sökum væri ekki unnt að halda fram að meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin við meðferð málsins.

Tollstjóri benti einnig á að mismunandi aðferðarfræði væri viðhöfð við greiðsluaðlögun og greiðsluuppgjör. Í greiðsluaðlögun fælist einstaklingsmiðuð lausn sem miðaði við greiðslugetu skuldara en í tilviki greiðsluuppgjörs væri ekki tekið mið af greiðslugetu skuldara heldur aðeins skuld samkvæmt skuldabréfi. Yrði því að teljast mun heppilegri lausn fyrir kæranda að fá skuldir hans greiðsluaðlagaðar þar sem sú lausn fæli almennt í sér meiri ívilnun heldur en greiðsluuppgjör. Þá tók tollstjóri einnig fram að embættinu hafi borið að ljúka framkvæmd laganna að fullu og því hafi ekki verið unnt að fresta afgreiðslu málsins frekar hjá embættinu.

Tollstjóri vísaði til þess að hann hefði umsjón með framkvæmd greiðsluuppgjörs samkvæmt lögum nr. 24/2010 og að lögin gerðu ráð fyrir að hægt væri að beita úrræðinu samhliða greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010. Í því fælist að þau gjöld sem féllu ekki undir greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010 myndu falla undir greiðsluuppgjör samkvæmt lögum nr. 24/2010. Í ákvæðinu væri skýrt tekið fram að aðili í greiðsluaðlögun gæti sótt um greiðsluuppgjör fyrir virðisaukaskatt og afdregna staðgreiðslu. Gagnályktun frá skýru orðalagi ákvæðisins leiði til þess að ekki væri heimilt að útbúa skuldabréf fyrir aðrar kröfur en virðisaukaskatt og afdregna staðgreiðslu leiti skuldari einnig greiðsluaðlögunar samhliða greiðsluuppgjöri. Lög um greiðsluuppgjör nr. 24/2010 væru sérlög sem leiði til þess að við lögskýringu ákvæða laganna væri ekki heimilt að nota rýmkandi skýringu. Þá tók tollstjóri fram að tilgangur lagabreytingar þeirrar er gerð var með 37. gr. laga nr. 165/2010 hafi verið að greiða þeim aðilum sem skulduðu virðisaukaskatt og afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda leið að úrræðinu um greiðsluuppgjör.
Þá sagði tollstjóri að lögin um greiðsluuppgjör gerðu ráð fyrir tvískiptu ferli. Í fyrsta lagi hafi verið veittur greiðslufrestur til 1. júlí 2011 á þeim gjöldum sem undir greiðsluuppgjör féllu samkvæmt lögum nr. 24/2010 en þau gjöld væru þing- og sveitarsjóðsgjöld, virðisaukaskattur, staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald sem gjaldféllu fyrir 1. janúar 2010. Á freststímabili var innheimtuaðgerðum ekki beint að umsækjendum og yfirstandandi innheimtuaðgerðum var frestað og afturkallaðar eftir atvikum. Í öðru lagi hafi tollstjóra verið veitt heimild til að samþykkja útgáfu skuldabréfs til greiðslu þeirra skatta og gjalda sem féllu undir greiðsluuppgjör. Þegar kom að framkvæmd seinni hluta úrræðisins kom til skoðunar hvaða skuldir aðila féllu undir greiðsluuppgjör og hvaða skuldir féllu undir greiðsluaðlögun. Við það tímamark var fyrst unnt að taka endanlega afstöðu til þess hvort skuldabréf samkvæmt 5. gr. laga nr. 24/2010 yrði útbúið eða ekki. Þá hafi embætti tollstjóra jafnframt borið framkvæmdina undir umboðsmann skuldara sem gerði ekki athugasemdir við hana.

Að endingu vék tollstjóri að því að með umsókn um greiðsluaðlögun væri komið á lögbundnu ástandi um þær kröfur sem féllu undir greiðsluaðlögun. Umsækjanda og kröfuhöfum hans væri ekki heimilt að semja um skuldaskil þeirra krafna sem féllu innan greiðsluaðlögunar eftir að aðili hefur sótt um greiðsluaðlögun. Við greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 sagði tollstjóri sömu sjónarmið gilda og gildi almennt í skuldaskilarétti um jafnræði kröfuhafa. Í því fælist að ekki væri heimilt að taka einn kröfuhafa fram yfir aðra og gera við hann sérstakt samkomulag um skuldaskil þeirra krafna sem falla undir greiðsluaðlögun. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 segir að lánadrottnum sé óheimilt að taka við greiðslu á skuld sem fellur undir greiðsluaðlögun og í 5. gr. laga nr. 24/2010 kemur fram að skuldabréf sé útbúið til þess að greiða skuld sem fellur undir greiðsluuppgjör.
Með vísan til framangreinds megi því ráða að lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun, og lög nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, hindri að unnt sé að afgreiða erindi kæranda með þeim hætti sem hann fer fram á.

 

Forsendur og niðurstaða

Með greiðsluuppgjöri í skilningi laga nr. 24/2010 er átt við að dráttarvextir eru ekki lagðir á kröfur sem njóta frests til greiðsluuppgjörs á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011. Í 1. gr. laganna kemur fram hverjir geti sótt um greiðsluuppgjör samkvæmt lögunum sem og hvaða gjöld og skattar falli undir ákvæðið. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. eru það þeir lögaðilar og einstaklingar sem eru og hafa verið í atvinnurekstri og eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 sem geta sótt um frest til greiðsluuppgjör á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Í 2. mgr. 1. gr. kemur fram að þeir einstaklingar sem hafa sótt um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, geti sótt um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum nr. 24/2010 vegna vangoldins virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá segir í lokamálslið 2. mgr. að ef umboðsmaður skuldara hafni umsókn einstaklings um greiðsluaðlögun þá skuli umsóknin um greiðsluuppgjör afgreidd í samræmi við 1. mgr. 1. gr. laganna.
Í 2. gr. laga nr. 24/2010 eru rakin skilyrði fyrir fresti til greiðsluuppgjörs í fjórum töluliðum. Þá segir í fyrsta lagi að umsækjandi skuli vera í skilum með aðra skatta og gjöld en þau sem tilgreind séu í 1. mgr. 1. gr. þegar umsókn er lögð fram. Í öðru lagi að umsækjandi skuli vera í skilum með alla skatta og gjöld sem gjaldafalli frá 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011. Í þriðja lagi að umsækjandi skuli lýsa því yfir að hann muni skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja rétta álagningu gjalda og í fjórða lagi að umsækjandi skuli við umsókn greiðsluuppgjörs samkvæmt 1. gr. viðurkenna greiðsluskyldu vegna þeirra krafna sem frests njóta.

Ákvæði 5. gr. sömu laga kveður á um umsókn um skuldbreytingu. Í 1. mgr. kemur fram að hafi umsækjandi haldið skilyrði 2. gr. fram til 1. júlí 2011 þá sé tollstjóra heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs til greiðslu þeirra skatta og gjalda sem voru í fresti til greiðsluuppgjörs samkvæmt 1. gr. laganna. Lög nr. 24/2010 voru samþykkt á Alþingi þann 25. mars 2010 og tóku þegar gildi, sbr. 6. gr. laganna. Í upphafi var 1. málsl. 1. gr., sem þá var aðeins ein málsgrein, þannig að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem væru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hefðu gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 gætu sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Í athugasemdum með 1. gr. frumvarpsins kom fram að heimild til að fresta greiðsluuppgjöri væri einskorðuð við lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Þá var lagt til að greiðsluuppgjörið næði eingöngu til þeirra skatttegunda sem tilgreindar væru í greininni, þ.e. virðisaukaskatts, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjalds og þing- og sveitarsjóðsgjalda. Ástæðan var sú að þessir skattar vógu hvað þyngst í vanskilum aðila í atvinnurekstri og var tekið fram að undir þing- og sveitarsjóðsgjöld féllu ýmsir skattar og gjöld sem lögð væru á með vísan til laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ákvæði 1. gr. var síðan breytt með 37. gr. laga nr. 165/2010, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, frá 28. desember 2010. Eftir breytingarnar kvað 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010 á um að þeir lögaðilar og einstaklingar sem eru og hafa verið í atvinnurekstri og eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 gætu sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Þá kom með lögum nr. 165/2010 ný málsgrein á eftir 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010 þar sem sagði að einstaklingar sem sótt hafa um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, gætu sótt um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum nr. 24/2010 vegna vangoldins virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda. Ennfremur sagði að hafni umboðsmaður skuldara umsókn einstaklings um greiðsluaðlögun skuli umsóknin samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna afgreidd í samræmi við 1. mgr. Í athugasemdum með hinni nýju málsgrein 2. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010 kemur fram að þeir einstaklingar sem sótt hafi um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara geti einnig sótt um greiðsluuppgjör vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Ekkert kemur fram að þeir aðilar sem sótt hafi um greiðsluaðlögun geti sótt um greiðsluuppgjör á öðrum sköttum og gjöldum en virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Ljóst er að þegar kærandi sótti um greiðsluuppgjör á grundvelli laga nr. 24/2010 þá uppfyllti hann skilyrði 2. gr. laganna. Í framhaldinu samþykkti tollstjóri umsókn hans með bréfi, dags. 8. júní 2011. Í millitíðinni sótti kærandi hins vegar um greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010 hjá umboðsmanni skuldara án vitundar tollstjóra. Þegar kærandi sækir um greiðsluaðlögun breytast forsendur fyrir ákvörðun tollstjóra og í stað þess að kærandi falli undir ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010 fellur kærandi undir 2. mgr. 1. gr. laganna Munurinn á ákvæðunum fellst í því að aðeins virðisaukaskattur og afdregin staðgreiðsla falla undir greiðsluuppgjör hjá einstaklingum sem hafa sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara á meðan þeir sem hafa ekki sótt um greiðsluaðlögun geta fengið frest á greiðsluuppgjöri á tryggingagjaldi, þing- og sveitarsjóðsgjöldum ásamt virðisaukaskatt og afdreginni staðgreiðslu. Lögin tilgreina því með ákveðnum hætti að kröfur sem falla utan greiðsluaðlögunar, þ.e. virðisaukaskattur og afdregin staðgreiðsla, geta verið í greiðsluuppgjöri samkvæmt lögunum. Með því að sækja um greiðsluaðlögun eftir að sótt hefur verið um frest á greiðsluuppgjöri hjá tollstjóra breytast forsendur fyrir ákvörðun hans. Ráðuneytið telur að ekki sé unnt að vísa til þess að tollstjóri hafi ekki farið að lögum þega hann tók ákvörðun, dags. 8. mars 2012, þar sem búið var að samþykkja umsókn kæranda um frest til greiðsluuppgjörs. Tollstjóri samþykkti umsókn kæranda miðað við þær upplýsingar er lágu fyrir er hann sótti um frestinn. Eftir að kærandi sækir um greiðsluaðlögun breytist réttarástandið. Þá er ljóst að kærandi fékk vitneskju um að hann þyrfti að velja milli greiðsluaðlögunarferlis og þess að fá útgefið skuldabréf, samkvæmt 5. gr. laga nr. 24/2010

Með umsókn um greiðsluaðlögun er komið á lögbundnu ástandi um þær kröfur sem falla undir greiðsluaðlögun. Umsækjanda greiðsluaðlögunar og kröfuhöfum hans er ekki heimilt að semja um skuldaskil þeirra krafna sem falla innan greiðsluaðlögunar eftir að aðili hefur sótt um greiðsluaðlögun. Þá gildir við greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 sömu sjónarmið og gilda almennt í skuldaskilarétti um jafnræði kröfuhafa. Í því felst að ekki er heimilt að taka ákveðna kröfuhafa fram yfir aðra og gera við þá sérstakt samkomulag um skuldaskil þeirra krafna sem falla undir greiðsluaðlögun. Skýrt er tekið fram í a-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 að lánadrottnum sé óheimilt að taka við greiðslu á skuld sem fellur undir greiðsluaðlögun.
Heimild stjórnvalds til að falla frá fyrri ákvörðun sinni er varin í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæðið kveður á um heimildir stjórnvalda til að afturkalla ákvarðanir sem tilkynntar hafa verið aðila máls, ef það er ekki aðila til tjóns, sbr. 1. tölul. 25. gr., eða ef ákvörðun er ógildanleg, sbr. 2. tölul. sömu greinar. Með afturköllun í stjórnsýslurétti er þannig átt við það þegar stjórnvald tekur að eigin frumkvæði aftur lögmæta ákvörðun sína sem þegar hefur verið birt málsaðila. Hvort skilyrði afturköllunar eru fyrir hendi ræðst einkum af ástæðum stjórnvalds fyrir afturköllun annars vegar og þýðingu ákvörðunar fyrir þann sem hún beinist að hins vegar. Forsendur fyrir ákvörðun tollstjóra breyttust við það að kærandi sótti um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og var því forsendurbrestur fyrir fyrri ákvörðun tollstjóra um að samþykkja umsókn kæranda til að fresta greiðsluuppgjöri enda ljóst að skuldamál kæranda voru komin til umboðsmanns skuldara og að kærandi skuldaði ekki virðisaukaskatt né afdregna staðgreiðslu.
Ráðuneytið fellst ekki á þá málsástæðu að ákvörðun tollstjóra, dags. 8. mars 2012, sé ólögmæt á grundvelli þess að lög nr. 24/2010 hafi fallið úr gildi 31. desember 2011 þar sem lögin voru í fullu gildi þegar umsókn kæranda barst tollstjóraembættinu.
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að staðfesta beri ákvörðun tollstjóra, dags. 8. mars 2012.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 8. mars 2012, um að hafna að útbúa skuldabréf samkvæmt 5. gr. laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra











Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum