Hoppa yfir valmynd
6. júní 2012 Dómsmálaráðuneytið

Eftirlit með kynferðisbrotamönnum að lokinni afplánun

Innanríkisráðuneytið hefur um nokkurt skeið verið með í endurskoðun þau ákvæði almennra hegningarlaga sem lúta meðal annars að því að unnt verði að láta kynferðisafbrotamenn með barnagirnd á háu stigi sæta öryggisráðstöfunum eftir afplánun refsidóma.

Í frumvarpsdrögunum er sérstaklega fjallað um úrræði sem beita mætti t.d. ef um væri að ræða einstakling sem gerst hefði sekur um alvarlegt kynferðisbrot gegn börnum og skýrar vísbendingar eru um að hætta gæti verið á því að myndi drýgja alvarleg brot að nýju þegar afplánun lyki. Samkvæmt frumvarpinu myndi dómstóll í öllum tilfellum taka ákvörðun um hvort skilyrði væru til að beita öryggisúrræðum eftir að viðkomandi hefði lokið afplánun refsingar. Frumvarpsgerð er á lokastigi og verða drög sett á vef ráðuneytisins til umsagnar áður en langt um líður.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra stefnir að því  að leggja frumvarpið fram á haustþingi. Hann fjallar um þessi mál í aðsendri grein í DV í dag. Þar bendir hann á að reglulega komi upp umræða um mögulegt eftirlit með kynferðisbrotamönnum eftir að afplánun dóms lýkur. „Í umræðunni vegast á ólík sjónarmið. Annars vegar hin hefðbundnu grunngildi réttarríkisins: Einstaklingur brýtur af sér, hlýtur dóm og að aflokinni refsingu er viðkomandi frjáls til að hefja nýtt líf. Hins vegar það sjónarmið að standi almenningi hætta af einstaklingi sem dæmdur hefur verið, geti verið ástæða til að halda honum frá samfélaginu lengur en kveðið er á um í refsidómi eða hafa eftirlit með honum.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum