Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 2. - 8. apríl

Annað gigtarlyf, Bextra, tekið af markaði

Gigtarlyfið Bextra hefur verið tekið af markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Lyfið er talið hafa sambærilegar hættulegar aukaverkanir og Vioxx sem tekið var af markaði síðastliðið haust. Að auki hafa alvarleg húðviðbrögð gert vart við sig hjá notendum lyfsins. Stjórnendur lyfjafyrirtækisins Pfizer ákváðu eftir viðræður við Lyfjastofnun Evrópu og Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna (FDA) að taka Bextra (valdecoxib) af markaði í Evrópu og Bandaríkjunum þar til að lokaniðurstöður liggja fyrir í mati á COX-2 lyfjaflokknum. Nánar er sagt frá þessu á heimasíðu Lyfjastofnunar.
Nánar...

Rúmafjöldi á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum

Rúmlega átján hundruð rúm eru á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum í apríl 2005. Um helmingur rúmanna er hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi, eða 899. Rúmin skiptast í sjúkrarúm, hjúkrunarrými, dagdeildarrými og sérstök bráðarými sem svo eru nefnd.
pdf-takn Fjöldi rúma...

 

Stjórnunarupplýsingar Landspítala – háskólasjúkrahúss, janúar - febrúar

Áhersla er lögð á sex þætti í rekstri Landspítala – háskólasjúkrahúss í stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins mánuðina janúar til febrúar. Birtar eru upplýsingar um fimm algengustu DRG flokkana á hverju sviði spítalans á síðasta ári, birtar starfsemistölur fyrir janúar og febrúar í samanburði við sömu mánuði í fyrra, sett fram bráðabirgðauppgjör fyrstu tveggja mánaðanna og samanburður við rekstraráætlun og birtir biðlistar eftir þjónustu spítalans. Loks eru þar settar fram upplýsingar frá öldrunarsviði. Stjórnunarupplýsingarnar eru aðgengilegar á heimasíðu sjúkrahússins.
Nánar...

 

Veitingamenn leggja til reykingabann árið 2007

Samtök ferðaþjónustunnar óska eftir viðræðum við stjórnvöld þar sem gengið verði út frá því að reykingar verði bannaðar á veitinga- og skemmtilstöðum frá og með 1. júní 2007. Þetta var samþykkt á aðalfundi samtakanna í gær, að tillögu Hótel- og veitingamanna. Byggt er á því að þróunin að undanförnu stefni í þessa átt, jafnt hérlendis sem erlendis. Í ljósi þessa er vilji til viðræðna við stjórnvöld um að reykingabanni verði komið á en ekki fyrir 1. júlí 2007 til að gefa svigrúm til aðlögunar. Um 80 veitingastaðir eru nú reyklausir.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
8. apríl 2005.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum