Hoppa yfir valmynd
18. mars 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 469/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 469/2019

Miðvikudaginn 18. mars 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. nóvember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. september 2019 þar sem umsókn kæranda um maka-/umönnunarbætur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um maka-/umönnunarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins frá […] með umsókn, dags. 25. júlí 2019. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. september 2019, var umsókn kæranda um umönnunarbætur synjað með þeim rökum að kærandi búi ekki í sömu íbúð og lífeyrisþegi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 10. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. nóvember 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. desember 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að veita kæranda ekki umönnunarbætur á þeim grundvelli að hún sé ekki með sama heimilisfang og móðir hennar. Kæranda hafi verið ráðlagt af stafsmanni stofnunarinnar að breyta lögheimili sínu þegar móðir hennar veiktist.

Við upphaf veikinda móður kæranda hafi kærandi leitað ráða hjá Tryggingastofnun. Þá hafi hún ekki verið í stöðu til að skilja hvaða afleiðingar það gæti haft á fjárhag hennar að hlýða tilmælum starfsmanns stofnunarinnar. Upplifun kæranda sé að starfsmaður Tryggingastofnunar hafi vísvitandi gefið henni ráðleggingar sem myndu spara stofnuninni pening en gera hennar stöðu verri. Kærandi sé ekki lögfræðimenntuð og hafi verið á mjög viðkvæmum stað þegar hún hafi fengið þessi ráð sem hún hafi hlýtt. Kærandi bendir á að hún hafi fært lögheimili sitt á sama tíma og móðir hennar hafi byrjað að fá bætur frá Tryggingastofnun.

Álagið sem hafi fylgt þessu umönnunarhlutverki sé meira en hún hafi gert ráð fyrir og sé hún nú sjálf komin í endurhæfingu hjá VIRK. Tekjutapið hafi bætt verulega á álagið og það sé hneykslanlegt að starfsmaður Tryggingastofnunar hafi sagt henni að færa lögheimili sitt. Rökstuðningurinn fyrir ráðleggingunum hafi verið að móðir kæranda fengi hærri bætur ef kærandi myndi færa lögheimilið sitt frá henni. Kærandi hafi trúað þessu en í raun hefðu sameiginlegar tekjur þeirra mæðgnanna verið mun hærri ef hún hefði fengið umönnunarbætur og þá hefði hún átt auðveldara með að sinna móður sinni betur og álagið hefði verið minna.

Kærandi hafi sinnt móður sinni allan sólarhringinn, umönnunin hafi verið það mikil að það hafi ekki skipt máli hvar lögheimili hennar hafi verið, eins og fram komi í bréfi frá B sem hafi fylgt með umsókn hennar. Tekjumissir kæranda hafi verið í takt við að hún sinnti móður sinni öllum stundum.

Kærandi hafi ekki haft efni á því að leigja húsnæði á meðan hún hafi sinnt móður sinni og hafi þurft að reiða sig alfarið á aðstoð X og X. Farið sé fram á að skoðað verði hvers vegna fólk í viðkvæmri stöðu fái svona ráðleggingar frá starfsmönnum Tryggingastofnunar en kæranda ekki refsað fyrir að gera eins og henni hafi verið sagt. Kærandi hafi treyst því að stofnunin hefði hag móður hennar fyrir brjósti og sé miður sína yfir því að það traust hafi verið brotið.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram kærð sé synjun á umönnunarbótum vegna umönnunar móður kæranda þar sem hún búi ekki á sama stað og umönnunarþegi.

Í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem séu allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu samkvæmt 18. og 22. gr. laga um almannatryggingar. Jafnframt sé heimilt, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að greiða öðrum sem haldi heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur.

Á grundvelli 5. gr. laga um félagslega aðstoð hafi verið sett reglugerð nr. 407/2002. Í 2. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að greiða maka- eða umönnunarbætur, sbr. 1. gr., ef um sé að ræða sameiginlegt lögheimili lífeyrisþega og þess sem annist um hann. Jafnframt skuli sýnt fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega. Í niðurlagi 3. gr. sömu reglugerðar sé einnig tekið fram að umsókn skuli fylgja staðfesting á tekjutapi eða tekjuleysi umönnunaraðila.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Í þeim lögum segi meðal annars að sækja skuli um allar bætur samkvæmt 1. mgr. 52. gr. þeirra. Í 1. mgr. 53. gr. laganna segi svo að réttur til bóta stofnist frá þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir endi.

Þá sé í 37. gr. sömu laga meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögunum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt.

Kærandi hafi sótt um umönnunarbætur vegna móður sinnar með umsókn þann 25. júlí 2019. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. september 2019, þar sem kærandi sé ekki heimilismaður móður hennar samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Kærandi taki fram í kærumálsgögnum að sér hafi ekki verið leiðbeint um að betra væri að vera skráð á sama stað og móðir hennar og vera ekki með heimilisuppbót líkt og móðir kæranda njóti nú þegar og hafi gert síðustu ár hjá stofnuninni ásamt örorkulífeyri og uppbót til framfærslu örorkulífeyrisþega. Áður hafi móðir kæranda verið búin með tuttugu og tvo mánuði á endurhæfingarlífeyri vegna veikinda sinna. Nú sé móðir kæranda […] vegna veikinda og kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun með umsókn, dags. 11. nóvember 2019. Sú umsókn hafi ekki verið afgreidd hjá stofnuninni þar sem ekki hafi verið skilað þeim viðbótargögnum sem óskað hafi verið eftir þann 12. nóvember 2019.

Það sé niðurstaða Tryggingastofnunar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um umönnunarmat til kæranda vegna móður hennar þar sem hún sé ekki búsett á sama stað og móðir hennar hafi verið rétt í ljósi allra málsatvika. Enda sé sú synjun byggð á skýru reglugerðarákvæði sem sett hafi verið með stoð í lögum um félagslega aðstoð. Þá skuli tekið fram að umsækjendum um bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins beri að sækja um allar bætur til stofnunarinnar samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar. Í því samhengi sé bent á að þeim sé í sjálfvald sett um hvað þeir sæki. Alltaf sé það því mat umsækjanda hvað sótt sé um hverju sinni þrátt fyrir að stofnunin eigi að meta aðstæður heildstætt samkvæmt 37. gr. laga um almannatryggingar.

Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggðist á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. september 2019 um að synja umsókn kæranda um umönnunarbætur með móður hennar frá […].

Um maka-/umönnunarbætur er fjallað í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga samkvæmt 18. og 22. gr. laga um almannatryggingar. Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur. Þá kemur fram að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Reglur nr. 407/2002 um maka- og umönnunarbætur voru settar með heimild í lögum nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, sem felld voru úr gildi með núgildandi lögum um félagslega aðstoð. Reglunum var breytt með reglum nr. 1253/2016. Þar er að finna í 1. gr. ákvæði sem er að mestu samhljóða 5. gr. framangreindra laga. Svohljóðandi er 1. gr. reglnanna:

„Heimilt er, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega bætur vegna umönnunar lífeyrisþegans. Makabæturnar eru allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu skv. 18. og 22. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur sem nema sömu fjárhæð og makabætur.“

Í 1. málsl. 2. gr. framangreindra reglna kemur fram að heimilt sé að greiða umræddar greiðslur ef um sé að ræða sameiginlegt lögheimili lífeyrisþega og þess sem annist um hann og jafnframt skuli sýnt fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega. Meðfylgjandi umsókn kæranda var bréf frá B, dags. 29. júní 2019. Þar segir:

„Hér með vottast að [kærandi] hefur sinnt móður sinni frá því að hún kom í þjónustu C frá upphafi árs X og síðar B. Vegna mikilla skerðingar af sínum sjúkdómi hefur D oft á tíðum þurft sólarhrings viðveru og umönnun. [Kærandi] er eini stuðningsaðili D og hefur mikið mæðst á henni og hún því lítið geta stundað X né X þennan tíma. Það skal tekið fram að hvorki ríkið né sveitafélögin bjóða upp á viðveru eins og hefðu þurft í tilviki D.“

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu umönnunarbóta að lífeyrisþegi og sá sem annast um hann hafi sama lögheimili, sbr. 1. málsl. 2. gr. reglna nr. 407/2002 um maka- og umönnubætur. Þá er kveðið á um það skilyrði fyrir greiðslu umönnunarbóta í 2. málsl. 5. gr. laga um félagslega aðstoð að sá sem annast um lífeyrisþega haldi heimili með honum. Við mat á því hvort kærandi hafi uppfyllt framangreind skilyrði lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til  laga nr. 21/1990 um lögheimili, sem giltu til 31. desember 2018. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Þá sagði í 2. mgr. 1. mgr. laganna að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá var kærandi ekki skráð með sama lögheimili og móðir hennar frá […]. Þá byggir kærandi ekki á því að hún hafi í raun verið búsett hjá móður sinni eftir framangreint tímamark heldur lýsir einungis mikilli umönnun. Einnig segir í kæru að kærandi hafi ekki haft efni á að leigja húsnæði á meðan hún hafi sinnt mömmu sinni og hafi því þurft að reiða sig alfarið á aðstoð frá X og X. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af framangreindum upplýsingum í kæru að kærandi hafi ekki haft fasta búsetu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili hjá móður sinni eftir […]. Önnur ályktun verður heldur ekki dregin af fyrrgreindu bréfi frá B. Af því verður einungis ráðið af því að kærandi hafi oft og tíðum dvalist hjá móður sinni. Í ljósi framangreinds er það mat úrskurðarnefndar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum umönnunarbóta frá […].

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins hafi ranglega leiðbeint kæranda við upphaf veikinda móður hennar varðandi flutning á lögheimili þá er erfitt er að segja til um hvað fór nákvæmlega fram á milli kæranda og starfsmanns Tryggingastofnunar ríkisins. Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af því að kærandi hafi í reynd ekki haft fasta búsetu hjá móður sinni frá […] telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki komi að til álita komi að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun á grundvelli framangreindrar málsástæðu kæranda.

Fyrir liggur aftur á móti að kærandi óskar eftir umönnunargreiðslum frá […]. Ljóst er að kærandi var með skráð lögheimili á sama stað og móðir hennar á þeim tíma fram til […]. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að Tryggingastofnun hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um greiðslur vegna þess tímabils á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki haldið heimili með móður sinni. Úrskurðarnefndin telur rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til mats á því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum umönnunarbóta á framangreindu tímabili.

Í ljósi framangreinds er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um umönnunargreiðslur felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um makabætur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum