Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Húsnæðisþörf metin fyrir iðn- og tæknimenntun

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað starfshóp um greiningu á húsnæðisþörf fyrir iðn- og tæknimenntun á Íslandi. Aðsókn í slíkt nám hefur aukist mikið undanfarið, m.a. vegna aukinnar áherslu stjórnvalda á eflingu þess.

„Viðbúið er að aðsóknin verði áfram mikil og við þurfum að geta boðið nemendum upp á nútímalega aðstöðu, sem tekur mið af örri þróun innan greinanna. Víða er kennsluaðstaða fullnýtt eða óhentug og því er þörf á heildstæðri endurskoðun á húsnæðismálunum. Góð kennsluaðstaða er mikilvægur þáttur í eflingu iðnmenntunar til framtíðar og því mun starfshópurinn gera þarfagreiningu á landsvísu, sem svo nýtist til úrbóta og stefnumótunar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Iðn- og tækninám er kennt í um 14 framhaldsskólum vítt og breitt um landið en aðstaða í skólunum er misjöfn. Stærsti framhaldsskóli landsins er Tækniskólinn, en hann sækja 2400 um nemendur í dagskóla og um 730 í fjarnámi. Starfsemi þess skóla fer nú fram í níu byggingum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið sem hentar í mörgum tilfellum illa og er kostnaðarsamt að aðlaga að þeim kröfum sem gera þarf til iðn- og tæknináms.

Starfshópinn skipa:

Jón Björgvin Stefánsson formaður, án tilnefningar,
Ragnheiður Bóasdóttir, án tilnefningar,
Guðmundur Axel Hansen, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra,
Hróðný Njarðardóttir, tilnefnd af Framkvæmdasýslu ríkissins.

Ráðgert er að starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra fyrir 1. desember 2020.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum