Hoppa yfir valmynd
19. mars 2008 Utanríkisráðuneytið

Yfirlýsing um Tíbet

Ísland hefur gerst aðili að yfirlýsingu Evrópusambandsins þar sem lýst er þungum áhyggjum yfir ástandinu í Tíbet og lýst yfir samúð með fjölskyldum fórnarlambanna.

Í yfirlýsingunni er þess krafist að allir aðilar sýni stillingu. Kínversk stjórnvöld eru hvött til að beita ekki valdi gegn þeim aðilum sem taka þátt í mótmælunum og mótmælendur sömuleiðis beðnir um að beita ekki ofbeldi.

Lögð er áhersla á mikilvægi tjáningarfrelsis og á réttinn til friðsamlegra mótmælaaðgerða, og kínversk stjórnvöld beðin um að bregðast við mótmælunum í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar meginreglur lýðræðisins. Lýst er yfir eindregnum stuðningi við að friðsamlegar sættir náist milli kínverskra stjórnvalda og Dalai Lama og fulltrúa hans. Kína er einnig hvatt til að taka á mannréttindamálum í Tíbet.

Í lokin eru báðir aðilar hvattir til þess að efna til umræðna með það fyrir augum að ná fram langtímalausn, sem væri ásættanleg fyrir alla og myndi jafnframt virða tíbetska menningu og trúarbrögð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum