Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2014 Matvælaráðuneytið

Norrænn ráðherrafundur og ráðstefna um byggðamál

Norrænir ráðherrar
Norrænir ráðherrar

Ráðherrafundur Norrænu byggðamálaráðherrana var haldinn í gær í Keflavík. Meðal þess sem hæst bar á fundinum var að samþykkt var tillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra byggðamála þess efnis að sett verði af stað vinna við gerð stefnumótunar í málefnum Norðvestursvæðisins (Vestnorden) sem afmarkast af Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og strandhéruðum Noregs. Stefnumótunin mun taka til byggðaþróunar, atvinnumála, norrænnar stofnanauppbyggingar, alþjóðasamskipta, umhverfismála og fleiri þátta. 

Samhliða ráðherrafundinum stendur nú yfir ráðstefna þar sem sjónum er beint að því hvernig norræna lífhagkerfið getur stutt við nýsköpun í dreifbýli.

Með hugtakinu „lífhagkerfi“ er átt við þá nýju nálgun sem er að ryðja sér rúms að í stað þess að líta á nýtingu lífrænna auðlinda sem aðskildar atvinnugreinar s.s. sjávarútveg, landbúnað og skógrækt, þá sé horft til þess hvernig þessar greinar tengjast innbyrðis og hafa áhrif á hvora aðra. Þannig getur landbúnaður framleitt orku fyrir sjávarútveginn og fóður fyrir fiskeldið; sjávarútvegurinn framleiðir ekki einungis fisk heldur einnig hráefni fyrir lyfja- og snyrtivöruframleiðslu; hægt er að rækta sveppi á viðarkurli sem aftur nýtast til skepnufóðurs og þar fram eftir götunum. Aðalatriðið er að í stað línulegra framleiðsluferla eru allar aukaafurðir nýttar og framleiðsluferlarnir verða því hringlaga.

Þessi nýi veruleiki skiptir miklu máli fyrir þróun dreifbýlis því þar er áherslan á auðlindanýtingu grundvöllurinn fyrir atvinnu og búsetu.

Á ráðstefnunni eru tekin fjöldamörg dæmi frá öllum Norðurlöndunum sem lýsa þeim áskorunum sem mismunandi svæði standa frammi fyrir. Einnig verður sagt frá reynslu Skota af því að nýta eigin auðlindir til hagsbóta fyrir staðbundið efnahagskerfi Skotlands.

Ráðstefna um byggðamál


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum