Hoppa yfir valmynd
3. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Svört skýrsla Sameinuðu þjóðanna um áður óþekkt umfang mannúðaraðstoðar

Heimurinn stendur frammi fyrir áður óþekktu umfangi mannúðaraðstoðar, segir í nýrri skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Á þessu ári samtvinnast áföll vegna loftslagsbreytinga, stríðsátök og heimsfaraldur COVID-19 með þeim afleiðingum að verð á matvöru og eldsneyti hækkar dag frá degi. Það þýðir að tugir milljónir manna búa við sult og hungursvæðum fjölgar víðs vegar um heiminn.

Fram kemur í skýrslunni – The Hunger Hot Spots – að á aðeins tveimur árum hafi tvöfaldast sá fjöldi sem býr við alvarlegan matarskort. Fyrir heimsfaraldur bjuggu 135 milljónum við sult en 276 milljónir í byrjun þessa árs. Að mati FAO og WFP er reiknað með að áhrif innrásar Rússa í Úkraínu leiði til þess að hungruðum fjölgi enn frekar og fari upp í 323 milljónir.

Metfjöldi býr nú við yfirvofandi hungursneyð, eða 49 milljónir manna í 46 löndum. Þá eru 750 þúsund manns á svæðum þar sem fólk verður hungurmorða á degi hverjum. Af þeim hópi eru 400 þúsund í Tigray héraði Eþíópíu en aðrir heimshlutar þar sem fólk sveltur til dauða eru Jemen, Suður-Súdan, Sómalía og Afganistan.

Hvergi hefur þó enn verið lýst opinbera yfir hungursneyð en þegar slíkt er gert í tilteknu landi eða svæði er ástandið orðið svo slæmt að 30 prósent barna þjást af bráðavannæringu, 20 prósent íbúa fá innan við 2.100 hitaeiningar á dag og tveir fullorðnir, eða fjögur börn á hverja 10.000 íbúa, deyja daglega vegna matarskorts. Síðast var lýst yfir hungursneyð í Sómalíu árið 2011.

Í skýrslunni er bent á að meðal afleiðinga stríðsátakanna í Úkraínu sé aukinn pólitískur og efnahagslegur óstöðugleiki víðs vegar um heiminn, einkum í Asíu, Suður-Afríku og Miðausturlöndum. Verðbólga og kostnaðarhækkanir leiði enn fremur til þess að alþjóðastofnanir og hjálparsamtök verða að draga úr stuðningi á sama tíma og sveltandi fólki fjölgar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum