Hoppa yfir valmynd
27. september 1996 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/1996

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 2/1996

A
gegn
Landsbanka Íslands

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 27. september 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu: 

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 3. mars 1996 fór A þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Landsbanki Íslands (LÍ), Neskaupstaðarútibú, hefði með ráðningu B í starf gjaldkera brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Landsbanka Íslands um:

  1. Afstöðu bankans til erindisins.
  2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.
  3. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til að bera, sbr. 8. gr. jafnréttislaga.
  4. Reglur, skráðar og óskráðar, sem gilda við mannaráðningar innan bankans.

Svarbréf frá starfsmannasviði LÍ eru dags. 29. mars og 19. apríl 1996. Með bréfi dags. 22. maí 1996 sendi kærandi athugasemdir sínar við bréf LÍ til kærunefndar. Aðilar málsins óskuðu ekki eftir að koma á fund kærunefndar. Með bréfi dags. 14. ágúst 1996 óskaði kærunefnd eftir nánari upplýsingum frá LÍ um hversu mörgum einingum B hefði lokið við hagfræðiskor HÍ og frá hverjum bankinn hefði fengið meðmæli með umsækjendum og hvert innihald þeirra hefði verið en samkvæmt upplýsingum frá forstöðumanni starfsmannasviðs bankans óskaði bankinn ekki eftir að svara þeirri beiðni kærunefndar.

Starf bankastarfsmanns við Landsbanka Íslands, Neskaupstað, var auglýst í janúar 1996. Í auglýsingu segir: „Leitað er eftir traustum aðila sem er vanur þjónustustörfum, lipur í mannlegum samskiptum og með góða þjónustulund. Viðkomandi þarf að geta leyst verkefni sín af hendi með hraða og öryggi. Reynsla af bankastörfum er ekki nauðsynleg.“ Umsækjendur um starfið voru sex, þrjár konur og þrír karlar og var einn karlanna, B, ráðinn.

Kærandi málsins, A, lauk námi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1985 og stundar nú nám utanskóla við hagfræðibraut Verkmenntaskóla Austurlands. Hún starfaði við Sparisjóð Norðfjarðar 1986-1987, var bókari Búðahrepps frá 1987-1988 og sá um aflabókhald hjá hlutafélaginu Nes frá 1988-1989. Snemma árs 1989 hóf hún störf hjá Landsbanka Íslands á Neskaupstað sem fulltrúi m.a. við innheimtu vanskila og almenna afgreiðslu og starfaði þar til 1. nóvember 1991. Hún kom aftur til starfa við bankann í maí 1995 og vann þar við ýmsar afleysingar m.a. umrætt gjaldkerastarf til 15. september 1995. Auk þess hefur hún unnið ýmis almenn verkamannastörf og tekið virkan þátt í sveitastjórnarmálum og félagsmálum.

B lauk stúdentsprófi 1987. Hann var tvö ár við nám við Hagfræðiskor HÍ á árunum 1990-1992 og stundar nú nám utanskóla við Tækniskóla Íslands. Þrátt fyrir ósk kærunefndar þar um hefur ekki verið upplýst hversu mörgum einingum hann hafi lokið við HÍ. Árið 1993 hóf hann störf sem svæðisstjóri í kjötdeild Hagkaups í Kringlunni og starfaði þar fram á mitt ár 1994. Samkvæmt upplýsingum bankans starfaði hann frá 1994 sem deildarstjóri í matvöruverslun Kaupfélagsins Fram við Nesbakka og við nýja verslun á Nesbakka þar til hann hóf störf við bankann í febrúar s.l. Þá vann hann við ýmis störf í Færeyjum á árunum 1984-1989.

Í greinargerð kæranda segir að hún hafi leitað til útibússtjóra eftir að ljóst var hver hefði fengið starfið og óskað skýringa. Hafi sér verið tjáð að ekkert væri út á störf hennar að setja en persónuleiki B væri betur fallinn til starfsins. Þar sem hún hafi ekki talið þessar skýringar fullnægjandi hafi hún talið rétt að kanna hvort um brot á jafnréttislögum væri að ræða. Hún hafi mun meiri starfsreynslu en sá sem ráðinn var bæði af bankastörfum og almennum skrifstofustörfum. Þá mótmælir hún því að B hafi verið deildarstjóri hjá Kaupfélaginu Fram. Hún hafi sjálf verið stjórnarformaður þess félags á þessum tíma og hið rétta sé að B hafi sótt um starf rekstrarstjóra en annar verið ráðinn sem síðan réði B sem aðstoðarmann sinn.

Í greinargerð Landsbanka Íslands segir að engar skráðar reglur um ráðningar sé að finna í opinberum skjölum bankans. Við auglýsingu og ráðningu sé farið eftir kjarasamningi starfsmanna bankanna einkum 11. kafla um ráðningar í stöður. Sú almenna regla gildi að reynt sé að ráða þann umsækjanda sem bestum kostum sé búinn til að gegna starfinu. B hafi haft betri menntun til að tileinka sé flókin tæknivædd bankastörf. Hann hafi jafnframt haft mjög góð meðmæli en A hins vegar sæmileg. Þrátt fyrir ósk kæranefndar þar um hefur bankinn ekki upplýst um innihald meðmælanna eða frá hverjum þau voru komin. Þá segir í greinargerð bankans að menntun B ásamt þjónustulund hans og góðri framkomu hafi ráðið úrslitum við ráðninguna. 

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvalli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar er því haldið fram að hálfu bankans að menntun B til starfans sé meiri en kæranda. Ekki hefur þó fengist upplýst þrátt fyrir ósk þar um hve miklu námi hann hafi lokið við hagfræðiskor HÍ. Getur kærunefnd því ekki lagt aðra menntun hans til grundvallar en stúdentspróf. A hefur próf frá Samvinnuskólanum á Bifröst. Kærunefnd jafnréttismála lítur svo á að menntun A falli vel að starfinu. Hins vegar hefur B lokið stúdentsprófi og verður að telja að hann standi framar hvað menntun varðar.

Starfsreynsla þess sem ráðinn var af banka- og skrifstofustörfum er engin. Hann hefur hins vegar u.þ.b. þriggja ára starfsreynslu í matvöruverslunum, m.a. sem svæðisstjóri. Kærandi hefur u.þ.b. fimm ára reynslu af banka- og skrifstofustörfum og verður að telja hana standa framar að reynslu sem er líkleg til að nýtast í þessu starfi.

Með tilliti til menntunar og starfsreynslu verður því að telja A og B nokkurn veginn jafnhæf til starfsins.

Þegar litið er til kynjaskiptingar almennra bankastarfsmanna LÍ er ljóst að konur eru þar í meirihluta. Með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga er það álit kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í starf bankastarfsmanns við útibú LÍ á Neskaupstað hafi lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ekki verið brotin.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira