Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2012 Utanríkisráðuneytið

Aukið markaðsstarf í sjávarútvegi og skapandi greinum

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra talar á aðalfundi Íslandsstofu 27. apríl 2012 (mynd: Arnaldur Halldórsson)
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra talar á aðalfundi Íslandsstofu 27. apríl 2012 (mynd: Arnaldur Halldórsson)

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, varpaði fram þeirri hugmynd í ávarpi sínu í dag á ársfundi Íslandsstofu að hluti af veiðileyfagjaldi, eða á bilinu 500 til 600 milljónir króna, yrði notaður til þess að stórefla markaðsstarf í þágu íslensks sjávarútvegs. Hann sagði markaði íslenskra sjávarafurða líka vera auðlind, líkt og sjóinn sjálfan, því þar ræðst hvað fæst fyrir aflann. Hann rakti markvisst markaðsstarf Norðmanna sem eyða á hverju ári sem nemur 9 milljörðum króna til markaðsstarfs af þessu tagi. Sagði utanríkisráðherra að færu Íslendingar sömu leið þá yrði innan vébanda Íslandsstofu komið á fót 7 manna sérsveit sem ynni að 30-40 sjávarútvegsverkefnum á ári sem miðuðu að því að styrkja ímynd íslenskra fiskafurða og auka útflutning.

Utanríkisráðherra hvatti sömuleiðis til áframhaldandi sóknar í þágu lista og skapandi greina á Íslandi. Hann sagði mikilvægt að flétta þessa vaxandi og mikilvægu atvinnugrein betur inn í starf Íslandsstofu en þegar hefði náðst góður árangur í að stilla saman menningarkynningu Íslandsstofu, sendiráða og kynningarmiðstöðva listgreina gegnum fagráð lista og skapandi greina. Utanríkisráðherra sagði ráðuneyti utanríkismála, mennta- og menningarmála og iðnaðar, sem hvert um sig veita ákveðnu fjármagni til málaflokksins, reiðubúin til þess að leggja sitt af mörkum, mögulega með því að slá framlögum sínum saman og láta þau renna til Íslandsstofu í því skyni að gera tilraun til að auka enn samræmingu og samlegðaráhrif.

Aðalfundur Íslandsstofu var fyrsti fundurinn eftir heilt starfsár frá því að stofnunin tók til starfa á grundvelli nýrra laga frá Alþingi. Utanríkisráðherra hrósaði starfsfólki og hinum fjölmörgum ólíku aðilum sem tengjast Íslandsstofu fyrir frábæran árangur sem þegar hefði náðst í ferðaþjónustu og nefndi í því samhengi sérstaklega landkynningarátakið Inspired by Iceland og framhald þess „Ísland allt árið.“ Einnig þakkaði hann Íslandsstofu fyrir vandaða stefnumótunarvinnu sem hann sagði vísa til að skila góðum árangri í framtíðarstarfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum