Hoppa yfir valmynd
30. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Málstofa um Kynslóð jafnréttis í Veröld Vigdísar

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Kvenréttindafélagið, UN Women á Íslandi, Ungar athafnakonur, Landssamband ungmennafélaga og Stígamót boða til málstofu um átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis (Generation Equality Forum). Viðburðurinn fer fram  á morgun, fimmtudaginn 1. júlí kl. 15.30 –17.30 í Veröld, húsi Vigdísar.

Efnt er til málstofunnar í tilefni af ráðstefnu franskra stjórnvalda sem hefst í París í dag og stendur til 2. júlí með stuðningi stýrihóps forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins um þátttöku í íslenskra stjórnvalda í verkefninu og franska sendiráðsins á Íslandi. Á málstofunni verður verkefnið kynnt og efnt til umræðna um áherslur íslenskra stjórnvalda á vettvangi þess

Streymt verður beint frá dagskrá ráðstefnunnar í París þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í verkefninu. Aðrir frummælendur ræða um áskoranir er varðar kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, einkum í tengslum við aðra bylgju #metoo hreyfingarinnar hér á landi og hvaða áhrif þátttaka Íslands í verkefninu getur haft á alþjóðavettvangi. Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona fer með fundar- og umræðustjórn.

Kynslóð jafnréttis er alþjóðlegt jafnréttisátak sem hófst árið 2020 í tilefni 25 ára afmælis framkvæmdaáætlunarinnar frá Peking. Markmið þess er að ríki, alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök og einkaaðilar sameinist um úrbætur á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Frönsk og mexíkósk stjórnvöld fara ásamt UN Women með yfirstjórn verkefnisins. Átakið er unnið á sex málefnasviðum og stýrt af aðgerðabandalögum. Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi (Action Coalition on Gender Based Violence) forystu.  Á ráðstefnunni í París kynna bandalögin sex aðgerðir sem miða að hraðari framþróun á sviði jafnréttismála til næstu fimm ára.  

Dagskrá málstofunnar er meðal annars að finna á vef Kvenréttindafélagsins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum