Hoppa yfir valmynd
25. maí 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Unnt að auka tekjur með vegatollum og einkaframkvæmd

Fjallað var um ýmsar hliðar á fjármögnun samgöngumannvirkja á þriðja fundi samgönguráðs um stefnumótun í samgöngum í gær. Kom þar meðal annars fram að einkaframkvæmd með veggjöldum sé leið til að auka tekjur til gerðar samgöngumannvirkja og að brýnt sé að finna fjáröflunarleiðir til að sinna brýnum samgönguframkvæmdum.

Fundur um fjármögnun samgöngumannvirkja.
Fundur um fjármögnun samgöngumannvirkja.

Astrid Fortun, yfirverkfræðingur hjá norsku vegagerðinni, greindi frá tilhögun norskra yfirvalda á innheimtu veggjalda sem er viðhöfð víða um landið og hvernig einkaframkvæmd hefur einnig verið notuð í nokkrum verkefnum og þá innheimt veggjald til að greiða að minnsta kosti hluta fjárfestingarinnar.

Sigfús Jónsson, framkvæmdastjóri Nýsis, sagði að einkaframkvæmd í vegagerð gæti átt við umfangsmikil fjárfestingarverkefni þar sem samningstími væri langur. Unnt væri að beita mismunandi aðferðum við endurgreiðslu. Hann dró fram kosti einkaframkvæmdar í vegagerð og sagði hið opinbera sjá um að þjónusta væri veitt en þyrfti ekki sjálft að eiga og reka mannvirkið. Taldi hann einnig að með þessu væri beitt ríkari ábyrgð og aðhaldi, að hið opinbera gerði kröfu til einkaaðilans um að þjónustukröfum sé mætt og gæti beitt sektarákvæðum ef svo væri ekki. Þá taldi hann það til kosta að við undirbúning framkvæmda væri lagt í samkeppni um hönnun og lausnir. Taldi Sigfús mörg tækifæri til að beita einkaframkvæmd á Íslandi enda væri mikill ávinningur af því að flýta framkvæmdum.

Álitleg leið ef hún er ódýrari kostur

Stefán Jón Friðriksson, sem átti sæti í nefnd samgönguráðherra til að meta hvar einkaframkvæmd gæti átt við í samgöngum, rakti helstu niðurstöður nefndarinnar. Hann sagði skilyrði fyrir einkaframkvæmd vera meðal annars þau að tilboð verktaka í einkaframkvæmd væri lægra en kostnaðaráætlun verkkaupa um eiginframkvæmd, gjöld væru greidd beint af notendum eða með styrkjum frá hagsmunaaðilum og að framkvæmd hafi ekki áhrif á forgangsröðun annarra framkvæmda. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að einkaframkvæmd í samgöngum væri álitileg leið ef hún væri að núvirði ódýrari kostur en eiginframkvæmd, ef hagkvæm leið til gjaldtöku væri fyrir hendi og ef annar kostur væri um leiðarval. Þá segir í áliti nefndarinnar að til greina komi að ganga til samstarfs við áhugaaðila um einkaframkvæmd ef hann tryggir fjármagn til verksins í formi veggjalds eða beinna framlaga sem standi undir að minnsta kosti 90% af framkvæmdakostnaði. Þannig hefði hún óveruleg áhrif á röð annarra framkvæmda.

Astrid Fortun sagði áratuga reynslu fyrir innheimtu veggjalda í Noregi og væri hún við lýði á 44 stöðum í dag. Sagði hún þessa leið aðallega hafa verið notaða við brýr og jarðgöng en í fyrstu hefði ríkissjóður fjármagnað verkefnin að mestu. Einnig sagði hún að vegatollar væru ekki endilega bundnir við einkaframkvæmd, oft hefði sú leið verið farin þótt framkvæmt væri á vegum yfirvalda. Frá 1980 hefði þróunin verið æ meira í átt til veggjalda og frá þeim tíma hefðu þau verið kringum 30% af fjárfestingu í vegakerfinu. Á þessu ári fjármagna vegatollar kringum 42% af fjárfestingum vegna vega í Noregi. Hún sagði að frumkvæði að innheimtu veggjalda yrði að koma frá heimamönnum og fá yrði samþykki viðkomandi sveitarstjórna auk stórþingsins og að megin skilyrðið væri að þeir sem greiði veggjöld hafi af því ávinning. Þá sagði hún veggjöld yfirleitt innheimt í 15 ár, stöku sinnum í 20 ár, og að um 50% kostnaðar við framkvæmdir væri fjármagnaður með vegatollum þegar sú leið væri farin.

Hér má glærukynningu Astrid Fortun.

Hér má sjá glærur Sigfúsar Jónssonar.

Hér eru glærur Stefáns Jóns Friðrikssonar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira