Hoppa yfir valmynd
18. júní 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Stofnfundur félags um Keflavíkurflugvöll 26. júní

Stofnfundur opinbers hlutafélags um sameiginlegan rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verður haldinn fimmtudaginn 26. júní næstkomandi í Leifsstöð.

Samkvæmt lögum um stofnum félagsins, sem samþykkt voru á Alþingi í lok maí, á það að taka til starfa 1. janúar 2009. Á stofnfundinum er ráðgert að skipa félaginu stjórn og verður helsta verkefni hennar í upphafi að ráða forstjóra félagsins og undirbúa starfsemina.

Í lögunum segir um tilgang opinbera hlutafélagsins að hann sé að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar sem borgaralegs alþjóðaflugvallar auk hagnýtingar flugvallarsvæðisins í þágu öryggis- og varnartengdrar starfsemi og þjóðlegra skuldbindinga ríkisins. Einnig skuli félagið annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ásamt verslunum, starfsemi í beinum tengslum við flugrekstur og aðra starfsemi sem sé nauðsynleg innan haftasvæðis flugverndar.

Þá kemur fram í lögunum að samgönguráðherra sé heimilt að gera samninga við félagið um uppbyggingu og rekstur flugvallarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að tryggja að þjónusta sé í samræmi við markmið stjórnvalda hverju sinni. Einnig er samgönguráðherra heimilt að fela félaginu að fara með réttindi íslenska ríkisins og annast skuldbindingar þess samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og samningum við önnur ríki, enda samræmist slíkt tilgangi félagsins. Utanríkisráðherra er einnig heimilt að gera samninga við félagið um not þess af öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og mannvirkjum í eigu Atlantshafsbandalagsins.

Um skipulagsmál segir í lögunum að samgönguráðherra skipi sex menn í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og skuli þrír skipaðir samkvæmt tilnefningu sveitarfélaganna Garðs, Reykjanesbæjar og Sandgerðis. Einn skuli skipaður samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra og tveir án tilnefningar og skuli annar þeirra gegna formennsku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira