Hoppa yfir valmynd
7. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundaði með Ben Wallace

Þórdís Kolbrún og Ben Wallace á fundinum í dag - myndUtanríkisráðuneytið/Sigurjón Ragnar

Samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum og sameiginlegir öryggishagsmunir ríkjanna voru meginefni tvíhliða fundar Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, sem fram fór í kvöld.

Samstarf ríkjanna á þessum sviðum hefur verið eflt á undanförnum árum. Ísland gerðist aðili að Sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF), sem Bretland leiðir, árið 2021. Þá hefur tvíhliða samstarf ríkjanna um öryggis- og varnarmál verið aukið, meðal annars á grundvelli samkomulags þar að lútandi frá árinu 2019.

„Bretland er öflugt bandalagsríki sem býr yfir mikilli varnargetu og -viðbúnaði sem er mjög þýðingarmikill fyrir sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins. Bresk stjórnvöld hafa staðið sig vel í viðbrögðum sínum við innrásinni í Úkraínu og hafa átt um þau náið samráð við okkur og aðrar líkt þenkjandi vinaþjóðir,“ segir utanríkisráðherra.

Hún segir Ísland og Bretland eiga ríka samleið í öryggis- og varnarmálum og sameiginlegra hagsmuna að gæta, einnig á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. Á fundinum hafi verið rædd þau mál sem efst eru á baugi í öryggis- og varnarmálum um þessar mundir og í tvíhliða samstarfi ríkjanna.

Í tengslum við varnarmálaráðherrafundinn stóðu Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Varðberg, utanríkisráðuneytið og sendiráð Bretlands á Íslandi fyrir málstofu um varnar- og öryggismál á Hilton Reykjavík Nordica síðdegis þar sem þau Þórdís Kolbrún og Ben Wallace fluttu erindi og svöruðu spurningum áheyrenda. 

 

Europe at Crossroad. from IH Streymi on Vimeo.

  • Frá fundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar og Ben Wallace - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum