Hoppa yfir valmynd
14. október 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Starfsgreinasambands Íslands

Ársfundur Starfgreinasambandsins 14. október 2004
Ársfundur Starfgreinasambandsins 14. október 2004

Ágætu ársfundarfulltrúar.

Ég vil byrja á því að þakka forsvarsmönnum Starfsgreinasambandsins fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag. Það er mikilvægt að fram fari stöðug skoðanaskipti stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um stefnu og aðstæður í atvinnu- og efnahagsmálum. Það er forsenda þess að efla skilning á stöðu og viðhorfum hvors annars og ná niðurstöðu sem sátt er um eða menn geti búið við.  Þjóðarsáttin í lok áttunda áratugarins byggði á þessum grunni.  Með henni var breytt um aðferðir og reynt að ná víðtækri samstöðu á milli ríkisvaldsins, sveitarfélaganna, atvinnurekenda og samtaka launafólks um meginlínurnar í efnahags- og félagsmálum.  Þjóðarsáttin var mikið gæfuspor og hefur átt þátt í að þeim ótrúlegu efnahagslegu framförum sem nú blasa við.  Spáð er að vísitala ráðstöfunartekna hækki úr 109,9 stigum árið 1992 í 213 stig á þessu ári, störfum í landinu hefur fjölgað um þrjú til fjögur þúsund á ári,  hagvöxtur hefur vaxið allan síðasta áratug með nokkrum undantekningu um fjóra til fimm hundraðs hluta á ári.   Við erum komin í fremstu röð í hópi þeirra ríkja þar sem þegnarnir búa við hvað best lífskjör.

Þótt við Íslendingar getum verið ánægðir með góðan árangur í flestu tilliti eru blikur á lofti.  Þetta gildir ekki síst um það sem kallað hefur verið alþjóðavæðing atvinnu- og efnahagslífs.  Á örfáum árum hafa aðstæður gjörbreyst í þessu tilliti.  Gerðir hafa verið alþjóðasamningar um víðtækar tollalækkanir og rætt er um samninga um þjónustuviðskipti innan Evrópu sem og á alþjóðavísu.  Fjármagnið leitar nánast hömulaust þangað sem gróðavonin er mest.  Öll þessi atriði gera það að verkum að einkum stjórnvöld vinnumarkaðsmála standa frammi fyrir nýjum vandamálum og nýjum viðfangsefnum.  Þau eru aðalumræðuefnið í alþjóðastofnunum og svæðisbundnum samtökum eins og t.d. Alþjóðavinnumálastofnuninni og Evrópusambandinu og á vettvangi Norðurlanda.

Ársfundur Starfgreinasambandsins 14. október 2004Á árinu 2003 skipaði stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar alþjóðlega nefnd til að fjalla um félagslegar hliðar alþjóðavæðingarinnar.  Tarja Halonen forseti Finnlands og Benjamin William Mkapa, forseti Tansaníu voru skipuð formenn nefndarinnar.  Nefndin skilaði stjórnarnefnd ILO skýrslu í febrúar sl. og var hún lögð fyrir Alþjóðavinnumálaþingið í júní til umfjöllunar.  Heiti hennar er: “Sanngjörn alþjóðavæðing:  Að skapa tækifæri fyrir alla.” 

Í skýrslunni kemur fram að efasemdir fari vaxandi um það í hvaða átt alþjóðavæðingin stefni.  Kostir hennar séu of fjarlægir fyrir of marga.  Samtímis feli hún í sér raunverulegar hættur. Spilling sé útbreidd.  Hryðjuverkahópar ógni opnum þjóðfélögum og sett er spurningamerki við framtíð frjálsra og hindrunarlausra viðskipta.  Hnattræn stjórnun er í uppnámi.  Brýna nauðsyn ber til að endurskoða bæði stefnu og skipulag.  Þetta eru vissulega stór orð sem ástæða er til að velta fyrir sér. Það er hins vegar ljóst í mínum huga að það verður aldrei sátt um aukið frelsi fjármagns nema því fylgi félagslegt réttlæti. Þar bera fyrirtækin ákveðna ábyrgð og verða að axla hana og kem ég nánar að því síðar.

Í skýrslu nefndar ILO eru settar fram fjölmargar tillögur um aðgerðir sem hægt er að hrinda í framkvæmd á heimsvísu eða landsvísu.  Vakin er athygli á verkefnum sem hlutaðeigandi aðilar geti beitt sér fyrir.  Með hlutaðeigandi aðilum er átt við alþjóðastofnanir, stjórnvöld á landsvísu, samtök aðila vinnumarkaðarins og ýmiss konar félagasamtök.  Það er ekki hægt hér og nú að gera grein fyrir öllum tillögum nefndarinnar. Eitt mikilvægt atriði er þó ástæða til að nefna og það er að allir hlutaðeigandi aðilar taki höndum saman um að grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar verði virtar.  Þessar samþykktir fjalla um félagafrelsi, samningafrelsi, afnám nauðungarvinnu, um jafnrétti karla og kvenna í atvinnulífinu og um afnám vinnu barna í sinni verstu mynd. Rétt er að undirstrika að þessi skýrsla hefur alls ekki verið óumdeild enda hreyfir hún við mörgum viðkvæmum atriðum.  

Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af alþjóðavæðingunni og frjálsu flæði fjármagns á undanförnum árum. Því fylgja vissulega bæði kostir og gallar. Öflug fyrirtæki hafa kraft til umfangsmikillar útrásar og afkomutölur sumra þeirra eru sannarlega þess eðlis að ástæða er til að samgleðjast með eigendum þeirra.

Því miður eru ekki allar fréttir af þessum vettvangi jafn gleðilegar.  Öflug stefna stjórnvalda í atvinnu- og efnahagsmálum hefur leitt af sér hagvöxt sem er meiri en flest vestræn ríki geta státað sig af.  Samt er það svo, ólíkt því sem gerst hefur við fyrri uppsveiflur í efnahagslífinu, að lítið dregið úr atvinnuleysi sem er enn allt of mikið.  Sumir segja að ekki sé að marka tölur um atvinnuleysi.  Einungis hluti þeirra sem eru á skrá séu í raunverulegri atvinnuleit og hef ég séð dæmi um tölur sem kunna að staðfesta þetta.  Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að eitthvað sé til í slíkum fullyrðingum er atvinnuleysi samt of mikið.  Já, alltof mikið.  Það bendir til þess að þrátt fyrir batnandi afkomu hafi fyrirtæki ekki ráðið starfsmenn með sama hætti og áður.  Því getur valdið aukin hagræðing og meiri framleiðni – eða að fyrirtæki séu að flytja framleiðsluna úr landi og þar með störfin.  Og af því hafa verið sagðar fréttir í fjölmiðlum.  Þetta veldur vissum áhyggjum.

Sannleikurinn er sá að við Íslendingar erum ekki einir á þessum báti.  Í öðrum vestrænum ríkjum er verið að fjalla um hliðstætt vandamál.  Fjölmiðlar hafa í tengslum við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum greint frá áhyggjum stjórnmálamanna og efnahagssérfræðinga af slæmu atvinnuástandi þar í landi.  Þeir hafa m.a. nefnt sem skýringu að bandarísk fyrirtæki hafi í miklum mæli flutt framleiðslu til Kína.  Við höfum heyrt fréttir af íslenskum fyrirtækjum sem eru að flytja framleiðslu til m.a. Eystasaltslandanna. 

Ársfundur Starfgreinasambandsins 14. október 2004Eitt þekktasta málið af þessu tagi í Evrópu var svokallað Vilvorde-mál í Belgíu.  Það snerist um það að franska fyrirtækið Renault lokaði og flutti bílaverksmiðjur sínar frá smábænum Vilvord í Belgíu til Spánar þar sem launakostnaður var lægri.  En þar til viðbótar stóðu fyrirtækinu til boða ýmsir styrkir vegna nýsköpunar í atvinnulífnu og vegna fjölgunar starfa á svæði á Spáni sem var vanþróað í efnahagslegu tilliti. 

Þetta mál olli miklu uppnámi í Evrópu og einkum á vettvangi Evrópusambandsins.  Afleiðingin var m.a. sú að sambandið afgreiddi tilskipun um upplýsingar og samráð við starfsmenn um tiltekna þætti í rekstri hlutaðeigandi fyrirtækis.  Þess má geta að það liggur fyrir að við Íslendingar verðum að hrinda efni þessarar tilskipunar í framkvæmd nú í vetur.  Annað sem gerðist var að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi frá sér árið 2002 grænbók  og í fyrra stefnumarkandi yfirlýsingu um félagslega ábyrgð fyrirtækja, eða ”Corporate Social Responsibility” eins og það er nefnt á ensku.  Þetta efni hefur verið til ítarlegrar umfjöllunar í stofnunum Evrópusambandsins, hjá stjórnvöldum og Evrópusamtökum aðila vinnumarkaðarins. 

Í sinni einföldustu mynd má segja að umræðan um félagslega ábyrgð fyrirtækja snúist um það að ná víðtækri samstöðu um að fyrirtæki taki sjálfviljug tillit til félagslegra þátta og umhvefismála í breiðum skilningi við rekstur sinn og samskipti við aðra aðila.  Umræðan um félagslega ábyrgð fyrirtækja fjallar að öðrum þræði um að komið sé fram af félagslegri ábyrgð þegar fyrirtæki hlutast til um innri breytingar.  Að tekið sé tillit til hagsmuna allra hlutaeigandi aðila, (ekki eingöngu hagsmuna fjármagnseigenda), og leitað sé leiða sem eru ásættanlegar fyrir aðila máls.  Skoðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er sú að takist þetta sé það ekki eingöngu í hag fyrirtækisins heldur hafi slíkir stjórnarhættir jákvæð áhrif á þróun efnahagsmála í sambandinu í heild.  Félagslega ábyrg fyrirtæki geti þannig stuðlað að því að ná því markmiði Evrópusambandsins að árið 2010 verði efnahagslíf Evrópuríkja samkeppnishæfast, virkast og byggt á hugviti sem sé fært um að skapa sjálfbæra efnahagsþróun með fleiri og betri störfum og meiri félagslegri samstöðu. Hér vísa ég til Lissabon-áætlunarinnar sem þið hafið öll heyrt nefnda.

Evrópusambandið hefur haldið nokkra fundi þar sem félagsleg ábyrgð fyrirtækja hefur verið til umfjöllunar – síðast 29. júní sl.  Á þeim fundi náðist samstaða um nokkur grundvallaratriði í þessu sambandi.  Samandregin eru þau svohljóðandi:

  1. félagsleg ábyrgð fyrirtækja felur í sér að fyrirtæki taki sjálfviljugt tillit til umhverfis- og félagsmála við rekstur fyrirtækisins og að þetta tillit gangi framar því sem lög og samningsbundnar skyldur standa til.  Félagsleg ábyrgð fyrirtækja fjallar um að ganga skrefinu lengra en ekki að koma í stað eða sniðganga lög, reglur eða samninga.
  2. áhugi framkvæmdastjórnar fyrirtækja er forsenda árangurs.
  3. félagsleg ábyrgð fyrirtækja tekur til kjarnans í rekstri fyrirtækis, þ.e. að á sama tíma og rekstur þess miðast við að skapa ágóða, taki framganga þess tillit til umhverfis og félagsmála og sé byggð á því að skoðanaskipti við hagsmunaaðila sé líkleg til að stuðla að vexti og viðgangi fyrirtækisins í samfélaginu þegar litið er til lengri tíma.
  4. félagsleg ábyrgð fyrirtækja er ein leið af mörgum til að stuðla að umbótum á umhverfi, efnahag og félagsmálum og til þess fallin að verða að venju við rekstur fyrirtækja.
  5. skoðanaskipti við hlutaðeigandi aðila bæta og þroska færni fyrirtækja í því að sýna félagslega ábyrgð. Þar sem starfsmenn eru órjúfanlegur hluti fyrirætkis er mikilvægt að veita hlutverki þeirra og fulltrúum þeirra sérstaka athygli með því að eiga við þá skoðanaskipti.

Ekkert af þessu þarf að koma á óvart eða vera framandi fyrir Íslendinga.  Samvinnuhreyfingin og fyrirtæki hennar voru til skamms tíma mikilvæg ef ekki mikilvægasta kjölfestan í íslensku atvinnulífi.  Til hennar voru gerðar miklar kröfur um að sýna víðtæka samfélagslega ábyrgð ekki einungis gagnvart starfsmönnum eða sveitarfélögum heldur einnig heilu byggðarlögunum.  Þessar kröfur voru það miklar að hreyfingin stóð ekki undir þeim á tímum óðaverðbólgu og vaxtaorkurs þannig að eitthvað varð undan að láta.  Þótt á því séu mikilvægar undantekningar má samvinnuhreyfingin muna sinn fífil fegri.  Mörg einkafyrirtæki og hlutafélög hafa einnig gert marga góða hluti með því að leggja lið þjóðþrifamálum á sviði íþrótta, lista og samhjálpar.  Öllu þessu ber að halda til haga.  Það er hins vegar samhengið sem er nýtt.  Alþjóðavæðingin og félagslega ábyrgðin.  Stjórnvöld hafa dregið úr hömlum, auðveldað fyrirtækjum að hasla sér völl í útlöndum, tekið þátt í að opna þeim nýja markaði og aukið frelsi þeirra til athafna.  Og nú er spurt um það hvernig atvinnurekendur ætli að fara með aukið frelsi og að standa undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar?  Með öðrum orðum hver sé félagsleg ”ábyrgðartilfinning” þeirra, ef svo má að orði komast ?

Fyrr í máli mínu kom fram að í umræðunni um félagslega ábyrgð fyrirtækja er gengið út frá því hún byggist á frumkvæði atvinnurekanda.  Frumkvæði sem tekið er af frjálsum og fúsum vilja.  Ég vil engu að síður taka fram að félagsmálaráðuneytið er reiðubúið að taka þátt í samstarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins um þetta efni um það hvernig við getum dregið gagnlegan lærdóm af þeirri umræðu sem hefur t.d. átt sér stað á vettvangi Evrópusambandsins. 

Ársfundur Starfgreinasambandsins 14. október 2004Í sumar barst mér í hendur skýrsla frá Evrópusambandinu sem ber heitið: Störf, störf, störf.  Um er að ræða skýrslu vinnuhóps sem skipaður var í framhaldi af ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins í mars 2003.  Hópurinn fékk það hlutverk að vekja athygli á umbótum sem gætu haft jákvæð áhrif á getu aðildarríkjanna til að ná markmiðum sem sett eru í stefnu Evrópusambandsins í vinnumálum.  Wim Kok, fyrrverandi forsætisráðherra Hollands, var skipaður formaður vinnuhópsins.  Mér finnast tillögur vinnuhópsins áhugaverðar og gefa tilefni til nánari athugunar.

Tilefni skipunar vinnuhópsins var yfirlýsing ráðherraráðs Evrópusambandsins sem hélt fund sinn í Lissabon árið 2000.  Á þeim fundi var sú stefna mörkuð að efnahags- og atvinnulíf Evrópusambands yrði árið 2010 það samkeppnishæfasta í heiminum, það væri byggt á þekkingu og fært um að skapa stöðugan hagvöxt með fleiri og betri störfum og stuðla að félagslegri samstöðu.   

Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að hann er svartsýnn á að hægt verði að ná markmiðum Lissabon-yfirlýsingarinnar nema aðildarríkin taki sig verulega á.  Bent er á að þrátt fyrir tímabundinn efnahagslegan samdrátt megi ekki missa sjónar á markmiðum yfirlýsingarinnar.  Alþjóðavæðing og efnahagslegur samruni hafi sífellt meiri áhrif á daglegt líf Evrópubúa.  Breytt aldurssamsetning veki upp spurningar um getu aðildarríkja Evrópusambandsins til að vera samkeppnishæf og ná hærra atvinnustigi og meiri hagvexti í framtíðinni.  Allt kalli þetta á snögg viðbrögð við breytingum en geri ekki síður kröfur til okkar allra um að hafa stjórn á þeim.

Vinnuhópurinn er þeirrar skoðunar að forsenda þess að aðildarríki Evrópusambandsins geti fjölgað störfum, dregið úr atvinnuleysi og aukið framleiðni velti á eftirfarandi:

  • aukinni aðlögunarhæfni starfsmanna og fyrirtækja,
  • hærra atvinnustigi, þ.e. að fleiri verði virkir í atvinnulífinu,
  • meiri og markvissari fjárfestingu í þekkingu og mannauði og
  • virkri framkvæmd umbóta með bættri stjórnun.

Þetta eru ekki flóknar leiðbeiningar og ég er þeirrar skoðunar að öll atriðin séu þess eðlis að rétt sé fyrir íslensk stjórnvöld að taka mið af þeim ekki síður en fyrir aðildarríki Evrópusambandsins.  Raunar má segja að fyrsta, annað og þriðja atriðið séu greinar á sama meiði.  Aðlögunarhæfnin veltur á meiri endur- og starfsmenntun - fjárfesting í þekkingu tekur til fjárveitinga til menntunarmála.  Sama má segja um bætta stjórnun.  Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana í vor um aukin framlög til starfsmenntasjóða atvinnulífsins eru í góðu samræmi við þessar leiðbeiningar.  Hins vegar verður að gæta þess að þeim fjármunum sé varið á skynsamlegan hátt og þannig að þeir stuðli að framförum í atvinnulífinu.

Annað atriðið um hærra atvinnustig og það að gera fleiri virkari í atvinnulífinu höfðar til þess að stjórnvöld verði að sjá til þess að það borgi sig að vinna.  Að stjórnvöld haldi þannig á málum að félagsleg stoðkerfi virki ekki vinnuletjandi á fólk.  Hér er nauðsynlegt að sýna aðgæslu. Við Íslendingar höfum með fáum tímabundnum undantekningum verið svo lánsamir að búa við mikla og almenna atvinnuþátttöku og lítið atvinnuleysi.  Nú eru hins vegar blikur á lofti.  Ég hef áður minnst á atvinnuleysið sem hefur verið - þrátt fyrir góðæri og mikinn hagvöxt undanfarin ár - óásættanlega mikið.  Fjölgun örorkubótaþega síðustu árin hefur verið mikil.  Gert er ráð fyrir að þeir verði allt að 14. 000 í lok næsta árs.  Þessi mikla fjölgun bótaþega hefur áhrif á stöðu lífeyrissjóðakerfisins. 

Þess má geta að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði í júní 2002 starfshóp til að fjalla um starfsendurhæfingu á Íslandi.  Í skýrslu starfshópsins kemur fram að starfsendurhæfing sé áhrifarík leið til að fyrirbyggja ótímabæra örorku.  Það þurfi að endurskipuleggja hana og opna hana fyrir fleirum sem á þurfa að halda,  Gera þarf skipulagið sveigjanlegra þannig að fljótt sé hægt að bregðast við breytingum á vinnumarkaði.

Einnig þurfi að endurskoða lagaákvæði um endurhæfingarlífeyri þannig að hann geti nýst þeim sem þarfnast langvarandi starfsendurhæfingar.  Bent er á að verulega megi bæta endurhæfingu og endurþjálfun örorkubótaþega, hún verði markvissari og leiði til virkarar þátttöku á ný í atvinnulífinu.  Starfshópurinn leggur enn fremur til að rætt verði við hagsmunaaðila um að þeir komi að skipulagningu og fjármögnun sameignlegs starfsendurhæfingarkerfis með stofnun miðstöðvar starfsendurhæfingar þar sem unnt verði að meta endurhæfingarþörf og vinnufærni.  Þar verði hægt að fá,  ef við á,  ráðleggingar um endurhæfingarúrræði. -  Ég er þeirrar skoðunar að ríka nauðsyn beri til að taka félagslegu stoðkerfin til athugunar og kanna hvernig betur megi samhæfa þau og samræma. Markmiðið hlýtur ávallt að vera að gera sem allra flestum kleift að vera þátttakendur í atvinnulífinu.

Ég hef þegar hafið þessa vinnu með skipun nefndar í sumar til endurskoða lög um vinnumarkaðsaðgerðir og um atvinnuleysistryggingar.  Bæði lögin eru frá árinu 1997.

Markmiðið með endurskoðuninni er að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi sem og gæði vinnumarkaðsaðgerða ásamt því að auka skilvirkni almennt.  Hlutverk nefndarinnar er einkum eftirfarandi:

  • að endurskoða stjórnskipulag atvinnuleysistryggingakerfisins með aukna skilvirkni að markmiði,
  • að endurskoða framkvæmd kerfisins, þar á meðal að skýra betur réttindi borgaranna til atvinnuleysistrygginga, svo sem skilyrði fyrir réttindum launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga, skráningu, tryggingatímabil, fjárhæðir, undanþáguheimildir og réttindi innan Evrópska efnahagssvæðisins,
  • að meta árangur vinnumarkaðsaðgerða frá árinu 1997 með hliðsjón af því hvort breytinga sé þörf á gildandi vinnumarkaðskerfi.

Ég tek eftir því að fyrir ársfundinum liggur tillaga að ályktun um atvinnumál.  Þar er þess krafist að stjórnvöld setji skýrari reglur um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.  Enn fremur að setja þurfi lög um starfsmannleigur, m.a. til að vinna gegn félagslegum undirboðum og ólögmætum launakjörum.

Ég geri ráð fyrir að fyrra atriðið vísi til þess að sett verði reglugerð á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga.  Um það atriði vil ég segja eftirfarandi.

Á vegum ráðuneytisins er starfandi samstarfsnefnd sem byggir tilvist sína á ákvæði í 25. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.  Þessi nefnd samdi tillögu að reglugerð sem mér var send í sumar.  Í minnisblaði sem fylgi tillögum nefndarinnar kom fram að ekki hefði tekist full sátt um efni tillögunnar að reglugerðinni en gert væri ráð fyrir að aðilar gætu sætt sig við niðurstöðuna sem væri málamiðlun.  Það kom hins vegar í ljós að annar aðilinn, Samtök atvinnulífsins, taldi sig ekki geta búið við niðurstöðuna.  Ég ákvað því að fresta birtingu reglugerðarinnar og láta sérfræðinga félagsmálaráðuneytisins fara nánar yfir ákveðna þætti hennar.  Á þessari stundu veit ég ekki hvenær niðurstöðu er að vænta.  Þess má hins vegar geta að aldrei var sett reglugerð á grundvelli eldri laga um atvinnuréttindi útlendinga frá árinu 1993 án þess að ég haldi því fram að það hafi verið til fyrirmyndar.

Hitt atriði snertir starfsemi starfsmannaleiga.  Þar hefur ýmislegt verið gert.  Félagsmálaráðuneytið hefur staðið fyrir umfangsmikilli öflun gagna um það hvernig þessum málum er komið fyrir í nágrannalöndunum.  Fulltrúi ráðuneytisins í vinnuhópi á vegum norrænu ráðherranefndarinnar beitti sér fyrir því að fjallað væri um starfsmannaleigur í norrænni samstarfsáætlun á sviði vinnumála og vinnuverndarmála sem tekur til áranna 2005 – 2008. 

Síðast en ekki síst skipaði ég vinnuhóp í lok ágúst sem hefur það hlutverk að fjalla um stöðu starfsmannaleiga á íslenskum vinnumarkaði.  Starfshópnum er meðal annars ætlað að skoða sérstaklega starfsumhverfi starfsmannaleiga sem hafa staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en kjósa að veita þjónustu hér á landi. Enn fremur er starfshópnum ætlað að kanna nauðsyn þess að sett verði sérlög um starfsemi starfsmannaleiga er eiga sér staðfestu hér á landi, hvort sem um er að ræða fyrirtæki sem er innlent að uppruna eða erlent fyrirtæki sem hefur kosið að nýta sér staðfesturétt sinn.  Ég vænti þess að starfshópurinn skili niðurstöðu í byrjun desember. Ég vil taka það fram að hér tel ég m.a. mikilvægt að við fylgjumst með því sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins. Ef niðurstaða skoðunar atvinnumálaráðherra sambandsins á því hvort samþykkja beri drög að tilskipun um starfsmannaleigur, þá yrði slík tilskipun væntanlega hluti af EES-samningnum. Þetta var rætt á fundi ráðherra Evrópusambandsins þann 4. október sl. en enn er allsendis óljóst hvort niðurstaða náist í málinu þrátt fyrir að Hollendingar, sem nú eru þar í formennsku, leggi áherslu á málið.

Ágætu ársfundarfulltrúar.

Ég gat þess í upphafi máls míns að með þjóðarsáttinni hafi verið breytt um aðferðir og teknir upp aðrir samskiptahættir á milli helstu samtaka á vinnumarkaði.  Það er aldrei auðvelt að vera í hlutverki brautryðandans og fara nýjar slóðir.  Það krefst áræðis og hugmyndaflugs sem þeir höfðu sem hafa verið kallaðir höfundar þjóðarsáttarinnar, þeir Ásmundur Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson og Haukur Halldórsson.  En það voru fleiri sem áttu hlut að máli eins og Guðmundur J. Guðmundsson og sá maður sem er að kveðja þennan vettvang í dag. 

Já, mér er tjáð að Halldór Björnsson muni á þessum ársfundi láta af formennsku í Starfsgreinasambandinu.  Halldór er lengi búinn að vera í forystusveit verklýðshreyfingarinnar.  Fyrst sem varaformaður og síðar sem formaður Dagsbrúnar.  Halldór hefur sl. áratug átt einna drýgsta þáttinn í að endurskipuleggja samtök launafólks hér á Suð-Vesturhorni landsins, fyrst með sameiningu Dagsbrúnar og Framsóknar í stéttarfélagið Eflingu árið 1998.  Síðan með stofnun Starfsgreinasambandins í október 2000. 

Með þessum breytingum voru samtökum launafólks hér á höfuðborgarsvæðinu og raunar um land allt skapaðar forsendur til að takst á við breyttar aðstæður og bregðast við nýjum viðfangsefnum.  Halldór hefur haft ríkan skilning á gildi þess fyrir launafólk að viðhalda stöðugleikanum í  efnahagsmálum.  Hann hefur lagt sitt af mörkum í þeim efnum og sýnt einstaka ábyrgðartilfinningu.  Það er m.a. mönnum eins og Halldóri að þakka að þjóðarsáttinn hefur skilað árangri og ávinningi sem hefur bætt hag alls launafólks í þessu landi.  Ég tel að þeir sem standa þessa dagana í samningaviðræðum um kaup og kjör og heyja kjarabáráttu sem um margt minnir á fyrri tíma gætu margt lært af mönnum eins og Halldóri.  Ég vil við þessi tímamót þakka Halldóri Björnssyni fyrir samstarfið og óska honum alls hins besta í framtíðinni.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að hvetja Starfsgreinasambandið til þess að vera áfram frjótt og vakandi. Það er engin tilviljun að við sem berum ábyrgð á atvinnumálum í þessu landi byggjum á víðtæku samráði við aðila vinnumarkaðarins í störfum okkar.  Eins og John Palmer, þekktur sérfræðingur, sagði við sum ykkar á fræðslufundi sem þið sóttuð í Brussel fyrr á þessu ári, þá á verkalýðshreyfingin ekki að bíða eftir því að hlutirnir gerist. Hún á að vera á undan, hafa áhrif og stýra þróuninni. Með því móti getum við saman unnið að bættum hag, öllum til handa, til frambúðar.

Takk fyrir.

  



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum