Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 23/2017. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 8. febrúar 2018

í máli nr. 23/2017:

Icecool á Íslandi ehf.

gegn

Landsneti hf. og

Arctic Trucks ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 20. október 2017 kærði Icecool á Íslandi ehf. svonefnda verðfyrirspurn Landsnets hf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkenndar „Breytingar á Ford 350“. Kærandi krefst þess að hafi „varnaraðili gert samning vegna útboðs á breytingum á tveimur Ford 350 bifreiðum á biðtíma“ lýsi kærunefnd útboðsmála samninginn „óvirkan frá upphafi.“ Þá er þess krafist að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í innkaupaferlinu verði felld úr gildi og „lagt verði fyrir varnaraðila að semja við kæranda.“ Til vara er þess krafist að varnaraðila verði gert „að auglýsa útboðið  á nýjan leik.“ Þess er einnig krafist að nefndin láti upp álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem krafist er málskostnaðar.

          Varnaraðila og Arctic Trucks ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Landsnet hf. sendi kærunefnd tölvuskeyti 26. október og 24. nóvember 2017 sem skilja verður sem svo að fyrirtækið krefjist þess að kröfum kæranda verði vísað frá kærunefnd útboðsmála. Ekki bárust athugasemdir frá Arctic Trucks ehf. Kærandi skilaði andsvörum 29. desember 2017.

          Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10. nóvember 2017 var hafnað þeirri kröfu kæranda að hið kærða útboð yrði stöðvað um stundarsakir.

I

Af gögnum málsins verður ráðið að 20. september 2017 hafi kæranda verið send verðfyrirspurn um breytingar á tveimur Ford 350 bifreiðum. Óskað var eftir að tilboð yrðu send fyrir 27. september sl. Í verðfyrirspurnargögnum kom nánar fram í hverju breytingar á umræddum bifreiðum skyldu fólgnar auk þess sem fram kom að tilboð bjóðenda skyldu innhalda upplýsingar um hvaða íhlutir yrðu settir í bifreiðarnar, verð á íhlutum og heildarverð verkefnis. Jafnframt skyldu tilboð innifela þjónustu vegna bilana og galla. Kom fram að varnaraðili myndi meta tilboðin og halda samningafundi með bjóðendum til að fara yfir lausnir, útfærslu og þjónustu bjóðenda og jafnframt að bjóðendur fengju tækifæri í kjölfarið til að uppfæra tilboð sín. Kærandi skilaði tilboði með tölvupósti 27. september sl. samtals að fjárhæð 25.288.500 krónur fyrir breytingar á tveimur bifreiðum. Varnaraðili óskaði eftir breyttu tilboði frá kæranda 9. október þess árs og í kjölfarið virðast kærandi og varnaraðili hafa fundað 13. sama mánaðar. Með tölvupósti varnaraðila 19. október 2017 var kæranda tilkynnt að varnaraðili hefði ákveðið að taka tilboði Arctic Trucks ehf. að fjárhæð 10.624.857 krónur sem verður að skilja að miðist við breytingar á einni bifreið.

II

Málatilbúnaður kæranda byggir á því að um útboð hafi verið að ræða sem hafi verið yfir viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Varnaraðila hafi því borið að að bjóða verkið út á EES- svæðinu. Þá hafi framkvæmd útboðsins ekki verið í samræmi við markmið laga um opinber innkaup um hagkvæmni og jafnræði. Óljóst hafi verið hvaða kröfur væru gerðar til breytinga á bifreiðum varnaraðila. Þá hafi ekkert tilboðsblað fylgt gögnum og bjóðendur hafi því boðið mismunandi lausnir. Tilboð hafi því ekki verið samanburðarhæf. Auk þess hafi forsendur fyrir vali tilboða ekki verið tilgreindar í útboðsgögnum og því óljóst á hvaða grunni varnaraðili hygðist velja tilboð. Þá hafi sú framkvæmd að heimila bjóðendum að skila tvisvar inn tilboðum í sama verkið verið óheimil. Jafnframt er byggt á því að innkaupunum hafi ekki verið hagað í samræmi við meginreglur útboðsréttar og virt hafi verið að vettugi 16. gr. reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu þar sem segi að við innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum skuli kaupandi ávallt gæta að hagkvæmni og meginreglum um jafnræði, gagnsæi og banni við mismunun. Framkvæmd útboðsins hafi verið í andstöðu við framangreindar meginreglur.

III

Af hálfu varnaraðila er byggt á því að innkaupin hafi verið undir viðmiðunarfjárhæð samkvæmt reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Um sé að ræða verðfyrirspurn en ekki útboð. Varnaraðili hafi ekki gert skriflega kostnaðaráætlun en við mat á því hvort innkaupin hafi verið yfir viðmiðunarfjárhæðum hafi verið byggt á upplýsingum úr bókhaldi við fyrri breytingar og hafi það verið mat varnaraðila að kostnaður við verkefnið færi ekki yfir 25 milljónir króna. 

IV

Í máli þessu verður að miða við að varnaraðili teljist til veitustofnunar sem hafi með höndum starfsemi sem fellur undir 9. gr. reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sem fól í sér innleiðingu tilskipunar nr. 2014/25/ESB um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu í íslenskan rétt („veitutilskipunin“). Þá verður að miða við að með hinum kærðu innkaupum hafi varnaraðili stefnt að gerð vöru- eða þjónustusamnings í skilningi 3. og 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Reglugerðin gildir um innkaup á vöru, þjónustu eða verki er varðar starfsemi sem fellur undir reglugerðina þar sem áætlað verðmæti án virðisaukaskatts er jafnt eða meira en þær viðmiðunarfjárhæðir sem tilgreindar eru í 15. gr. hennar. Viðmiðunarfjárhæð nemur nú 64.438.880 krónum þegar um er að ræða vöru- og þjónustusamninga. Ekki liggur fyrir kostnaðaráætlun vegna innkaupanna, en varnaraðili hefur upplýst að við mat á því hvort umrædd innkaup væru útboðsskyld samkvæmt framangreindu hafi hann stuðst við upplýsingar úr bókhaldi um fyrri breytingar á bifreiðum sínum og hafi það verið mat hans að kostnaður við verkið næmi ekki hærri fjárhæð en 25 milljónum króna. Þá liggur fyrir að kærandi skilaði inn tilboðum upphaflega samtals að fjárhæð 25.288.500 krónum. Það tilboð sem var valið var hins vegar að fjárhæð 21.249.714 krónur. Samkvæmt þessu er fram komið að framangreind innkaup náðu ekki viðmiðunarfjárhæðum og voru því ekki verið útboðsskyld samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 340/2017.

          Samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er hlutverk kærunefndar útboðsmála að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim, þar á meðal innkaup opinberra aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Hin kærðu innkaup féllu samkvæmt framansögðu ekki undir reglugerð nr. 340/2017 og fellur ágreiningur aðila því ekki undir valdsvið kærunefndar útboðsmála. Verður því að vísa máli þessu frá kærunefnd útboðsmála.

          Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Icecool á Íslandi ehf., vegna innkaupaferlis varnaraðila Landsnets hf. auðkennt „Breytingar á Ford 350“, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

          Málskostnaður fellur niður.

              Reykjavík, 8. febrúar 2018.

                                                                                 Skúli Magnússon

                                                                                 Stanley Pálsson

                                                                                Ásgerður Ragnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum