Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framtíðarstefna um samræmt námsmat: Tillögur kynntar

Starfshópur hefur skilað tillögum um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa til mennta- og menningarmálaráðherra. Í tillögunum felst umtalsverð stefnubreyting frá núverandi fyrirkomulagi samræmdra prófa í grunnskólum. Lagt er til að í stað þeirra verði þróuð ný matstæki í ýmsum námsgreinum með áherslu á fjölbreytt, stutt og hnitmiðuð rafræn próf og verkefni.

Hópurinn leggur til að nýja fyrirkomulagið verði kallað matsferill. Áhersla verði lögð á leiðbeinandi námsmat sem komi til móts við fjölbreytta kennsluhætti og einstaklingsmiðað nám og leiðsagnarmat. Skólar og nemendur hafi valfrelsi um að nýta sér prófin með þeirri undantekningu að skólum beri að leggja fyrir ákveðin próf í íslensku og stærðfræði. Gefa eigi kost á sveigjanlegri fyrirlögn prófa í matsferlinum.

Þá leggur starfshópurinn til að skilgreindur verði námsmatsrammi sem veiti ítarlegar upplýsingar um markmið og hlutverk alls skipulagðs námsmats á mismunandi skólastigum. Með slíkum ramma deili allir sömu sýn á tilgang námsmats og tímasetningar þess, birtingu niðurstaðna og í hvaða röð ólíkir námsþættir væru kannaðir. Góð reynsla er af notkun slíkra námsmatsramma í nágrannalöndunum.

„Ég fagna tillögum hópsins og tel jákvætt að þar er samhljóm finna með áherslum í annarri umbótavinnu á vettvangi ráðuneytisins, til dæmis varðandi mikilvægi starfsþróunar kennara. Samræmt námsmat er mikilvægt verkfæri til þess að efla menntakerfið – til að hvetja nemendur og gefa þeim tilfinningu fyrir því hvar þeir standa, fyrir kennara til þess að mæla árangur af sínum aðferðum og áherslum og fyrir skólastjórnendur og menntayfirvöld til þess að fylgjast með þróun mála. Við verðum hins vegar að tryggja að mat sé gagnlegt öllum, um það ríki sátt og skilningur og að áherslur þess séu í samhengi við áherslur aðalnámsskrár. Við viljum stuðla að skýrri og skjótri endurgjöf fyrir nemendur og kennara, tillögur hópsins geta stutt það markmið okkar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Tillögur starfshópsins má kynna sér nánar í skýrslu hans. Þær eru nú til umfjöllunar innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Skýrslan er mikilvægt leiðarljós við áframhaldandi þróun á samræmdu námsmati í skólum þar sem áhersla er lögð á að veita nemendum markvissa endurgjöf í námi sínu og kennurum og skólum upplýsingar til umbóta. Framtíðarfyrirkomulag samræmdra könnunarprófa í skólakerfinu verður ákveðið með tilliti til niðurstöðu úr rýni ráðuneytisins en samræmd könnunarpróf í grunnskólum verða áfram í núverandi mynd þangað til annað verður ákveðið.

Starfshóp um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa skipuðu dr. Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, formaður, án tilnefningar, Margrét Harðardóttir, án tilnefningar, Þórður Kristjánsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Helgi Arnarson, tilnefndur af Grunni, félagi fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum, Brynhildur Sigurðardóttir, tilnefnd af Skólastjórafélagi Íslands, Hjördís Albertsdóttir, tilnefnd af Félagi grunnskólakennara, Þorvar Hafsteinsson, tilnefndur af Heimili og skóla, Eðvald Einar Stefánsson, tilnefndur af Umboðsmanni barna, og Sverrir Óskarsson, tilnefndur af Menntamálastofnun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum