Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Samgönguvika hefst á laugardag

Evrópsk samgönguvika - mynd

„Förum lengra – samferða“ er yfirskrift Evrópskrar samgönguviku í ár, en hún hefst á laugardag 16. september, á Degi íslenskrar náttúru. Um er að ræða samevrópska viku sem árlega stendur yfir dagana 16. – 22. september.

Þema vikunnar vísar til þess ávinnings sem hlýst af því að ferðast saman á milli staða. Með því að deila farartæki, sem geta verið af ýmsum toga, s.s. að nota deililausnir á borð við leiguhjól, fara samferða á einkabíl eða nýta sér almenningssamgöngur, má ná niður ferðakostnaði hvers og eins um leið og sótspor viðkomandi minnkar til muna. Þannig má með samstilltu átaki komast lengra í átt að sjálfbærni almennt og bókstaflega í kílómetrum talið fyrir hverja krónu sem samgöngurnar kosta. Þá má ekki gleyma þeim ávinningi sem er af því að njóta samveru við aðra meðan á ferðum stendur.

Fjöldi viðburða verða á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka í vikunni en nálgast má dagskrá á vef Stjórnarráðsins, á heimasíðum  sveitarfélaganna, auk Facebook síðu vikunnar.

Þannig verður boðið í hjóla- og göngutúra, efnt til ljósmyndasamkeppni, efnt til hjólreiðamóts, nýir hjóla- og göngustígar opnaðir, fundað um samgönguáætlanir fyrirtækja og bílastæði fá frí svo fátt eitt sé nefnt. Þá ekur heilmerktur strætisvagn með samgönguvikukrúttunum um götur höfuðborgarinnar í vikunni.

Ráðstefnan Hjólað til framtíðar verður haldin í sjöunda sinn í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og fleiri aðila en markmið hennar er að ýta undir fjölbreytta ferðamáta og auka veg hjólreiða á Íslandi. Í ár er þema ráðstefnunnar „Ánægja og öryggi“.

Vikan endar svo á „frídegi bílsins“, 22. september þegar almenningur er hvattur til þess að skilja bílinn eftir heima og til að auðvelda það býður Strætó ókeypis í strætó á höfuðborgarsvæðinu og sem endranær á Akureyri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira