Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Málþing um rafræna sjúkraskrá

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra í ræðustól á Málþingi um rafræna sjúkraskrá
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra í ræðustól á Málþingi um rafræna sjúkraskrá

Það verður að gera átak í að byggja upp rafræna sjúkraskrá fyrir allt landið, sagði heilbrigðisráðherra á málþingi um málefnið í dag. Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, bætti því að að veruleg hætta væri á að Íslendingar drægjust aftur úr öðrum þjóðum á þessu sviði ef ekki yrði ráðist í þetta átak.

Málþing um rafræna sjúkraskrá var haldið á Landspítalanum til að kynna tillögur stýrihóps heilbrigðisráðuneytisins um upplýsingatækni á heilbrigðissviði. Formaður stýrihópsins, Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, lýsti ásamt Valgerði Gunnarsdóttur frá heilbrigðisráðuneytinu, sjálfum tillögunum, en auk þess var bæði fjallað um kröfulýsingar sem gera þarf og um almennan aðgang sjúklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum. Um hið síðast talda fjallaði Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, sagði meðal annars í erindi sem hann hélt í Hringsal Landspítalans: „Eins og ykkur er kunnugt liggur nú fyrir Alþingi nýtt frumvarp um sjúkraskrár sem leggja mun grundvöll að miklum framförum í heilbrigðisþjónustu á Íslandi meðal annars með því að þar er lagt til að tengja megi saman sjúkraskrár t.d. í heilbrigðisumdæmunum. Því má e.t.v. best lýsa þannig að ef frumvarpið verður að lögum sé kominn grundvöllur fyrir því að byggja hraðbrautir heilbrigðisupplýsinga og brýr, en slík styrking innviða heilbrigðiskerfisins mun í sjálfu sér verða stórkostleg framför. Frumvarpið er þannig forsenda þess að tillögur um sameiningu geti orðið að veruleika þótt mörg önnur verkefni megi vinna þangað til það verður.

Þróun rafrænnar sjúkraskrár á Íslandi hefur verið hæg undanfarin ár. Kemur þar margt til sem ekki skal rakið hér. Nú er svo komið að ekki verður undan vikist að gera átak í þeim efnum. Vel má byggja á því sem fyrir er en taka þarf ný skref og setja kraft í þróunina þó ekki séu peningakistur landsins fullar. Vilji, og skipulag skiptir þarna miklu máli.

Undanfarna mánuði hefur verið að störfum á vegum ráðuneytisins stýrihópur sem nú hefur skilað áfangaskýrslu með stefnumótunartillögum fyrir framþróun í málefnum rafrænnar sjúkraskrár á Íslandi og eru þær kynntar hér í dag. Slík kynning er nauðsynleg og gagnleg því samstarf og samvinna um úrlausnir eru undirstaða þess að vel geti til tekist. Það er því mikilvægt að þið látið álit ykkar í ljós á því sem fram kemur hér á eftir og ég vona að þetta málþing og umræðan verði hreinskipt, uppbyggileg og gagnleg fyrir alla.“

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra ávarpar Málþing um rafræna sjúkraskrá

Málþing um rafræna sjúkraskrá 12. mars 2009Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira