Hoppa yfir valmynd
15. september 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samgönguvika sett á morgun

Samgönguvika er 16. - 22. september - mynd

„Snjallar samgöngur – betri hagur“ er yfirskrift Samgönguviku í ár, en hún verður sett á morgun 16. september, á Degi íslenskrar náttúru. Um er að ræða samevrópska viku sem árlega stendur yfir dagana 16. – 22. september.

Þema vikunnar vísar til þess ávinnings sem er af því að nýta annars konar samgöngur en einkabíl til að komast á milli staða. Sá ávinningur er efnahagslegur, umhverfislegur og heilsufarslegur bæði fyrir hvern og einn einstakling sem og samfélagið í heild.

Fjöldi viðburða verða á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka í vikunni en nálgast má dagskrá vikunnar hér á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, á heimasíðum sveitarfélaganna, auk Facebook síðu vikunnar.

Þannig verður boðið í göngu- og hjólatúra, efnt til ljósmyndasamkeppni, hjólahreystibraut opnuð, efnt til hjólreiðamóts, fræðsluskilti afhjúpuð, hjóla- og göngustígar opnaðir og efnt til daglangrar hjólaráðstefnu um hjólið og náttúruna.

Ráðstefnan Hjólað til framtíðar verður haldin í sjötta sinn í samstarfi við sveitarfélögin á höfðuborgarsvæðinu og fleiri aðila en markmið hennar er að ýta undir fjölbreytta ferðamáta og auka veg hjólreiða á Íslandi. Í ár er ráðstefnan haldin á upphafsdegi Samgönguviku og á Degi íslenskrar náttúru og er þema hennar því Hjólið og náttúran.

Vikan endar svo á „frídegi bílsins“, 22. september þegar almenningur er hvattur til þess að skilja bílinn eftir heima og til að auðvelda það býður Strætó ókeypis í strætó á höfuðborgarsvæðinu.

Myndband – Snjallar samgöngur, betri hagur

Dagskrá Samgönguviku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum