Hoppa yfir valmynd
9. október 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Framhald á lokunarstyrkjum

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja fyrir Alþingi breytingar á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru með það fyrir augum að tryggja framhald á lokunarstyrkjum til rekstraraðila sem gert er að sæta lokun á starfsemi eða stöðva hana frá 18. september 2020.

Lögin eru hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldurs
kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.

Stærsta breytingin með frumvarpinu varðar fjárhæðir lokunarstyrkja sem sæta nú ekki sömu hámörkum og áður en samanlagt hámark lokunarstyrkja var 3,6 milljónir í vor. Óbreytt er að fjárhæð styrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði á tímabili lokunar. Hún getur þó ekki orðið hærri en 600 þús. kr. á hvern launamann hjá rekstraraðila fyrir hverja samtals 30 daga lokun. 

Í ljósi þess að óvissa ríkir um þróun farsóttarinnar er lagt til að heimild til framlengingar verði ekki einskorðuð við þá rekstraraðila sem þegar hefur verið gert að loka starfsemi sinni tímabundið nú í haust. Þannig er lagt til að úrræðið hafi gildistíma fram á mitt ár 2021 og verði tekið til endurskoðunar á fyrsta ársfjórðungi 2021 m.t.t. aðstæðna og þróunar faraldursins.

Skilyrði styrkveitinga í frumvarpinu eru í öllum meginatriðum sambærileg og vegna fyrri lokunarstyrkja.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum