Hoppa yfir valmynd
15. október 1996 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/1996

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 7/1996

A
gegn
Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þriðjudaginn 15. október 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með erindi dags. 20. júní 1996 óskaði A, framhaldsskólakennari, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Fjölbrautaskólinn í Garðabæ (FG) hefði með ráðningu B, framhaldsskólakennara í stöðu áfangastjóra brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá FG um:

  1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðu áfangastjóra við FG.
  2. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans, sbr. 8. gr. 1. 28/1991.
  3. Fjölda og kyn yfirmanna/stjórnenda við FG.
  4. Umsögn skólanefndar FG.
  5. Afrit af auglýsingu um starfið, ásamt upplýsingum um hvar og hvenær hún hefði birst.
  6. Hvenær ráðið var í stöðuna og ráðningartíma þess sem ráðinn var.
  7. Afstöðu skólameistara til erindisins.
  8. Annað það sem skólameistari vildi koma á framfæri við kærunefnd og teldi til
    upplýsinga fyrir málið í heild.

Greinargerð skólameistara FG er dags. 25. júlí 1996. Henni fylgdi m.a. afrit af fundargerð kennarafundar frá 16. apríl s.á., afrit af fundargerð fundar skólanefndar FG frá 29. apríl s.á. og verklýsing fyrir stjórnendur skólans. Með bréfi dags. 22. ágúst 1996 sendi kærandi athugasemdir sínar við greinargerð skólameistara. Óskað var upplýsinga frá menntamálaráðuneytinu um stigafjölda kæranda og þess sem ráðinn var og eru svarbréf ráðuneytisins dags. 14. ágúst og 4. september 1996. Kærandi lagði fram lýsingu kennslustjóra við Háskóla Íslands á námi í námsráðgjöf við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Settur skólameistari lagði fram skriflegar athugasemdir sínar dags. 6. september við bréf kæranda frá 22. ágúst 1996, greinargerð B til skólameistara dags. 6. september 1996, athugasemdir skólameistara dags. 10. september 1996 og yfirlýsingu frá trúnaðarmanni kennara og stjórn Kennarafélags FG vegna málsins.

Á fund kærunefndar jafnréttismála 13. september 1996 mættu kærandi og C, settur skólameistari við FG.

Starf áfangastjóra var auglýst innan skólans frá 29. mars til 13. apríl 1996. Tekið var fram að um tímabundna ráðningu væri að ræða frá 1. ágúst 1996 til 31. júlí 1997 og að umsóknarfrestur væri til 12 apríl. Umsækjendur voru tveir, A og B.

Samkv. 5. mgr. 12. gr. laga um framhaldsskóla nr. 57/1988 sem í gildi vora þegar þessi ráðning fór fram ræður skólameistari áfangastjóra til allt að fjögurra ára í senn að höfðu samráði við skólanefnd. Þá ákvörðun skal leggja fyrir menntamálaráðherra til staðfestingar. Samkv. 17. gr. rgj. um framhaldsskóla nr. 105/1990 hefur almennur kennarafundur umsagnarrétt um ráðningu stjórnenda skólans.

Í fundargerð frá almennum kennarafundi 16. apríl 1996 kemur fram að all nokkrar umræður hafi orðið um hvernig standa skyldi að þessum ráðningum og ákveðið að hafa leynilega atkvæðagreiðslu. Af því hafi þó ekki orðið þar sem meirihluti fundarmanna hafi ekki talið ástæðu til að fjalla um umsækjendur. Málinu hafi því verið vísað frá.

Í fundargerð frá fundi skólanefndar FG 29. apríl 1996 kemur fram að skólameistari hafi lagt til að B yrði ráðinn í stöðu áfangastjóra. Skólanefnd hafi ekki gert athugasemd við þá tillögu.

Með bréfi dags. 21. maí 1996 staðfesti menntamálaráðuneytið tillögu skólameistara um ráðningu B í stöðu áfangastjóra, tímabundið til eins árs frá og með 1. ágúst 1996 til og með 31. júlí 1997.

Með greinargerð skólameistara til kærunefndar fylgdi yfirlit yfir verksvið stjórnenda skólans, þ.m.t. áfangastjóra, sbr. einnig 24. gr. rgj. um framhaldsskóla nr. 105/1990. Verksviði hans er þar lýst svo: Áfangastjóri skal m.a.:

  • hafa umsjón með rekstri áfangakerfis við skólann,

  • sjá um skráningu upplýsinga um nemendur er innritast í skólann, mat á námi frá öðrum skólum, færslu námsferilsskrár og miðlun slíkra upplýsinga til kennara og skólastjórnenda,

  • hafa eftirlit með því að námsferill brautskráðra nemenda sé í samræmi við gildandi reglur,

  • hafa umsjón með áætlanagerð um námsframboð,

  • hafa umsjón með fjarvistaskráningu,

  • hafa yfirumsjón með námsvali nemenda í samráði við námsráðgjafa skólans og umsjónarkennara,

  • hafa umsjón með gerð stundarskrár og úrvinnslu einkunna,

  • hafa umsjón með útgáfu fréttablaðs skólans.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsreynslu þessara tveggja umsækjenda.

A lauk stúdentsprófi árið 1976. Veturinn 1976 til 1977 stundaði hún nám í stærðfræði við Stokkhólmsháskóla. Hún lauk prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands árið 1984 og B.Sc. prófi í tölvunarfræði frá sama skóla árið 1988. Hún hefur jafnframt lokið 45 einingum í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur sótt ýmis námskeið í stærðfræði og tölvufræði á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og farið í kynnisferðir erlendis. A kenndi við Grunnskóla Raufarhafnar veturinn 1977 til 1978, stærðfræði og tölvufræði við Menntaskólann í Hamrahlíð frá 1978 til 1986 og var skólastjóri tölvuskóla Einars J. Skúlasonar hf. árin 1988 til 1990. Hún hóf störf sem kennari í stærðfræði og tölvufræði við Fjölbrautaskóla Garðabæjar haustið 1990. Frá 1990 til 1995 kenndi hún á tölvur í Kvöldskóla Kópavogs. Hún hefur kennt á tölvunámskeiðum fyrir kennara og skólastjórnendur. Eftir ráðningu B sagði hún starfi sínu hjá FG lausu. Hún kennir nú við Menntaskólann í Kópavogi. A hefur skrifað greinar í tímarit um notkun tölva í stærðfræðikennslu, um tölvukvíða og viðhorf til tölva. Hún hefur unnið við námsgagnagerð í tölvufræði og gefið út verkefnabækur.

B lauk stúdentsprófi árið 1963 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1965. B er einnig sagnfræðingur og landfræðingur að mennt, lauk B.A. prófi í báðum þessum greinum frá Háskóla Íslands árið 1971 í yfirliti menntamálaráðuneytisins um stigafjölda hans eru ekki upplýsingar um endurmenntun. Í greinargerð skólameistara segir að B hafi lokið fjölda námskeiða bæði innan lands og utan. Hann kenndi við Langholtsskóla veturinn 1966 til 1967, starfaði sem verslunarstjóri í bókaverslun árin 1967 til 1968, kenndi í Gagnfræðaskólanum við Lindargötu veturinn 1968 til 1969, Hann starfaði við Garðaskóla frá 1969 til 1980, þar af yfirkennari í fjögur ár, aðstoðarskólastjóri í fimm ár og skólastjóri í eitt ár. Frá 1976 átti hann þátt í að skipuleggja framhaldsdeildir við Garðaskóla en þær voru fyrsti vísir að FG. B starfaði sem framkvæmdastjóri útgerðarfélags á árunum 1980 til 1990. Hann var ráðinn kennari við FG árið 1990 og skipaður framhaldsskólakennari við skólann árið 1992.

Aflað var upplýsinga frá menntamálaráðuneyti um stigafjölda samkvæmt kennaraskrá. A hefur samtals 260 stig en B 204 stig.

Skólaárið 1996 til 1997 gegna 16 manns stjórnunarstarfi hjá FG, 10 konur og 6 karlar.

II

Í erindi sínu til kærunefndar leggur A áherslu á að hún hafi meiri menntun en sá sem ráðinn var. Til viðbótar námi í tölvunarfræðum, hafi hún lokið tveimur gráðum frá Háskóla Íslands sem sérstaklega séu ætlaðar þeim sem starfa í skólakerfinu, þ.e. námi til kennsluréttinda og námsráðgjöf. Um stöðu námsráðgjafanámsins vísar A til yfirlýsingar kennslustjóra í námsráðgjöf við félagsvísindadeild Háskóla Íslands en í bréfi kennslustjórans til kærunefndar dags. 20. september sl. kemur fram að námsráðgjafanámið sé viðbót eða „post graduate nám“ við fullgilt kennaranám, B.A. nám í sálarfræði eða uppeldis- og menntunarfræði. Hún eigi að baki 14 ára starfsferil sem framhaldsskólakennari auk eins árs starfs í grunnskóla. Hún hafi reynslu af stjórnun, hafi m.a. unnið að stofnun og síðan stýrt Tölvuskóla Einars J. Skúlasonar hf. í tvö ár.

A bendir á að námsráðgjöf nýtist vel í starfi áfangastjóra en eitt af hlutverkum hans sé að meta nám nemenda sem koma úr öðrum framhaldsskólum. Starf áfangastjóra geri því kröfu til haldgóðrar þekkingar á íslenska skólakerfinu. Í námsráðgjafanáminu sé einmitt lögð mikil áhersla á íslenska skólakerfið og þá sérstaklega framhaldsskólana. Áfangastjóra sé jafnframt ætlað að hafa yfirumsjón með námsvali nemenda í samráði við námsráðgjafa og umsjónarkennara. Hið sama eigi við um nám hennar í tölvunarfræði en hluti af starfi áfangastjóra sé skráning upplýsinga um nemendur sem innritast í skólann, færsla námsferilsskrár og miðlun slíkra upplýsinga til kennara og skólastjórnenda.

Á verkefnasviði áfangastjóra sé að hafa umsjón með áætlanagerð um námsframboð, gerð stundaskrár og úrvinnslu einkunna. Hún hafi um sex ára skeið unnið við töflugerð við Menntaskólann í Hamrahlíð sem hafi gefið henni góða innsýn í áfangakerfið og kennsluskiptingu í stórum skóla. Að auki hafi lokaverkefni hennar til B.Sc. prófs í tölvunarfræði fjallað um töflugerðarforrit. Reynsla hennar af rannsóknarstörfum muni hér einnig koma að góðum notum. Áfangastjóra sé ætlað að hafa umsjón með fréttabréfi skólans, fjarvistaskráningu og eftirlit með því að námsferill brautskráðra nemenda sé í samræmi við gildandi reglur. Tölvunarfræði og námsráðgjöf muni einnig nýtast vel við þessa verkþætti. Að öllu þessu virtu hljóti hún að teljast hæfari til að gegna starfi áfangastjóra en sá sem ráðinn var.

Bæði skólameistari FG og settur skólameistari leggja áherslu á að það hafi verið mat þeirra að B væri hæfari til að gegna umræddu starfi. Í greinargerð skólameistara dags. 25. júlí 1996 er bent á að menntun B sé a.m.k. ekki minni en A. Aðrir þættir hafi einnig vegið þungt og verið afgerandi við mat á umsækjendum s.s. starfsreynsla hans, stjórnunarreynsla og ýmsir aðrir verðleikar sem stjórnendur í þessu starfi verða að hafa eins og verkstjórn, tjáning, samskipti, umhyggja fyrir velferð nemenda, gott málfar, hugmyndaflug og góð greiningarhæfni þegar vandamál koma upp. Hann hafi gegnt starfi aðstoðarskólastjóra við Garðaskóla og verið skólastjóri um tíma þegar grunnur hafi verið lagður að stofnun FG. Hann hafi haft umsjón með framhaldsdeildum Garðaskóla og verið hugmyndasmiður og framkvæmdamaður við margt af því sem nú væri á verksviði áfangastjóra. Reynsla hans sem kennari og stjórnandi sé mun lengri en hennar og þekking hans á íslenska skólakerfinu annáluð. Að teknu tilliti til þessara þátta og langri reynslu B við mjög farsæla stjórnun hafi verið ákveðið að ráða hann.

Þá er mótmælt fullyrðingum A um að B.Sc. nám hennar í tölvunarfræðum nýtist vel í starfi áfangastjóra þar sem hluti af starfinu felist í að tölvuvinna námsferil nemenda o.fl. Starfslýsing áfangastjóra sé skýr. Hann sjái einungis um færslur í tölvuskrá eins og aðrir stjórnendur skólans og ritarar á skrifstofu. Allar lagfæringar og breytingar þar sem reyni á kunnáttu tölvufræðings séu aðkeyptar samkv. gildandi þjónustusamningi við tölvufyrirtæki. Hið sama gildi um það hlutverk áfangastjóra að sjá um mat á námi frá öðrum skólum. Það starf sé í mjög föstum skorðum, markað af einingakerfi Námskrár menntamálaráðuneytisins og reglum sem það hafi sett. Öll vafaatriði séu borin undir deildarstjóra eða skólameistara sem hafi samráð við aðra skóla og/eða menntamálaráðuneyti. Þetta sé því ekki kennt sérstaklega í háskóla. Haldgóð þekking á íslenska skólakerfinu sé að sjálfsögðu mikilvæg en mestu varði að menn beiti lipurð og skynsemi. Þar hafi B yfirburðaþekkingu sakir langrar og haldgóðrar reynslu.

Í greinargerð setts skólameistara er á það bent að A og B hafi sambærilega menntun, hvorugt hafi masterspróf en bæði menntun á fleiri en einu sviði. B hafi lengri og víðtækari stjórnunarreynslu en A, sem skólastjórnandi í 11 ár, framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækis í 9 ár og deildarstjóri í FG frá 1990. Rannsóknar- og ritstörf skipti hér ekki máli, þar sem starf áfangastjóra sé ekki rannsóknarstarf. B hafi a.m.k. jafnmikla reynslu af rekstri og þróun áfangakerfis en hann hafi átt þátt í að koma á laggirnar áfangakerfi FG og þróa það síðan sem yfirkennari Garðaskóla á fyrstu árum fjölbrauta þar, tímabilið 1977 til 1981. 

III

Tilgangur laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er að koma á jafnrétti kynja á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja og stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grandvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. gr. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu kynjanna verði náð.

Í lögum nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra er að finna leiðbeiningar um hvaða þætti leggja skuli til grundvallar vali ef fleiri en einn kennari sækir um sama starf og allir uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. Samkv. 5. mgr. 11. gr. skal við veitingu starfsins taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um hæfni umsækjenda.

Báðir umsækjendur eiga að baki langan kennsluferil. Á starfsferli sínum hefur A sinnt rannsóknar- og fræðistörfum og aflað sér þar með sérþekkingar.

Hvorki skólanefnd né kennarafundur tóku afstöðu til hæfni umsækjenda en skólanefnd féllst á tillögu skólameistara um að B skyldi ráðinn.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru báðir umsækjendur með réttindi sem framhaldsskólakennarar og því hæfir til að gegna starfinu. B er með tvöfalt B.A. próf til viðbótar kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. A er með B.Sc. próf, próf í uppeldis- og kennslufræði og próf í námsráðgjöf sem er viðbótarnám við almennt B.A og B.Sc. próf frá Háskóla Íslands. Námsráðgjöf er metin sem fyrri hluti til M.Ed. prófs og þó svo ekki liggi fyrir staðfest mat á vægi þess til M.A. prófs, hefur kennslustjóri í námsráðgjöf við Háskóla Íslands upplýst að það yrði væntanlega metið sem fyrri hluti mastersnáms. A hefur því meiri menntun en B.

Bæði eiga langan starfsferil að baki. Starfsaldur B innan grunnskóla er þrettán ár, þar af yfirkennari í fjögur ár, aðstoðarskólastjóri í fimm ár og skólastjóri í eitt ár. Starfsaldur hans innan framhaldsskóla er sex ár. Að auki hefur B starfað sem verslunarstjóri í eitt ár og framkvæmdastjóri útgerðarfélags í tíu ár. Starfsferill A er fyrst og fremst sem framhaldsskólakennari en því starfi hefur hún gegnt í 14. ár. Hún starfaði eitt ár sem grunnskólakennari og var skólastjóri einkaskóla í tvö ár. Bæði hófu þau störf hjá FG á árinu 1990. Enda þótt starfsaldur hans sé lengri en hennar, er starfsreynsla hennar í framhaldsskóla mun lengri. Hann hefur hins vegar lengri reynslu af stjórnun en hún.

Sem sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var hefur skólameistari FG bent á reynslu B af starfi og uppbyggingu framhaldsdeildar við Garðaskóla sem var grunnurinn að sérstökum framhaldsskóla í Garðabæ. Ennfremur reynslu hans af verkstjórn, tjáningu og samskiptum og umhyggja hans fyrir nemendum. Á fundi hjá kærunefnd upplýsti settur skólameistari að því væri ekki haldið fram að A skorti þessa eiginleika.

Samkvæmt gögnum málsins hefur A meiri menntun en B og hún hefur aflað sér menntunar sem fellur mjög vel að starfslýsingu áfangastjóra. Á verksviði áfangastjóra er m.a. að hafa umsjón með mati á námi frá öðrum skólum, umsjón með áætlanagerð um námsframboð og yfirumsjón með námsvali nemenda í samráði við námsráðgjafa og umsjónarkennara. Samkvæmt lýsingu á námi í námsráðgjöf virðist það nám falla mjög vel að þessu starfi. Það er mat kærunefndar jafnréttismála að þetta atriði ráði úrslitum um að kærandi teljist hæfari til að gegna starfi áfangastjóra en sá sem ráðinn var.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ hafi með ráðningu B í stöðu áfangastjóra við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, tímabundið frá 1. ágúst 1996 til 31. júlí 1997, brotið gegn 3. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ að fundin verði viðunandi lausn á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum