Hoppa yfir valmynd
10. janúar 1997 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/1996

Álit kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/1996

A
gegn
dóms- og kirkjumálaráðuneytinu

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 10. janúar 1997 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dagsettu 6. maí 1996 fór konan A þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun dómsmálaráðuneytisins á kröfu hennar um íslenskt ríkisfang til handa dóttur hennar, B bryti í bága við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, 1. nr. 28/1991.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá dómsmálaráðuneytinu um:

  1. Afstöðu ráðuneytisins til erindisins.
  2. Hvað hefði ráðið þeim fresti sem settur var í 10. gr. 1. 49/1982 um yfirlýsingu til dómsmálaráðuneytisins.
  3. Annað það sem ráðuneytið teldi að komið gæti að gagni við mat á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin.

Svarbréf dómsmálaráðuneytisins er dags. 22. október 1996. Með bréfi dags. 11. desember sendi kærandi athugasemdir sínar við bréf ráðuneytisins.

B fæddist í Kanada 1976. Móðir hennar, A, var þá gift erlendum manni, C. Samkvæmt þá gildandi lögum um ríkisborgararétt nr. 100/1952 urðu skilgetin börn íslenskra karla, sem kvæntir voru erlendum ríkisborgurum, íslenskir ríkisborgarar. Hið sama gilti hins vegar ekki um skilgetin börn íslenskra kvenna, sem giftar voru erlendum ríkisborgurum. B öðlaðist því ekki íslenskt ríkisfang við fæðingu. Með lögum nr. 49/1982 var lögum um ríkisborgararétt breytt á þann veg að barn öðlaðist íslenskt ríkisfang við fæðingu væri það skilgetið og faðir þess eða móðir íslenskur ríkisborgari. Í 10. gr. laga 49/1982 segir:

Barn, sem er fætt 1. júlí 1964 eða síðar, og hefði öðlast íslenskt ríkisfang, ef ákvæði 1. greinar 1. málsgr. 1. tölul. hefðu verið í gildi við fæðingu barnsins, fær íslenskt ríkisfang er móðir þess gefur um það skriflega yfirlýsingu til dómsmálaráðuneytisins eigi síðar en 30. júní 1985 og þó því aðeins að móðirin sé íslenskur ríkisborgari, þegar yfirlýsingin er gefin, og barnið þá innan 18 ára aldurs. Til 31. desember 1982 má þó gefa slíka yfirlýsingu, þó að barn, sem fætt er á tímabilinu 1. júlí-31. desember 1964 sé orðið 18 ára, þá er yfirlýsingin er gefin. Barn sem orðið er 15 ára þegar yfirlýsingin er gefin, þarf að lýsa samþykki sínu, svo að hún sé gild.

Í erindi A kemur fram að hún hafi ekki vitað af umræddri lagabreytingu enda búsett erlendis á þessum tíma og engin tilkynning hafi verið send til kvenna sem voru í þeirri aðstöðu sem 10. gr. fjallar um. Því hafi hún enga slíka yfirlýsingu sent til dómsmálaráðuneytisins vegna dóttur sinnar. Hún hafi hins vegar fengið nafn hennar skráð í vegabréf sitt hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík árið 1984 (á að vera 1987, sjá síðar) og litið svo á að í því fælist viðurkenning á íslensku ríkisfangi hennar. Þegar þær mæðgur hafi flust til Íslands árið 1994 hafi dóttur hennar verið synjað um íslenska kennitölu hjá Hagstofu Íslands með þeim rökum að hvorki væri hún íslenskur ríkisborgari né hefði dvalarleyfi hér á landi og þyrfti því að sækja til útlendingaeftirlitsins um dvalarleyfi. Þetta kveðst A ekki geta sætt sig við. Dóttir hennar hafi verið skráð í vegabréf hennar sem íslenskur ríkisborgari. Börn karla í sömu stöðu og hún teljist samkvæmt lögunum íslenskir ríkisborgarar og því sé um brot að ræða á jafnréttislögum sem og samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum sem fullgiltur hafi verið af Íslands hálfu. Samkvæmt kvennasamningi SÞ sé öll mismunun gagnvart konum óheimil og aðildarríki hans hafi skuldbundið sig til að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að breyta eða afnema lög sem feli í sér mismunun gagnvart konum.

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins segir að B sé fædd í gildistíð ákvæðis 1. tl. 1. mgr. 1. gr. 1. laga nr. 100/1952 þar sem sagði að skilgetið barn öðlaðist aðeins íslenskan ríkisborgararétt þegar faðir þess væri íslenskur ríkisborgari. Ráðuneytið vísar ennfremur til bréfs þess til kæranda dags. 25. júlí s.l. þar sem skýrt hafi verið frá lagabreytingunni með lögum nr. 49/1982 og frestinum skv. 10. gr. þeirra laga. Áður en frestur samkvæmt ákvæðinu hafi runnið út hafi ráðuneytið vakið athygli á honum með auglýsingu í dagblöðum hér á landi og bent viðkomandi mæðrum á að senda yfirlýsingu fyrir lok frestsins. Ekki verði séð að kærandi hafi sent slíka yfirlýsingu til ráðuneytisins.

Í bréfi ráðuneytisins segir jafnframt að samkvæmt athugun lögreglustjórans í Reykjavík muni B hafa verið skráð í íslenskt vegabréf móður sinnar 10. júní 1987. Muni það oft hafa gerst hjá lögreglustjórum og sendiráðum að börn íslenskra mæðra eða feðra, sem ekki hafi sjálf haft íslenskan ríkisborgarrétt, hafi verið skráð í íslenskt vegabréf foreldris. Sú skráning hafi verið gerð á grundvelli 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um íslensk vegabréf nr. 169/1987 sem segi að börn yngri en 15 ára megi skrá í vegabréf náins aðstandanda. Ekki komi fram í reglugerðinni að slík skráning taki aðeins til barna sem hafi íslenskt ríkisfang þótt augljóst megi vera að svo skuli vera. Slík skráning barns í vegabréf foreldris geti ekki á neinn hátt veitt rétt til íslensks ríkisfangs og þó að ósk kæranda um slíka skráningu verði talin viljayfirlýsing af hennar hálfu sé hún of seint fram komin skv. 10. gr. 1. 49/1982.

Loks segir í bréfi ráðuneytisins að ekki sé að finna í athugasemdum við 10. gr. upplýsingar um ástæður fyrir þessum tímamörkum en bent er á að lagaákvæði þetta sé sniðið eftir samhljóða ákvæði í ríkisborgararéttarlögum annars staðar á Norðurlöndum.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. 1. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er það hlutverk kærunefndar jafnréttismála að taka við ábendingum um brot á ákvæðum þeirra laga og rannsaka mál af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila sem málið snertir.

Samkvæmt 1. gr 1. 28/1991 er það tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Í 3. gr. laganna segir m.a. að hvers kyns mismunun eftir kynferði sé óheimil. Samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum var undirritaður af Íslands hálfu 24. júlí 1980 og fullgiltur af Alþingi 13. júní 1985. Samkvæmt almennum reglum þjóðaréttar skal túlka landsrétt í samræmi við ákvæði þjóðréttarsamninga.

Í 1. gr. samningsins segir: Í samningi þessum merkir „mismunun gagnvart konum“ hvers kyns aðgreiningu, útilokun eða takmörkun sem byggð er á kynferði sem hefur þau áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir að konur, óháð hjúskaparstöðu, á áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir að konur, óháð hjúskaparstöðu, á grundvelli jafnréttis karla og kvenna, fái viðurkennd, geti notið eða framfylgt mannréttindum og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði.

Samkvæmt 2. gr., lið c. takast aðildarríkin á hendur: að koma á lagavernd á réttindum kvenna á grundvelli jafnréttis við karla og að tryggja fyrir lögbærum dómstólum landsins og hjá öðrum opinberum stofnunum raunverulega vernd til handa konum gegn hvers konar misrétti og skv. lið f.: að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þ.á.m. með lagasetningu, til þess að breyta eða afnema gildandi lög, reglugerðir, venjur og starfshœtti sem fela í sér mismunun gagnvart konum.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. samningsins skulu aðildarríkin: veita konum sömu réttindi og körlum til þess að öðlast, breyta eða halda þjóðerni sínu. Þau skulu ábyrgjast sérstaklega að hvorki erlendur eiginmaður, né breyting á þjóðerni eiginmannsins meðan á hjónabandinu stendur, breyti sjálfkrafa þjóðerni eiginkonunnar, geri hana ríkisfangslausa né þröngvi þjóðerni eiginmannsins upp á hana. Í 2. mgr. 9. gr. segir að aðildarríkin skuli veita konum sömu réttindi og körlum varðandi þjóðerni barna þeirra.

Dómsmálaráðuneytið hefur upplýst að auk birtingar í Stjórnartíðindum hafi fyrrnefndur frestur verið auglýstur í dagblöðum hérlendis. Um frekari kynningu mun ekki hafa verið að ræða. Kærunefnd telur eins og hér háttaði til hefði verið eðlilegt að vekja athygli sendiráða og ræðismanna á tímafrestum 10. gr. eða á annan hátt að kynna þessi ákvæði betur, einkum með tilliti til þess að líklegt var að stór hluti þeirra er fresturinn varðaði var búsettur erlendis.

Samkvæmt núgildandi lögum um ríkisborgararétt er enginn greinarmunur gerður á réttindum barna giftra foreldra eftir kynferði foreldranna. Sá munur sem var skv. eldri lögum var afnumin með lögum 49/1982 og börnum sem áður höfðu sætt misrétti vegna kynferðis mæðra sinna gefinn kostur á að verða íslenskir ríkisborgarar að því tilskildu að mæður þeirra tilkynntu það til dómsmálaráðuneytis.

Það misrétti sem fólst í eldri lögum var því leiðrétt að hluta til. Eigi að síður njóta börn mæðra, sem giftar voru erlendum ríkisborgurum, ekki enn sama réttar og börn feðra sem kvæntir voru erlendum ríkisborgurum, hafi móðir þeirra ekki sent dómsmálaráðuneytinu tilkynningu skv. 10. gr. laganna. Rétt er að vekja athygli á að börn þau sem um ræðir höfðu sjálf enga möguleika á að gæta réttar síns hvað þetta varðar.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að þessi lagabreyting hafi ekki leiðrétt að fullu þann mun sem var á réttarstöðu barna á grundvelli kynferðis foreldra þeirra. Sú staðreynd að mæður barna sem 10. gr. tekur til hafi átt þess kost á 2 1/2 árs tímabili að tryggja börnum sínum íslenskt ríkisfang með tilkynningu til dómsmálaráðuneytis breytir því ekki að réttarstaða barna varð áfram mismunandi eftir kynferði hins íslenska foreldris.

Kærunefnd telur því bráðabirgðaákvæði 10. gr. 1. 49/1982 ekki í samræmi við jafnréttislög og að það hafi ekki með öllu uppfyllt þær skyldur sem íslenska ríkið tók á sig með undirritun og fullgildingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, sjá einkum 1. gr., 1. og 2. mgr. 9. gr. og f. lið 2. gr.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að það beiti sér fyrir lagabreytingu sem leiðrétti þann mun sem er á réttarstöðu umræddra barna eftir kynferði hins íslenska foreldris.

Sigurður Tómas Magnússon vék sæti í máli þessu og sæti hans tók Andri Árnason, hrl.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Andri Árnason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira