Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 440/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 440/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16080022

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. ágúst 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. ágúst 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Noregs.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 25. júní 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 25. júní 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi og Noregi. Þann 1. júlí 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda í Noregi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 6. júlí 2016 barst svar frá norskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 9. ágúst 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Noregs. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 30. ágúst 2016 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 1. september 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 19. september 2016. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Noregs. Lagt var til grundvallar að Noregur virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Noregs ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi bæri að yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Noregs, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Kærandi byggði mál sitt á því að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn hans um hæli verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að ekkert bendi til þess að flutningur kæranda til Noregs brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið er aðili að. Þá byggði kærandi mál sitt á að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefði í mars 2015 lagt fram tillögur sem hvetji til „fullrar beitingar“ fullveldisreglu 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem upphaflegur tilgangur hennar sé að deila ábyrgðinni af auknu innstreymi flóttamanna til Evrópu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að markmið Dyflinnarreglugerðarinnar sé fyrst og fremst að komast að niðurstöðu um það hvaða ríki beri ábyrgð á hælisumsókn til að tryggja skilvirka og hraða málsmeðferð og til að koma í veg fyrir að umsækjendur um hæli eigi virka hælisumsókn í fleiri en einu aðildarríki. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar var jafnframt tekið fram að beita þurfi undanþáguheimild 17. gr. af varkárni enda myndi annað leiða til þess að verulega drægi úr virkni kerfisins, auk þess sem tilviljanakennd framkvæmd væri til þess fallin að draga úr trúverðugleika kerfisins.

Þá byggði kærandi á því að endursending til Noregs væri ólögmæt í ljósi 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og að vankantar væru á málsmeðferð hælisleitenda frá [...] í Noregi þar sem norsk stjórnvöld synji umsóknum um hæli á grundvelli búsetu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að úrlausn útlendingamála í Noregi heyri undir sérstaka stofnun, „Utlendingsdirektoratet“. Ákvarðanir hennar sæti svo kæru til sérstakrar kærunefndar, „Utlendingsnemnda“, sem njóti sjálfstæðis gagnvart ráðuneyti dómsmála. Ummæli ráðuneytisstjóra dómsmála þar í landi gefi ekki tilefni til að ætla að horfið hafi verið frá því að leysa úr málum hælisleitenda með því að skoða aðstæður þeirra á einstaklingsgrundvelli. Það sé mat Útlendingastofnunar að málsmeðferð í Noregi sé í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Noregur og aðrar Evrópusambandsþjóðir hafa gengist undir við afgreiðslu hælisumsókna. Ekkert bendi til þess að flutningur kæranda til Noregs brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 33. gr. flóttamannasamningsins eða 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá telji Útlendingastofnun að kærandi eigi raunhæfa möguleika á að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum í Noregi og eftir atvikum fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

Jafnframt byggði kærandi mál sitt á því að hann hafi reynt að fá lögfræðing sinn til að leggja fram gögn í máli sínu en lögfræðingur hans hafi þó ekki orðið við þeirri beiðni. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að samkvæmt svari frá norskum yfirvöldum væri mál kæranda enn til meðferðar þar í landi og ætti kærandi því enn kost á að leggja fram gögn í máli sínu sem styðji umsókn hans um hæli. Að öðrum kosti gæti kærandi óskað þess að mál hans verði tekið upp að nýju á grundvelli nýrra gagna.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er aðstæðum hans í Noregi og í heimalandi hans [...] lýst. Kærandi kveðst eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum í [...] og að honum hafi verið synjað um hæli í Noregi og því sé ljóst að honum verði vísað aftur til [...]. Hann kveðst ekki vilja fara aftur til Noregs þar sem málsmeðferðin þar í landi hafi verið annmörkum háð sem hafi verið til þess fallnir að hafa neikvæð áhrif á ákvörðun í máli hans. Kærandi hafi ekki fengið skýrar upplýsingar um réttarstöðu sína, einkum vegna þess að honum hafi ekki verið tryggð fullnægjandi aðstoð túlks. Þá hafi lögfræðingur kæranda ekki sinnt máli hans með forsvaranlegum hætti þar sem hann hafi m.a. ekki lagt fram gögn í máli kæranda sem styðji umsókn hans um hæli.

Þá eru ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar rakin auk ákvæða laga um útlendinga og lögskýringargögn er liggja þeim að baki. Í greinargerð kæranda er vísað til d-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga og lögskýringagagna að baki þeim. Vísað er til þess að ákvæði 1. mgr. 46. gr. a kveði á um heimild til að synja um efnismeðferð en ekki skyldu. Kærandi bendir á að Útlendingastofnun hafi borið að horfa til þess hvort íslensk stjórnvöld myndu veita [...] ríkisborgurum í sambærilegri stöðu alþjóðlega vernd og hvort vísbendingar séu um að synjanir á hælisumsóknum í sambærilegum málum séu tíðari í Noregi. Þá feli synjanir norskra stjórnvalda, í nokkrum hluta umsókna, í sér brot á réttindum flóttamanna og beri því íslenskum stjórnvöldum skylda til að taka slík mál til efnislegrar meðferðar.

Í greinargerð kæranda kemur fram að nýlega hafi orðið breytingar á stefnu Noregs í málefnum hælisleitenda, sem raktar eru í greinargerð kæranda, og þá hafi andúð í garð hælisleitenda og flóttamanna þar í landi aukist. Þá sé tölfræði í málum er varða hælisumsóknir frá [...] ríkisborgurum í Noregi rakin yfir ákveðið tímabil. Kærandi telji að tölfræðin bendi annars vegar til þess að norsk stjórnvöld hafi breytt verklagi sínu við meðferð hælisumsókna með þeim hætti að hlutfallslega færri hljóti vernd en áður og hins vegar að tölfræðin beri þess merki að aðgerðir norskra stjórnvalda, sem hafa falið í sér að fæla hælisleitendur frá því að leggja fram umsókn um vernd í Noregi, hafi borið árangur.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að ráðuneytisstjóri norska forsætisráðuneytisins hafi nýlega lýst því yfir að norsk stjórnvöld stefni að því, í samvinnu við [...] stjórnvöld, að vísa [...] á brott til landsvæða innan [...] þar sem ekki standi yfir vopnuð átök. Í greinargerðinni er því haldið fram að með þessum ummælum virðist sem norsk stjórnvöld ætli ekki að virða þá meginreglu flóttamannaréttar að umsóknarríki sé óheimilt að gera heimaríki viðvart berist þeim umsókn um hæli, enda geti slíkar upplýsingar skapað hættu fyrir viðkomandi. Þá er í greinargerð vísað til skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um endursendingar [...] þar sem fram komi að ástandið í [...] sé bæði hættulegt og óstöðugt. Stofnunin hafi mælst til þess að ríki sendi ekki einstaklinga frá [...] til baka nema ástandið í landinu breytist umtalsvert og unnt verði að tryggja öryggi þeirra. Með endursendingu til Noregs taki íslensk stjórnvöld þannig ábyrgð á því að kæranda verði vísað aftur til [...] þar sem líf hans sé í hættu. Slík ákvörðun væri að mati kæranda ólögmæt með vísan í 45. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar, máli sínu til stuðnings, einnig til 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Kærandi byggir kröfur sínar jafnframt á því að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 50. gr. laga um útlendinga þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Í greinargerð kæranda er bent á að í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til skýrslna um ástand mannréttindamála í Noregi frá árinu 2015 en á árinu 2016 hafi orðið miklar breytingar á ástandi hælismála í allri Evrópu. Því beri Útlendingastofnun skylda til að notast við áreiðanlegar og uppfærðar upplýsingar við ákvarðanir sínar. Af hálfu kæranda er því haldið fram að Útlendingastofnun geti ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína án þess að taka afstöðu til þess hvort uppfærðar upplýsingar gefi tilefni til breyttrar afstöðu til ástandsins.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að norsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka umsókn kæranda um hæli ekki til efnismeðferðar og vísa honum til Noregs.

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má heldur ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu getur sú staða komið upp að endursending hælisleitenda til einstakra ríkja geti verið í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu vegna aðstæðna í viðkomandi móttökuríki. Við endursendingar innan Dyflinnarsamstafsins ber aðildarríkjum að leggja sjálfstætt mat á hvort meðferð hælisumsókna og móttaka og aðbúnaður hælisleitenda í móttökuríki sé í samræmi við ákvæði sáttmálans og þá að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna hverju sinni. Ber því að skoða aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Noregi.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Noregi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi gögnum:

· Norway 2015 Human Rights Report (United States Department of State, 13. apríl 2016)

· Freedom in the World 2015 – Norway (Freedom House, 10. ágúst 2015)

· Amnesty Interational Report 2015-2016 – Norway (Amnesty International, 24. febrúar 2016)

· Information for asylum seekers in Norway (Norwegian Organisation for Asylum Seekers, 2011)

· Information Note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (European Council on Refugees and Exiles, október 2015)

· Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees: For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: NORWAY (UNHCR, september 2013)

· UNHCR Observations on the proposed amendments to the Norwegian Immigration Act and Regulation: Høring – Endringer i utlendingslovgivningen (Innstramninger II) (UNHCR, 12. febrúar 2016)

· UNHCR proposals to address current and future arrivals of asylum-seekers, refugees and migrants by sea to Europe (UNHCR, mars 2015)

· Guidelines on international protection: "Internal Flight or Relocation Alternative" within the Context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (23. júlí 2003)

· Upplýsingar af vefsíðum landinfo (www.landinfo.no), norsku útlendingastofnunarinnar (www.udi.no), norsku kærunefndar útlendingamála (www.une.no), Lovdata (www.lovdata.no), norskra stjórnvalda (www.regjeringen.no), norskra dómstóla (www.domstol.no) og norskra samtaka fyrir hælisleitendur (www.noas.no).

Af framangreindum gögnum má ráða að hælisleitandi eigi rétt á að túlkur sé viðstaddur í viðtali hjá norsku útlendingastofnuninni. Þá kemur fram að sú skylda hvíli á hælisleitanda að gera umsvifalaust viðvart þeim aðila sem stýrir viðtalinu ef viðkomandi á í erfiðleikum með að skilja það sem þar fer fram. Að loknu viðtali undirritar hælisleitandi skýrslu þess efnis að hann hafi skilið það sem fram fór í viðtalinu. Sé eitthvað sem hælisleitandi vilji breyta eða gera athugasemdir við skuli gera slíkt áður en skýrslan er undirrituð. Af þessu má ráða að hælisleitandi á að hafa forsendur til að láta norsk yfirvöld vita af ófullnægjandi túlkaþjónustu og ef skortir á upplýsingar varðandi réttarstöðu í viðtölum hjá útlendingastofnuninni. Hælisleitandi geti jafnframt óskað þá þegar eftir frekari útskýringum á tungumáli sem hann skilur.

Samkvæmt ofangreindum gögnum eiga hælisleitendur í Noregi rétt á ákveðnum fjölda klukkustunda í lögfræðiþjónustu ef hælisumsóknum þeirra er synjað af útlendingastofnun. Hælisleitendur eiga jafnframt rétt á að kæra þá niðurstöðu til kærunefndar. Hælisleitendur fá því aðstoð lögfræðings á kærustigi og hafa þeir nokkurt val um hvaða lögfræðingur sinni þeirra máli. Þá geta hælisleitendur leitað til mannúðarsamtaka sem veita lögfræðiþjónustu.

Á meðan hælismál er til meðferðar hjá norskum stjórnvöldum geta umsækjendur lagt fram gögn í málinu sem styðja við umsókn um hæli. Þá er hægt að óska þess að mál séu tekin upp að nýju á grundvelli nýrra gagna. Fái umsækjandi um hæli í Noregi synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun eða kærunefnd á hann möguleika á því að bera málið undir dómstóla eða leggja fram beiðni um endurupptöku á máli sínu hjá útlendingastofnun. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli kæranda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði endurupptöku verið uppfyllt. Þá geta hælisleitendur borið mál sitt undir norska dómstóla sé endurupptökubeiðni þeirra synjað. Jafnframt eiga hælisleitendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á hæli hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Kærandi ber fyrir sig að norsk yfirvöld sendi [...] umsækjendur um alþjóðlega vernd aftur til heimaríkis í bága við ákvæði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Byggt er m.a. á því að synjunarhlutfall norskra yfirvalda á umsóknum [...] borgara sé mun hærra en meðaltal ríkja Evrópusambandsins og að norsk yfirvöld hafi lýst hluta [...] sem öruggt svæði í bága við tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Kærunefnd hefur yfirfarið tölfræðigögn frá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) en samkvæmt þeim er verulegur mismunur á hlutfalli synjana umsókna frá [...] ríkisborgurum á milli ríkja sambandsins. Þannig eru synjunarhlutföll í Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi hærri en í mörgum öðrum ríkjum, svo sem í Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi og Belgíu. Þótt þessar tölfræðiupplýsingar bendi til þess að norsk yfirvöld túlki rétt til alþjóðlegrar verndar þrengra en mörg önnur Evrópuríki telur kærunefndin að synjunarhlutfall norskra yfirvalda sé hvorki nægileg ástæða til að það eitt og sér komi í veg fyrir endursendingu með vísan til 45. gr. laga um útlendinga né til að beita heimild 2. mgr. 46. gr. a sömu laga og taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Þá telur kærunefnd að skilgreining norskra yfirvalda á tilteknum hlutum [...] sem öruggum svæðum ekki ein og sér gefa til kynna að meðferð umsókna um hæli kunni að brjóta í bága við bann við endursendingu útlendinga til svæðis þar sem líf þeirra eða frelsi kunni að vera í hættu, sbr. 45. gr. laga um útlendinga. Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda eindregið til þess að málsmeðferð norskra yfirvalda sé nægilega vönduð og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að tryggja að réttur sé ekki á þeim brotinn og að einstaklingsbundið mat verði lagt á aðstæður þeirra. Ekkert bendi til þess að [...] hælisleitendum sé synjað sjálfkrafa um hæli í Noregi eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli.

Athugun kærunefndar á aðstæðum hælisleitenda í Noregi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði hælisleitenda þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Noregs brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hann sendur þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Noregi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Noregs á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að norsk stjórnvöld samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og er því lagt til grundvallar að hælismáli kæranda sé ekki lokið í Noregi. Af gögnum málsins fæst ekki annað séð en að kærandi eigi þess kost að fá viðeigandi aðstoð við meðferð hælismáls síns í Noregi og eigi raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum þar í landi. Vegna athugasemdar í greinargerð varðandi rannsókn málsins tekur kærunefnd fram að ekki fæst annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi byggt á nýlegum skýrslum um aðstæður í Noregi. Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli nauðsynlegra gagna svo mál sé nægjanlega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Eins og að framan greinir tekur kærunefnd undir það mat, sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar, um aðstæður í Noregi, og telur ekki tilefni til að gera athugasemd við rannsókn málsins.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 25. júlí 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna, sbr. framangreint ákvæði.

Í máli þessu hafa norsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um hæli á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er telur kærunefndrétt að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um hæli hér á landi og senda kæranda til Noregs með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Þorbjörg Inga Jónsdóttir Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum