Hoppa yfir valmynd
26. september 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kæra á staðgreiðslu opinberra gjalda 2017

[…]
[…]
[…]

 

Reykjavík 26. september 2017
Tilv.: FJR17090061/16.2.0


Efni: Kæra á staðgreiðslu opinberra gjalda 2017.

Ráðuneytið vísar til bréfs yðar þar sem kærð er skerðing ellilífeyris vegna staðgreiðslu opinberra gjalda 2017, sbr. bréf velferðarráðuneytisins, dags. 19. september sl., þar sem erindi yðar var framsent fjármála- og efnahagsráðuneytinu til þóknanlegrar meðferðar.

Í bréfi yðar kemur m.a. fram að skattlagning lágmarks ellilífeyris sé bæði ósanngjörn og ólögleg. Er þess krafist að ráðherra ákveði að lágmark ellilífeyris, að fjárhæð 228.734 kr., verði skattfrjáls útborgaður af Tryggingastofnun ríkisins og leiðrétting gerð á staðgreiðslu ársins 2017.

Ráðuneytið lítur svo á að kæran taki til afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda og beiðni yðar um leiðréttingu á henni vegna ársins 2017.

Í 40. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, segir að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Þá segir í 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar að skattamálum skuli skipað með lögum og ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

Ríkisskattstjóri fer með yfirstjórn staðgreiðslu og annast álagningu tekjuskatts og útsvars samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjald og lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Öllum launagreiðendum er skylt að draga staðgreiðslu opinberra gjalda frá launum og öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum til launamanna og skila í ríkissjóð. Staðgreiðslan samanstendur af tekjuskatti og útsvari og er fyrirframgreiðsla upp í álagningu opinberra gjalda samkvæmt skattframtölum einstaklinga. Til staðgreiðsluskyldra launa sem draga á staðgreiðslu opinberra gjalda frá teljast, auk hvers konar endurgjalds fyrir vinnu, ökutækjastyrkir, hlunnindi, flutningspeningar, ferðapeningar, dagpeningar og aðrar starfstengdar greiðslur, aðrar en þær sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu samkvæmt reglugerð þar um. Sem dæmi um endurgjald fyrir vinnu eru laun, hlunnindi, styrkir og reiknað endurgjald sem og lífeyrisgreiðslur, bætur og styrkir sem ekki eru sérstaklega undanþegnir samkvæmt lögum. Afdráttur staðgreiðslu opinberra gjalda skal miðast við laun hvers mánaðar fyrir sig og vera í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju, t.d. í þeim tilfellum þar sem úrskurðarnefndum eins og yfirskattanefnd er falið úrskurðarvaldið.

Ráðuneytið telur að staðgreiðsla opinberra gjalda yðar sé ákvörðuð í samræmi við lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, enda teljast eftirlaun og lífeyrir til staðgreiðsluskyldra launa skv. 5. gr. laganna. Þá er það afstaða ráðuneytisins að ekki sé um stjórnsýslukæru að ræða í skilningi laga nr. 37/1993, enda liggur ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun að baki kærunni.

Með vísan til framangreinds er erindi yðar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda 2017 hafnað.

Fyrir hönd ráðherra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum