Hoppa yfir valmynd
6. september 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra veitti Á allra vörum 250.000 króna styrk af ráðstöfunarfé ráðherra

 Bára Tómasdóttir, fulltrúi forvarnarátaksins Eitt líf og Minningarsjóðs Einars Darra, tók við styrknum úr hendi ráðherra. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, veitti fulltrúum söfnunarátaksins Á allra vörum styrk af ráðstöfunarfé ráðherra að upphæð 250.000 kr. í húsakynnum félagsmálaráðuneytisins í dag.

Á allra vörum er árlegt kynningar- og fjáröflunarátak þar sem þjóðin sameinast um ákveðið málefni og lætur gott af sér leiða. Átakið var sett á laggirnar árið 2008 og í ár er það forvarna- og fræðsluátakið „Eitt líf" sem nýtur stuðnings þess, en það byggir á Minningarsjóði Einars Darra. Eitt líf gengur út á að fræða foreldra, kennara, börn og ungmenni um þá hættu sem fylgir neyslu vímuefna og lyfseðilsskyldra lyfja.

Þær Bára Tómasdóttir og Andrea Ýr Arnarsdóttir, sem fara fyrir forvarnarátakinu Eitt líf, gengu jafnframt um húsakynni félagsmálaráðuneytisins og buðu til sölu gloss til stuðnings Á allra vörum. 

„Ég hef lagt mikla áherslu á það að efla snemmtæka íhlutun til að grípa börn og ungmenni áður en það er um seinan. Opinberu kerfin okkar þurfa síðan að vinna betur saman með þessa hugsun að leiðarljósi og jafnframt að vera óhrædd við að vinna með grasrótarhreyfingum. Ég bind vonir við að þetta átak verði bæði til þess að bjarga ungu fólki og beina sjónum okkar að því hve miklu við getum áorkað með aukinni samvinnu þvert á kerfi,“ sagði Ásmundur Einar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum