Hoppa yfir valmynd
19. júní 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 79/2002

Miðvikudaginn 19. júní 2002

79/2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru dags. 29. apríl 2002, sem barst 6. maí 2002 kærir A til Úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um bótaskyldu vegna […].

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir skv. málsgögnum að með tilkynningu um slys dags. 24. október 2001 tilkynnti B um slys sem kærandi varð fyrir við æfingar í […] þann X 2001. Slysið átti sér stað í C. Kærandi leitaði strax læknis og við skoðun kom í ljós að innra liðband í hægra hné var teygt og liðþófi skemmdur. Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu vegna slyssins með bréfi dags. 30. janúar 2002, með þeim rökum að íþróttamenn sem búsettir eru erlendis og æfa að jafnaði erlendis séu ekki slysatryggðir við æfingar.

Í rökstuðningi með kæru segir:

„ Ég kæri þennan úrskurð með þeim rökum að ég hef aldrei haft fasta búsetu erlendis. Ég hef haft mitt lögheimili á D. Ég hef ekki haft neinar tekjur erlendis og greiði skatta hér á landi. Vegna æfinga erlendis þá vil ég benda á að aðstæður eru ekki fyrir hendi hér á landi til að æfa […]. Ég verð því að vera mikið erlendis til að fá þá aðstöðu sem nauðsynleg er til að stunda mína íþrótt.

Ég tel því að slysið sé bótaskyld út frá þessum rökum.

P.S. Sennilega er kærufrestur útrunninn en ég var við æfingar fyrir E þegar úrskurðurinn var sendur mér og týndist.”

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar TR með bréfi dags. 7. maí 2002. Barst greinargerð dags. 27. maí 2002. Þar segir:

„ Tryggingastofnun ríkisins barst þann 31. október 2001 tilkynning A um slys samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga vegna íþróttaslyss er hann varð fyrir X 2001. Erindinu var synjað þann 30. janúar 2002 og er sú ákvörðun nú kærð.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 177/1993 [innsk. á að vera 117/1993] um almanna­tryggingar taka slysatryggingar til slysa við íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni á vegum viðurkennds íþróttafélags og undir stjórn þjálfara. Slysatryggingar samkvæmt íslenskum almannatryggingalögum ná eðli máls samkvæmt til slysa er verða á íslensku landsvæði. Tryggingastofnun hefur túlkað ákvæði laga og reglugerða um slysatryggingar þannig að íþróttamenn hafa verið taldir slysatryggðir í afmörkuðum æfinga- og keppnisferðum til annarra landa á vegum síns íslenska félags og undir stjórn þjálfara félagsins. Íþróttamenn sem búsettir eru erlendis og æfa að jafnaði erlendis eru hins vegar ekki slysatryggðir samkvæmt íslenskum almanna­tryggingalögum við þær æfingar.

Þess skal getið að útgjöld slysatrygginga íslenskra almannatrygginga eru almennt borin af íslenskum atvinnurekendum en í 31. gr. almannatrygginga­laga segir að útgjöld slysatrygginga séu borin af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi. Ekki er sérstakt iðgjald vegna íþróttaslysa.

Í gögnum málsins kemur fram að A æfi með [...]. A hafði áður upplýst hjá Tryggingastofnun að æfingar hans standi yfir mest allt árið og að hann æfi á ýmsum stöðum svo sem [...]. A uppfyllir því ekki þau skilyrði að æfa hér á landi og keppa hjá viðurkenndu félagi innan ÍSÍ.

Með vísan til framangreinds var umsókn A um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga því synjað.

Nefna má að teljist A áfram hafa búsetu á Íslandi þrátt fyrir langtíma dvöl erlendis er hann sjúkratryggður á Íslandi og fengi þar af leiðandi hluta kostnaðar greiddan.

Þess skal getið að 3 mánaða kærufrestur skv. 7. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 er liðinn þar sem afgreiðsla málsins er þann 30. janúar sl. en kæran er ekki dagsett fyrr en 6. maí sl. og ber ekki að taka mál fyrir að nýju nema veigamiklar ástæður mæli með því.”

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 28. maí 2002 og honum gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og/eða athugasemdum. Slíkt hefur ekki borist.

Álit úrskurðarnefndar:

Samkvæmt 7. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum, er heimilt að kæra til Úrskurðarnefndar almannatrygginga mál er varða grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun lá fyrir í máli.

Mál kæranda var afgreitt hjá Tryggingastofnun þann 30. janúar 2002, en kæra er dags. 29. apríl 2002 og var móttekin hjá úrskurðarnefnd 6. maí 2002. Kemur því til skoðunar hvort vísa eigi málinu frá þar sem kærufrestur hafi verið liðinn. Úrskurðarnefndin hefur mótað þá vinnureglu að kærufrestur skuli miðast við 5 daga umfram þrjá mánuði sbr. orðalag 1. mgr. 7. gr. laga nr. 117/1993. Helgast reglan af því, að atvik geta verið með þeim hætti að kæra tefjist í pósti, beri upp á helgidaga eða því um líkt. Kærendur eiga rétt á fullum þriggja mánaða kærufresti og er mikilvægt að þeir njóti alls vafa í þeim efnum. Kæra í máli þessu barst fyrst Tryggingastofnun en var ekki móttökustimpluð og kom þaðan til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin lítur því svo á að kæra hafi borist innan frests og verður fjallað um hana efnislega.

Í máli þessu er um það deilt hvort slys sem kærandi varð fyrir við [...] erlendis telst bótaskylt samkvæmt slysatryggingakafla almannatryggingalaga nr. 117/1993.

Kærandi er íslenskur ríkisborgari með lögheimili á Íslandi en dvelur langdvölum erlendis við [...], þar sem aðstæður til slíks bjóðast ekki á Íslandi. Kærandi er í B og í [...]. Ágreiningslaust er að þegar slysið varð var kærandi við æfingar erlendis undir handleiðslu [þjálfara].

Skv. 22. gr. almannatryggingalaga taka slysatryggingar m.a. til slysa við hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt 24. eða 25. gr. laganna. Í 24. gr. segir að slysatryggt sé:

,,Íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkun, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og orðið er 16 ára. Með reglugerðarákvæði má ákveða nánar gildissvið þessa ákvæðis.”

Þegar kærandi varð fyrir slysi í X 2001 hafði ekki verið sett reglugerð á grundvelli tilvitnaðrar lagaheimildar. Núgildandi reglugerð nr. 245/2002 tók gildi 1. apríl 2002 og tekur til slysa sem eiga sér stað eftir 31. mars 2002.

Lög um almannatryggingar eru í eðli sínu félagsleg löggjöf sem ætlað er að veita ákveðna lágmarks tryggingavernd í nánar tilteknum tilvikum. Að mati úrskurðar­nefndar ber að túlka lögin með þeim hætti að þau nái tilgangi sínum um opinbera aðstoð uppfylli menn skilyrði skv. lögunum til bóta. Kærandi var við íþróttaþjálfun undir handleiðslu þjálfara og hjá viðurkenndu félagi þegar slysið varð. Hann er því slysatryggður skv. orðanna hljóðan skv. 22. gr. sbr. 24. gr. almannatryggingalaga. Ekki er að finna í tilvitnuðum lagaákvæðum skilyrði að um æfingar fari fram á Íslandi. Dæmi eru um að greiddar hafa verið bætur til íþróttafólks sem er í keppnisferðum erlendis. Telur úrskurðarnefndin að með vísan til þessa eigi að túlka umrædd ákvæði rúmt í tilviki kæranda. Þá bendir nefndin á að þrátt fyrir heimild í e. lið 24. gr. in fine þá höfðu stjórnvöld ekki sett reglugerð sem takmarkaði gildissvið ákvæðisins.

Sú verklagsregla sem Tryggingastofnun leggur til grundvallar ákvörðun sinni að bótaskylda sé eðli máls skv. takmörkuð við slys á íslensku landsvæði eða slys sem verða í afmörkuðum íþróttaferðum fer gegn orðalagi lagaákvæðins og er ekki reist á málefnalegum sjónarmiðum að mati nefndarinnar. Að mati nefndarinnar skortir grundvöll fyrir reglunni.

Bótaskylda er því viðurkennd.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Bótaskylda vegna slyss A, þann X 2001 er viðurkennd.

F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum