Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2020

Heildarþýðing fornaldarsagna Norðurlanda komin út á dönsku

Fyrsta heildarþýðing fornaldarsagna Norðurlanda á dönsku er komin út. Af því tilefni standa sendiráð Íslands í Danmörku og bókaforlagið Gyldendal fyrir útgáfuhófi fimmtudaginn 30. janúar nk.

Útgáfan sem ber heitið Oldtidssagaerne er í átta bindum og hafa þau birst á undanförnum fjórum árum, tvö bindi á ári. Fornaldarsögur Norðurlanda hafa ekki áður verið þýddar allar saman á erlent mál.

Fornaldarsögurnar eru einn frumlegasti sagnaflokkur íslenskra miðaldabókmennta. Þær eru mikilfenglegar og hugmyndaríkar bókmenntir um víkinga og valkyrjur, forna kappa og meykonunga, berserki og blámenn, dreka og dverga, tröll og risa. Sögurnar voru vinsælt lestrarefni á Íslandi fram eftir öldum en féllu síðar í skuggann af Íslendingasögum. Einmitt þess vegna er hér um að ræða að miklu leyti óuppgötvaðan sagnaflokk fyrir marga lesendur.

Fornaldarsögur hafa á seinni tímum veitt fjölmörgum höfundum fantasíubókmennta innblástur. Breski höfundurinn Tolkien sótti efni í þessar sögur í Hringadróttinssögu og sjónvarpsþáttaraðirnar Game of Thrones (George R.R. Martin) og Vikings (Michael Hirst) hafa óspart heyjað sér efnivið úr íslenskum fornaldarsögum.

Fornaldarsögur Norðurlanda þóttu lengi mikilvægar heimildir um fornöld Norðurlanda, um fornkonunga á borð við Ragnar loðbrók og Hrólf kraka, en einnig um skáldaðar en stórbrotnar hetjur eins og Starkað hinn gamla sem fær skáldagáfu sína beint frá Óðni og lifir þrjár mannsaldra. Þar koma einnig fyrir ógleymanlegar persónur eins og bóndasonurinn Bögu-Bósi sem á vingott við þrjár bóndadætur en rænir sér eiginkonu; og Hervör sem klæðir sig sem karl og tekur karlmannsnafn og nefnir sig Hervarður, stýrir svo skipi til Sámseyjar þar sem hún óttalaus tekur við sverði föður síns úr haugi hans.

Ritstjóri er Annette Lassen, sem hefur þýtt sögurnar ásamt þeim Erik Skyum-Nielsen, Kim Lembek, Rolf Stavnem og Peter Springborg. Bindin átta eru myndskreytt með tréristum eftir danska listamanninn Peter Brandes.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum