Hoppa yfir valmynd
28. október 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing um jafnréttisáætlanir

Frá málþingi um jafnréttisáætlanir 26. október 2004
Málþing um jafnréttisáætlanir

Ágætu málþingsgestir.

Yfirskrift þessa málþings er jafnréttisáætlanir. Á þinginu hefur verið fjallað um ýmsar hliðar þess að gera slíkar áætlanir. Hvernig markmið séu skilgreind og hvernig þeim verði best náð. Samkvæmt jafnréttislögum er um að ræða tvenns konar áætlanir. Í 2. mgr. 13. gr. er fjallað um jafnréttisáætlanir fyrirtækja og stofnana en það ákvæði var nýmæli í lögum nr. 96/2000. Í 9. gr. er kveðið á um jafnréttsáætlun stjórnvalda. Því miður hef ég ekki haft tækifæri til að sitja allt þingið og hlusta á þau áhugaverðu erindi sem hér hafa verið flutt en mér skilst að þau hafi fyrst og fremst fjallað um fyrrnefndu áætlanirnar. Ég mun því fara nokkrum orðum um jafnréttisáætlun stjórnvalda.

Nú er það svo að gerð jafnréttisáætlana er tiltölulega nýtt fyrirbrigði í íslenskri stjórnsýslu bæði hjá hinu opinbera sem og á almennum vinnumarkaði. Mér finnst viðeigandi við þetta tækifæri að minna á að ákvæði um sérstaka framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum var fyrst tekið upp í lög nr. 65/1985. Þáverandi félagsmálaráðherra Alexander Stefánsson lagði fyrstur fram slíka áætlun í ríkisstjórn sem síðan var lögð fyrir Alþingi til umræðu. Segja má að síðari áætlanir hafi í öllum höfuðatriðum verið settar upp með líkum hætti og þessi fyrsta áætlun sem Alexander Stefánsson kynnti fyrir Alþingi árið 1986. Ísland varð þar með í hópi þeirra ríkja sem fyrst settu sér slíka áætlun.

Jafnframt því sem sett var í lög ákvæði um sérstakar jafnréttisáætlanir var kveðið á um skyldu ráðherra að taka reglulega saman og leggja fyrir Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Með þeim hætti var þrýst á það að unnið væri að því að ná þeim markmiðum sem sett voru í áætluninni. Þannig yrði áætlunin meira en orðin tóm. Ég held mér sé óhætt að segja að reynslan hafi verið nokkuð góð af gerð jafnréttisáætlana. Auðvitað hefur misvel gengið að ná settum markmiðum. Sumu hefur verið hrundið í framkvæmd og lokið. Annað hefur gengið hægar og kem ég nánar að því hér á eftir.

Þó reynslan af gerð jafnréttisáætlunar stjórnvalda hafi þegar á heildina er litið verið nokkuð góð hefur þótt ástæða til að gera breytingar. Þetta var gert með lögum nr. 28/1991. Með nýju ákvæði í 17. gr. þágildandi laga var forminu breytt þannig að í stað þess að Alþingi skyldi kynnt jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar var tekið fram að félagsmálaráðherra legði áætlunina fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar. Með breytingunni er bæði skerpt á formi og ábyrgð ríkisstjórnar og ráðherra aukin á framkvæmdinni. Þá er einnig tekið fram að áætlunin skuli byggð á tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs. Í henni skuli koma fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum.

Þrátt fyrir ný jafnréttislög árin 1991 og 2000 hefur uppbygging jafnréttisáætlana haldist í öllum höfuðatriðum. Mér fannst því tímabært að hyggja að breytingum. Í þeirri þingsályktunartillögu um aðgerðir til að jafna stöðu kvenna og karla sem var lögð fyrir Alþingi í vor eru verkefnin afmarkaðri, kveðið er á um hvaða ráðuneyti eru ábyrg fyrir framkvæmd hvers verkefnis og hvaða aðilar aðrir komi þar að. Ýmis þeirra verkefna sem um ræðir eru kunnugleg frá fyrri áætlunum, þó mörgum hafi verið lokið á liðnu framkvæmdatímabili. Fjöldi þeirra verkefna frá fyrri áætlunum sem ekki reyndist unnt að ljúka leiddi þó meðal annars til þess að sú ákvörðun var tekin að fækka nú verkefnum. Með því verður áætlunin raunhæfari og um leið markvissari.

Í fyrri framkvæmdaáætlunum var stefnt að því að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í daglegt starf allra ráðuneyta. Enn er nauðsynlegt að hafa þetta markmið að leiðarljósi þar sem árangurinn hefur ekki verið sem skyldi. Hér er þó rétt að benda á að samþætting er ekki markmið í sjálfri sér, heldur er það jafnrétti kynjanna sem er markmiðið. Það næst með því meðal annars að gera samþættingu að viðteknum vinnubrögðum í stjórnsýslunni. Samþætting er aðferðin, eða verkfærið, sem getur gert það kleift að markmiðinu um jafnrétti verði náð.

Árétta má að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum er eitt af mikilvægustu verkfærum sem ríkisstjórnin hefur yfir að ráða til að hafa áhrif á þróun jafnréttismála í samfélaginu.

Frá málþingi um jafnréttisáætlanir 26. október 2004Jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði er eitt af forgangsverkefnum í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun. Á þessum vettvangi er verkefnið tvíþætt. Tryggja að kynin hafi jöfn tækifæri til starfa og starfsframa sem og annarra hlunninda á vinnustaðnum. Í annan stað að vinna að framgangi þess sjálfsagða markmiðs að greidd séu sömu laun fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni. Þetta er eitt af þeim viðfangsefnum sem hægar hefur gengið að hrinda í framkvæmd en ég hefði kosið. Aftur og aftur leiða kannanir í ljós að í þessum efnum er verulegur misbrestur. Nýjustu upplýsingarnar sem enn á ný staðfesta þennan mun er að finna í Hagtíðindum frá 11. október sl. Þar kemur fram að atvinnutekjur kvenna eru 62% af atvinnutekjum karla. Á almennum vinnumarkaði eru konur með 75% af launum karla og 77% af tímakaupi þeirra. Konur í þjónustu hins opinbera eru með 87–90% af launum karla. Af þessum tölum er ljóst að hér enn verk að vinna. Í síðustu viku voru kynntar niðurstöður könnunar Hagrannsóknarstofnunar samtaka launafólks í almannaþjónustu en aðild að stofnuninni eiga Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja. Þær staðfesta í öllum meginatriðum upplýsingarnar sem koma fram í Hagtíðindum.

Ég hef því á starfstíma mínum sem félagsmálaráðherra lagt höfuðáherslu á launajöfnun kvenna og karla. Í samræmi við málsháttinn um að hver sé sjálfum sér næstur ákvað ég að byrja á því að kanna hvernig staðan sé hjá okkur í félagsmálaráðuneytinu. Þegar niðurstöður lágu fyrir voru gerðar ráðstafanir til að leiðrétta þann mun sem fram kom á launum kynjanna. Ég hef hug á því að beita mér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að gripið verði til hliðstæðra aðgerða í öðrum ráðuneytum og stofnunum ríkisins.

Þótt rannsóknir hafi hvað eftir annað leitt í ljós að munur á launum kvenna og karla er staðreynd virðast þeir sem hafa kannað þessa hluti nokkuð sammála um að þau frumgögn sem liggja til grundvallar þessum rannsóknum séu ekki nægilega traust.  Ég hef því lagt áherslu á að leitað verði leiða til að gera hagtölur um þetta efni áreiðanlegri en nú er. Það er ánægjulegt að geta greint frá því að í síðasta mánuði var undirritaður samstarfssamningur Hagstofu Íslands og Kjararannsóknarnefndar um launakannanir og aðrar vinnumarkaðsrannsóknir. Þessi samstarfssamningur er árangurinn af starfi vinnuhóps sem ég skipaði í vor. Ég bind miklar vonir við það að þessi samstarfssamningur leiði til betra talnaefnis fyrir félagsvísindamenn okkar, ekki aðeins almennt um málefni vinnumarkaðarins heldur einnig um afmarkaða þætti eins og laun kvenna og karla.

Mig langar til að geta um annað atriði sem mér finnst mikilvægt í þessu sambandi.  Ísland hefur á þessu ári gegnt formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Við upphaf formennskuársins var kynnt sérstök áætlun undir yfirskriftinni Auðlindir Norðurlanda. Í þeim hluta hennar sem fjallar um jafnréttismál er lögð sérstök áhersla á að brjóta til mergjar ástæður viðvarandi launamunar kynjanna. Þessu hefur verið fylgt eftir. Í sumar samþykktu norrænu embættismannanefndirnar um vinnumál og jafnréttismál íslenska umsókn um stuðning við nýtt norrænt samstarfsverkefni sem tekur til launamunar kynjanna. Vinna við þetta verkefni er þegar hafinn undir forystu Lilju Mósesdóttur en hún hefur verið ráðin verkefnisstjóri.

Tími minn hér í dag leyfir ekki frekari útlistun á þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin og einkum félagsmálaráðuneytið hafa í hyggju að grípa til varðandi launamuninn. 

Ég vil þó minna á aðgerðir ráðuneytisins og Jafnréttisstofu í vor að því er varðar framkvæmd á 2. mgr. 13. gr. jafnréttislaganna um jafnréttisáætlanir fyrirtækja og stofnana sem hafa fleiri en 25 starfsmenn í þjónustu sinni. Ég veit að Ingunn Bjarnadóttir gerði grein fyrir þeim á málþinginu fyrr í dag. Einhverjum kann að þykja að svarhlutfallið hafi verið lágt og árangurinn slakur. Það má til sanns vegar færa að svarhlutfallið var lágt en ég tel að árangurinn hafi verið góður. Frumkvæðið vakti athygli og skapaði umræðu. Starfsmenn vöknuðu til meðvitundar um tilvist þessa lagaákvæðis. Ég er sannfærður um að þeir munu hver á sínum vinnustað rukka yfirmennina um jafnréttisáætlun fyrirtækisins. Á sama hátt trúi ég því að atvinnurekendur og forsvarsmenn fyrirtækja átti sig á gildi slíkra áætlana. Markmiðið er að hæfileikar og færni allra starfsmanna verði nýtt sem best. Í raun er gerð slíkra áætlana ekki síður mikilvæg í smærri fyrirtækjum en þeim stærri. Þar skiptir miklu að einstaklingurinn enn meira máli fyrir afkomuna en í stórum fyrirtækjum. Ég hyggst beita mér fyrir því að þessi könnun verði endurtekin og mér segir svo hugur að þá verði svarhlutfallið hærra en nú varð raunin.

Ágætu málþingsgestir.

Það eru fjölmörg önnur atriði sem ég hefði viljað koma inn á í þessu ávarpi mínu, til dæmis að fjalla nánar um jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar, starf jafnréttisfulltrúa ráðuneyta, árangurinn af lögunum um foreldra- og fæðingarorlof, evrópskt jafnréttissamstarf og margt fleira. Það verður hins vegar að bíða betri tíma. Eftir þetta velheppnaða málþing er mál að snúa sér að næsta þætti. Það er afhending jafnréttisviðurkenningar sem fram fer hér á fjórðu hæð í beinu framhaldi af málþinginu.

Ég vil að lokum færa Jafnréttisráði sérstakar þakkir fyrir að hafa stofnað til þessa málþings um jafnréttisáætlanir. Sömuleiðis öllum þeim sem hafa flutt hér í dag gagnmerk erindi sem og þeim sem hafa komið að undirbúningi þingsins. Síðast enn ekki síst ykkur þáttakendur góðir fyrir að hafa gefið ykkur tíma til að koma hingað í dag, skiptast á skoðunum og deila reynslu ykkar með öðrum. Ef allir leggjast saman á eitt þá næst árangur. Ég þakka ykkur fyrir. 

Myndir frá málþinginu:

 Frá málþingi um jafnréttisáætlanir 26. október 2004     Frá málþingi um jafnréttisáætlanir 26. október 2004 
 Frá málþingi um jafnréttisáætlanir 26. október 2004      Frá málþingi um jafnréttisáætlanir 26. október 2004
       




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum