Hoppa yfir valmynd
7. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 102/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 102/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010027

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. janúar 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Alsír (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. janúar 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 13. apríl 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 6. desember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 16. janúar 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 22. janúar 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 5. febrúar 2019 ásamt fylgigögnum.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana og aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í borginni Bouira í Alsír og tilheyri hann þjóðarbroti kabyle berba, sem sé minnihlutahópur í landinu. Kærandi kveðst vera virkur í réttindabaráttu berba í heimaríki en þeir krefjist aukinna réttinda sem og sjálfstæðis í Alsír. Kærandi hafi tekið þátt í mótmælum í heimaríki á árunum 2015 til 2016. Í mótmælum haustið 2016 hafi kærandi ásamt vinum sínum brennt alsírska fánann og í kjölfarið hafi vinir kæranda verið handteknir og settir í fangelsi. Samkvæmt alsírskum hegningarlögum liggi fimm til tíu ára fangelsisrefsing við því að vanvirða eða eyðileggja þjóðartákn ríkisins. Sjálfur hafi kærandi sloppið þar sem lögreglan hafi keyrt yfir hann á stórum jeppa og í kjölfarið hafi kærandi þurft að leita á sjúkrahús. Kærandi hafi dvalið á sjúkrahúsinu í um fimm mánuði þar sem tveir hryggjaliðir hafi brotnað. Frásögn sinni til stuðnings hafi kærandi lagt fram læknisvottorð, dags. 14. maí 2018, útgefið af íslenskum lækni. Kærandi kveðst hafa gefið upp rangt nafn á sjúkrahúsinu til þess að koma í veg fyrir að lögreglan myndi leita hann uppi. Eftir sjúkrahúsdvölina hafi kærandi farið til borgarinnar Biska þar sem móðurfjölskylda hans dvelji. Kærandi hafi falið sig þar í um 14 mánuði en á þeim tíma hafi kærandi ekki getað farið út úr húsi af ótta við að yfirvöld myndu finna hann. Kærandi heldur því fram í greinargerð að alsírsk stjórnvöld mismuni honum vegna þátttöku hans í mótmælum, en mótmælendur hafi ekki möguleika á að fá útgefin vegabréf eða önnur sambærileg skilríki í heimaríki hans. Þar sem kærandi sé ekki með umrædd persónuskilríki þá geti hann ekki fengið vinnu.

Í greinargerð er fjallað almennt um stöðu mannréttindamála í Alsír. Þar kemur m.a. fram að alsírsk yfirvöld takmarki tjáningar- og fundafrelsi borgaranna auk þess sem yfirvöld takmarki friðsamleg mótmæli. Þá er einnig fjallað um stöðu einstaklinga af þjóðarbroti berba í Alsír og kemur m.a. fram að þrátt fyrir að alsírsk stjórnvöld hafi á undanförnum árum tekið skref í átt að auknum réttindum berba þá séu berbar í algjörum minnihluta og stefna stjórnvalda lúti arabískum venjum og viðmiðum. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna sem hann telji styðja við mál sitt.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð þar í landi. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til stjórnmálaskoðana hans. Kærandi sé kabyle berbi sem hafi barist fyrir auknum réttindum þjóðflokks síns og því að berbar fái sjálfstæði frá Alsír. Þá hafi kærandi tekið þátt í fjölda mótmæla sem tengist þessari baráttu. Yfirvöld í Alsír taki hart á pólitískum aðgerðarsinnum og hafi vinir kæranda verið fangelsaðir í kjölfar þátttöku þeirra í mótmælum. Kærandi óttist fangelsisvist og pyndingar vegna þátttöku sinnar í umræddum mótmælum verði hann endursendur til heimaríkis. Þá telji kærandi líklegt að hann muni ekki lifa af fangelsisvist í heimaríki. Í Alsír sé starfandi leyniþjónusta sem taki upp mótmæli á myndbönd í því skyni að leita síðar uppi þá einstaklinga sem hafi tekið þátt. Þá telji kærandi að yfirvöld geti ekki veitt honum vernd eða aðstoð. Kærandi óttist stjórnvöld í heimaríki og geti hann af þeim sökum ekki talist vera öruggur í öðrum landshlutum Alsír.

Í greinagerð vísar kærandi í handbók Flóttamannastofnunar þar sem komi m.a. fram að ef umsækjandi hafi verið sóttur til saka eða hlotið refsingu fyrir pólitískan glæp, þá þurfi að gera greinarmun á hvort um sé að ræða saksókn vegna stjórnmálaskoðana eða lögbrot sem framin séu af pólitískum ástæðum. Sá sem fremji afbrot af stjórnmálaástæðum geti talist flóttamaður en slíkt velti þá á ýmsum þáttum, en saksókn við vissar aðstæður geti t.a.m. verið átylla til að refsa brotamanni fyrir stjórnmálaskoðanir sínar eða fyrir að hafa látið þær í ljós. Jafngildi það ofsóknum ef ætla megi að sá sem framið hafi afbrot af stjórnmálaástæðum eigi á hættu að fá óhóflega eða handahófskennda refsingu fyrir ætlað brot sitt.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða handtekinn, beittur ofbeldi og pyndaður af hálfu alsírskra stjórnvalda verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis, en hart sé brugðist við pólitískum mótmælum, móðgunum og gagnrýni á yfirvöld. Kærandi telji raunhæfa ástæðu til að ætla að hann eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu snúi kærandi aftur til Alsírs.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennum aðstæðum í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi heldur því fram í greinargerð að gróf mannréttindabrot viðgangist í Alsír, miklar takmarkanir séu lagðar á tjáningarfrelsi borgaranna og hart sé brugðist við hvers kyns gagnrýni og móðgunum í garð yfirvalda og ríkisins sjálfs. Þá stundi lögreglan pyndingar og illa meðferð á borgunum landsins, alla jafna í skjóli refsileysis. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Kærandi sé virkur þátttakandi í mótmælum í heimaríki og hafi hann gagnrýnt yfirvöld m.a. með því að brenna fána landsins. Kærandi kveður yfirvöld vita deili á honum og því hafi kærandi neyðst til að flýja heimaríki. Þá sé kærandi af þjóðarbroti berba sem sé jaðarsettur hópur í Alsír.

Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann geri athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar og trúverðugleikamat stofnunarinnar sem snúi að ökuskírteini kæranda útgefnu árið 2008. Útlendingastofnun telji að umrætt ökuskírteini stangist á við þá staðhæfingu kæranda um að honum standi ekki til boða að fá útgefið vegabréf eða önnur sambærileg skilríki í Alsír vegna þátttöku sinnar í mótmælum. Kærandi hafnar því og kveðst hafa reynt í fimm ár að fá útgefið vegabréf þrátt fyrir að vera með alsírska kennitölu og vera skráður í þjóðskrá landsins. Kærandi telji Útlendingastofnun gera of mikið úr ósamræmi í frásögn kæranda og ósamræmið hafi haft of mikil áhrif á ályktanir stofnunarinnar og niðurstöðu. Í þessu sambandi vísar kærandi í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um trúverðugleikamat og 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2011/95/ESB, en þar séu ýmsar viðmiðunarreglur varðandi trúverðugleikamat umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í skýrslunni komi m.a. fram að trúverðugleiki skuli ekki dreginn í efa nema um sé að ræða ósamræmi í kjarna frásagnar umsækjanda. Þá gerir kærandi athugasemd við áherslu Útlendingastofnunar á að kærandi leggi fram gögn, máli sínu til stuðnings. Samkvæmt handbók um réttarstöðu flóttamanna beri, í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem umsækjandi sé í, og hversu erfitt geti reynst að leggja fram sannanir, að gera minni kröfur til sönnunarfærslu en ella. Kærandi hafi ekki fengið að njóta vafans í málinu og ósanngjarnar sönnunarkröfur hafi verið lagðar á hann. Með tilliti til landaupplýsinga um vinnubrögð lögreglu í heimaríki kæranda eigi hann að njóta vafans. Þá mótmælir kærandi einnig því mati Útlendingastofnunar að möguleg afleiðing íkveikju kæranda á alsírska fánanum teljist ekki óhófleg eða handahófskennd refsing. Að mati kæranda sé sú refsing sem kærandi eigi yfir höfði sér í andstöðu við íslensk lög og siðferði og verði því að teljast óhófleg auk þess sem hún feli í sér ómannlega og vanvirðandi meðferð í skilningi ákvæða laga um útlendinga.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili. Leyst hafi verið úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika og við rannsókn málsins hafi ekkert komið fram sem gefi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa. Því hafi verið lagt til grundvallar að kærandi komi frá Alsír. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja mati Útlendingastofnunar og verður því byggt á því í málinu að kærandi sé frá Alsír. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Alsír m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • World Report 2019 – Algeria (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);

·         Algeria 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);

  • BTI 2018 Country Report Algeria (Bertelsmanns Stiftung, 1. janúar 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Algeria (Freedom House, 1. ágúst 2018);
  • Terrorism in Africa. A Quantitative Analysis (Totalförsvarets Forskningsinstitut, 1. janúar 2017);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Algeriet 2015–2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
  • Country Policy and Information Note Algeria: Background information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, ágúst 2017);
  • Consideration of reports submitted by States parties under article 9 of the Convention, Combined twentieth and twenty-first periodic reports of States parties due in 2015: Algeria (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination (CERD), 23. ágúst 2016);
  • Algerie - ID-dokumenter og offentlig forvaltning (Landinfo, 11. maí 2015);
  • Algerie: Sikkerhet og terrorisme (Landinfo, 9. desember 2015) og
  • Country of Origin Information Report – Algeria (UK Home Office, 17. janúar 2013).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Alsír fjölflokka lýðveldi með rúmlega 42 milljónir íbúa. Alsír lýsti yfir sjálfstæði frá Frakklandi árið 1962 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum sama ár. Ríkið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið 1963, mannréttindasáttmála Afríku árið 1987 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1989. Árið 1989 gerðist ríkið jafnframt aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Fyrrgreindar skýrslur gefa til kynna að helstu mannréttindabrot í ríkinu snúi að takmörkunum á funda-, fjölmiðla- og félagafrelsi, skorti á sjálfstæði dómsvaldsins, óhóflegri valdbeitingu lögreglu, útbreiddri spillingu og refsileysi opinberra starfsmanna. Þá séu árásir hryðjuverkasamtaka vandamál í Alsír en slíkar árásir beinist aðallega að lögreglunni, öryggissveitum landsins og hernum. Stjórnarskrá Alsírs kveði á um að allir eigi rétt á réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum og að gengið sé út frá því að einstaklingur sé talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð. Þar að auki sé sjálfstæði dómstóla tryggt í stjórnarskrá landsins. Heimildir bendi hins vegar til þess að dómstólar séu ekki í öllum tilvikum hlutlausir og séu jafnvel spilltir, sjá m.a. skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2018. Lögum samkvæmt liggi allt að tíu ára fangelsisvist við spillingu í opinberu starfi en stjórnvöld fylgi lögunum ekki eftir með fullnægjandi hætti og refsileysi stjórnvalda sé vandamál í landinu.

Í fyrrgreindri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að þrátt fyrir að handahófskenndar handtökur séu refsiverðar samkvæmt lögum séu dæmi um að stjórnvöld noti óljós lagaákvæði eða löggjöf gegn hryðjuverkum til að þagga niður í eða handtaka einstaklinga sem gagnrýni opinberlega eða harðlega stjórnvöld landsins. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2018 og skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 sé rétturinn til funda- og félagafrelsis verndaður í stjórnarskrá Alsírs. Allir opinberir fundir eða samkomur verði þó að fá samþykki stjórnvalda. Lögregla landsins leysi reglulega upp óheimilar samkomur og séu skipuleggjendur óheimilla samkoma handteknir og þeim haldið í allt að nokkrar klukkustundir. Þá hafi stjórnvöld þrengt að veitingu leyfa til fundarhalda og eigi það einnig við samkomur skipulagðar af stjórnmálaflokkum sem fari fram innandyra. Dæmi séu um að hóteleigendur neiti að leigja út húsnæði án þess að hafa fengið skriflegt samþykki innanríkisráðuneytis landsins. Þá hafi stjórnvöld lagt bann við að húsnæði leikhúsa, kvikmyndahúsa og félagsheimila víðs vegar um landið séu notuð til annars en þeim sé ætlað. Þrátt fyrir þetta eigi sér stað friðsamlegar samkomur og mótmæli í Alsír.

Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kemur fram að flestir Alsíringar séu af þjóðarbroti berba/amazigh, en aðeins 15 % þjóðarinnar skilgreini sig sem berba. Berbar séu múslimar og verði ekki fyrir mismunun í Alsír, en mismunun á grundvelli þjóðernis sé bönnuð samkvæmt stjórnarskrá landsins. Í skýrslu UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination frá 23. ágúst 2016 kemur fram að ríkisstjórn landsins leitist við að stuðla að efnahagslegum-, félagslegum- og menningarlegum réttindum Alsírbúa. Sú viðleitni birtist m.a. með þeim hætti að árið 2016 hafi tamazight, sem sé tungumál berba, verið gert að opinberu tungumáli í landinu en tamazight hafi verið skilgreint sem þjóðartungumál í stjórnskrá Alsírs frá árinu 2002. Þá hafi jafnframt verið sett á fót sérstök fræðastofnun tileinkuð tamazight tungumálinu auk þess sem rétturinn til menningar sé nú verndaður í stjórnarskrá landsins. Þá séu stjórnmálaflokkar einstaklinga af amazigh uppruna starfræktir í Alsír þó þeir bjóði ekki alltaf fram í kosningum. Þó nokkur bæjarfélög séu undir stjórn þessara flokka, aðallega í Kabylie héraði.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 séu engar marktækar skýrslur um aðstæður í alsírskum fangelsum sem bendi til þess að mannréttindabrot eigi sér stað innan þeirra. Þá sé bannað samkvæmt alsírskum lögum að vista einstaklinga í varðhaldi í öðru húsnæði en því sem sé sérstaklega ætlað til varðhalds jafnframt sem húsnæðið þurfi að vera á skrá saksóknaraembættisins, sem hafi það hlutverk að fylgjast með aðstæðum í fangelsum. Þá heimili alsírsk stjórnvöld Alþjóðaráði Rauða krossins, Rauða hálfmánanum (e. International Committee of the Red Cross) og innlendum mannréttindasamtökum að skoða aðstöðu fanga í fangelsum, á lögreglustöðvum og herstöðvum landsins. Þá komi jafnframt fram í skýrslunni að stjórnvöld í Alsír hafi á síðustu árum bætt aðstæður í fangelsum ríkisins til að uppfylla alþjóðleg viðmið. Á síðastliðnum árum hafi stjórnvöld unnið að því að fjölga fangelsum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að eldri fangelsin fyllist. Skýrsla sænska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 tekur undir að aðstæður í alsírskum fangelsum hafi farið verulega batnandi undanfarin ár.

Í skýrslu Lifos frá árinu 2015 kemur fram að allir alsírskir ríkisborgar 15 ára og eldri séu skyldugir til að sækja um persónuskilríki útgefið af stjórnvöldum. Sótt sé um persónuskilríki hjá stjórnvöldum í heimahéraði viðkomandi og þurfi að leggja fram gögn sem sýni fram á hver viðkomandi sé á borð við fæðingarvottorð og dvalarvottorð. Í Lifos skýrslunni kemur einnig fram að stjórnvöld í Alsír hafi innleitt hina stafrænu vegabréfatækni og gefi stjórnvöld eingöngu út stafræn vegabréf. Hægt sé að sækja um vegabréf í heimahéraði viðkomandi eða í alsírskum sendiráðum. Gildistími vegabréfa og persónuskilríkja sé tíu ár. Ekki sé vitað til þess að einstaklingum sé mismunað og neitað um vegabréf á grundvelli þjóðernis, trúar eða stjórnmálaskoðana. Þó séu dæmi um að einstaklingur ákærður fyrir glæp hafi verið neitað um vegabréf.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann óttist óhóflegar refsingar og pyndingar vegna þátttöku sinnar í mótmælum verði hann endursendur til heimaríkis. Þá telji kærandi líklegt að hann muni ekki lifa af fangelsisvist í heimaríki. Þá tilheyri kærandi þjóðarbroti berba, sem sé minnihlutahópur í Alsír.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir ofsóknum í heimaríki af hálfu stjórnvalda en kveðst óttast að verða fyrir ofsóknum af þeirra hálfu vegna þátttöku í mótmælum þar sem kærandi hafi barist fyrir réttindum berba í Alsír. Í mótmælum haustið 2016 hafi kærandi kveikt í alsírska fánanum ásamt vinum sínum og hafi vinir hans í kjölfarið hlotið fangelsisrefsingu. Sjálfur hafi kærandi sloppið þar sem lögreglan hafi ekið yfir hann á stórum jeppa og hafi kærandi þurft að leita á sjúkrahús. Kærandi kveðst hafa dvalið á sjúkrahúsi, undir röngu nafni, í um fimm mánuði þar sem tveir hryggjaliðir hafi brotnað. Frásögn sinni til stuðnings hefur kærandi lagt fram læknisvottorð, dags. 14. maí 2018, þar sem kemur fram að kærandi sé greindur með hrygggigt. Einnig kemur fram í vottorðinu að kærandi sé með brot í brjósthryggnum sem hafi gróið með aðstoð málmstangar og skrúfa.

Kærandi hefur lýst yfir ótta við óhóflega fangelsisrefsingu fyrir þátttöku sína í mótmælum sem og að hafa kveikt í alsírska fánanum. Að mati kærunefndar beri gögn með sér að það séu aðallega skipuleggjendur óheimila mótmæla sem séu handteknir en þeim sé þó að jafnaði ekki haldið lengur en nokkrar klukkustundir. Þá séu almennir mótmælendur sem taki þátt í óheimilum samkomum almennt ekki fangelsaðir fyrir það eitt að hafa tekið þátt í slíkum samkomum. Kærandi heldur því fram í greinargerð að starfandi sé leyniþjónusta í Alsír sem taki upp mótmæli á myndbönd og síðar, þegar mótmælin séu yfirstaðin, skoði leyniþjónustan myndböndin og leiti uppi þá einstaklinga sem hafi átt í hlut. Í greinargerð heldur kærandi því einnig fram að hann hafi ekki getað fengið gögn, á borð við vegabréf og skilríki, útgefin vegna þátttöku sinnar í mótmælum, en kærandi hafi reynt í um fimm ár að fá útgefið vegabréf en það hafi aldrei tekist. Þessi staðhæfing kæranda fær ekki stoð í þeim landaupplýsingum sem kærunefnd hefur skoðað. Samkvæmt skýrslu Landinfo sé ekki vitað til þess að einstaklingum sé mismunað og neitað um vegabréf á grundvelli stjórnmálaskoðana. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar bendir ekkert til þess að alsírsk stjórnvöld leiti uppi einstaklinga í kjölfar mótmæla og hefur kærandi ekki lagt fram eða vísað til gagna sem bendi til annars. Þá er það mat kærunefndar að ef stjórnvöld í Alsír hafi leitað kæranda í kjölfar mótmælanna, m.a. með aðstoð upptaka af mótmælunum, hefði verið auðvelt að finna hann þar sem hann hafi legið á sjúkrahúsi í fimm mánuði. Þá vísar kærunefnd sérstaklega til þess að kærandi greindi frá því að hann hafi lagst inn á sjúkrahús vegna áverka sem lögreglan hafi veitt honum. Það er mat kærunefndar að kærandi hafi ekki leitt að því líkur að hans hafi í raun verið leitað af stjórnvöldum í kjölfar þátttöku sinnar í mótmælum.

Samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar teljast þeir sem flýja saksókn eða refsingu vegna afbrots alla jafna ekki flóttamenn. Þó verður að meta hvort afbrotamaður geti átt á hættu óhóflega refsingu eða hvort ástæða ákæru jafngildi ofsóknum. Einnig geti þurft að meta hvort lög viðkomandi lands séu ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum. Í b-lið 160. gr. alsírskra hegningarlaga kemur fram að sá sem opinberlega og með ásetningi afbakar, tætir eða vanhelgar þjóðartákn ríkisins eigi yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisvist. Sambærilegt athæfi er refsivert samkvæmt íslenskum lögum en samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið á sá sem óvirðir íslenska þjóðfánann í orði eða verki yfir höfði sér sekt eða fangelsi í allt að eitt ár. Þá er einnig refsivert að ráðast með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann m.a. lögreglu skv. 1. mgr. 106. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Er það mat kærunefndar að sú refsing sem kærandi eigi mögulega yfir höfði sér í Alsír, fyrir að hafa kveikt í þjóðarfána Alsírs, teljist hvorki til „harðra viðurlaga“ í skilningi handbókar Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna né geti refsingin talist „óhófleg“ í skilningi c-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt þeim gögnum um heimaríki kæranda sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar eru engar marktækar skýrslur um aðstæður í fangelsum sem bendi til þess að kerfisbundin mannréttindabrot eigi sér stað innan þeirra. Þá bendi gögn þvert á móti til þess að aðstæður í alsírskum fangelsum hafi farið verulega batnandi á undanförnum árum. Í ljósi framangreindra gagna er það mat kærunefndar að verði kæranda gert að afplána fangelsisrefsingu fyrir að brjóta gegn lögum landsins þá sé kærandi ekki í raunverulegri hættu á að verða fyrir pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þrátt fyrir að kærunefnd útlendingamála dragi ekki í efa frásögn kæranda um að hann hafi tekið þátt í mótmælum þá telur kærunefnd, með vísan til ofangreinds og gagna um heimaríki kæranda, að kærandi eigi ekki hættu á meðferð sem nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Kærandi hefur ekki lagt fram eða vísað til gagna sem leiða að því líkur að staða hans sé önnur og verri en ofangreindar skýrslur benda til eða hann sé að öðru leyti útsettari fyrir athöfnum sem gætu talist ofsóknir heldur en aðrir í sambærilegri stöðu.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild. Kærandi hefur greint frá því að hann sé í hættu á að búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki þar sem yfirvöldum sé kunnugt um afstöðu hans til stjórnvalda auk þess sem hann tilheyri þjóðarbroti berba sem sé jaðarsettur hópur í Alsír. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að unnt sé að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Líkt og áður hefur komið fram lagði kærandi fram læknisvottorð, dags. 14. maí 2018, þar sem kemur fram að kærandi sé greindur með hrygggigt. Þá kemur einnig fram að kærandi sé með brot í brjósthryggnum sem hafi gróið með aðstoð málmstangar og skrúfa. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2013 kemur fram að alsírsk stjórnvöld veiti öllum borgurum heilbrigðisþjónustu án endurgjalds óháð kyni, þjóðflokki eða aldri. Ekkert í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar bendir til þess að þetta hafi breyst. Einnig styður þetta frásögn kæranda um að hann hafi fengið fullnægjandi heilbrigðisaðstoð í heimaríki.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 11. apríl 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 13. apríl s.á. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er almennt við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum