Hoppa yfir valmynd
4. desember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundur Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu

Ágætu fundarmenn.

Það er mér sérstök ánægja á þessum tímamótum að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur sem eruð félagsmenn í félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu. Við sem hér erum í dag stöndum öll á tímamótum. Framundan eru miklar breytingar og í þeim breytingum felast umtalsverð tækifæri fyrir okkur öll. Það vil ég undirstrika hér í upphafi máls míns.

Eins og ykkur er kunnugt um þá er í frumvarpi sem mælt hefur verið fyrir á Alþingi kveðið á um að málefni aldraðra flytjist frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins þann 1. janúar næstkomandi. Jafnframt er gert ráð fyrir því að lífeyristryggingar og lög um félagslega aðstoð og yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins flytjist frá sama tíma til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Frumvarpið er nú til umfjöllunar hjá félags- og tryggingamálanefnd og heilbrigðisnefnd Alþingis og hugsanlegt er að þar taki það einhverjum breytingum enda þótt verkefnaflutningurinn verði í grundvallaratriðum sá sem ég fer nú yfir með ykkur í nokkrum orðum.

Ég vil segja það hér í upphafi að ég fagna þeim breytingum sem nú eru framundan enda eru þær í samræmi við þau meginsjónarmið sem komið hafa fram hjá hagsmunasamtökum eldri borgara og lífeyrisþega árum saman. Ég hef líka fundið fyrir mjög jákvæðum viðbrögðum við þessum breytingum í umræðum um málið á Alþingi og meðal þeirra sem starfa á þessum sviðum. Það er góðs viti. Fyrir mig sem stjórnmálamann er afar mikilvægt að finna fyrir slíkum meðbyr og hafa það sterklega á tilfinningunni að verið sé að svara kalli samfélagsins.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þau verkefni sem framundan eru verða krefjandi og ögrandi og ég vil undirstrika að ég vil takast á við þau með fulltrúum þeirra sem starfa í öldrunarþjónustunni. Mikilvægt er í mínum huga að leita í smiðju þeirra sem best þekkja og leita eftir ykkar liðsstyrk við þá stefnumótun og uppbyggingu sem framundan er á næstu misserum og árum. Ég vil líka kalla til liðs við mig fulltrúa eldri borgara. Ég tók í síðastliðinni viku þátt í mjög fjölmennum fundi á vegum Félags eldri borgara í Reykjavík og finn að margt brennur á þeim hópi og aðstandendum aldraðra. Ég finn líka að væntingar til breytinga eru miklar og ég vona svo sannarlega að mér takist með samstilltu átaki með ykkur og eldri borgurum að mæta þeim með faglegum og uppbyggilegum hætti.

Þær breytingar sem varða málefni aldraðra og lífeyristryggingar eru líklega umfangsmestu breytingar sem ráðist hefur verið í innan Stjórnarráðsins frá upphafi.

Það þarf umtalsverðan kjark og þor til þess að ráðast í þær og fylgja þeim eftir þannig að sómi sé að og þessir málaflokkar öðlist þann sess sem þeir eiga svo sannarlega skilið. Það er mikil vinna að baki og ekki minni vinna framundan við að greina einstaka þætti sem flytjast á milli og ég hef lagt áherslu á að þær breytingar sem framundan eru bitni ekki á þeim sem þjónustunnar njóta en bæti hana hins vegar þegar til frambúðar.

Meginmarkmið með þeim breytingum sem framundan eru er að efla þjónustu við aldraða og lífeyrisþega, setja hana í forgang og gera hana markvissari og sýnilegri en verið hefur. Ég hef undirstrikað að í þeirri vinnu sem framundan er verði bætt þjónusta við almenning höfð að leiðarljósi í hverju skrefi.

Auðvitað á það alltaf að vera leiðarljós okkar stjórnmálamannanna en þegar litið er til baka virðist það því miður alltof oft hafa gleymst hjá þeim sem hafa verið við stjórnvölinn. Jafnvel smávægilegar breytingar hafa snúist upp í andhverfu sína og vísa ég þar meðal annars til lífeyrismálanna.

Lífeyristryggingar, málefni aldraðra og yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins munu í framtíðinni heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneytið verði frumvarpið að lögum og vissulega eru þeir málaflokkar nátengdir starfsemi á sviði öldrunarþjónustu og meðal annars greiðslum vistmanna. Það er að mínu mati mikilvægi að horfa á heildarmyndina og aðstæður eldri borgara í samhengi þegar stjórnvöld móta stefnu á báðum þessum sviðum.

Þegar er unnið að einföldun og eflingu almannatryggingakerfisins á vegum félagsmálaráðuneytisins í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Verkefnisstjórn og ráðgjafarnefnd, með aðkomu Landssambands eldri borgara, fjalla þessa dagana um margvíslegar tillögur til úrbóta og bind ég miklar vonir við starf þessara hópa. Ég tel afar mikilvægt að breytingarnar komi þeim vel sem minnst hafa og séu gagnsæjar. Meðal annars hefur þar verið fjallað um breytingar að því er varðar skerðingar vegna tekna maka og séreignalífeyrissparnaðar, endurkröfur vegna ofgreiðslna og fyrirkomulag á greiðslum vasapeninga.

  

Ágætu stjórnendur.

Ég mun nú víkja að þeirri mikilvægu breytingu að yfirstjórn öldrunarmála færist frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis þann 1. janúar næstkomandi. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi sem kveður á um verkefnaflutninginn endurspeglar þessi breytta stefnumörkun það viðhorf að öldrun sé ekki sjúkdómur sem kalli á heilbrigðisþjónustu heldur almenna öldrunar- og umönnunarþjónustu.

Eins og þið þekkið hefur ítrekað verið vitnað til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2005 þar sem fram kemur að um 7% aldraðra njóti sérstakrar heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum fyrir aldraðra. Nú er það svo að þessar tölur eru ekki óyggjandi í dag og að við verðum að fylgjast mjög vel með þróuninni, breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og þróun öldrunarþjónustu bæði hér á landi og erlendis.

Samkvæmt spám Hagstofunnar mun fjöldi Íslendinga 67 ára og eldri tvöfaldast til ársins 2045 þannig að verkefnið er ærið. Við verðum líka að horfast í augu við þá staðreynd að stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir of litla og of hæga uppbyggingu í þjónustu við aldraðra. Þetta hljótum við öll að viðurkenna og ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta hefur brunnið á ykkur sem dag hvern eigið í samskiptum við aldraða og aðstandendur þeirra. 

Í nútímaþjóðfélaginu er hraðinn mikill, allir eru uppteknir og sú samtrygging og það þjónustunet sem menn áður bjuggu að innan stórfjölskyldunnar er ekki lengur fyrir hendi.

Allt er spennt til hins ýtrasta og fólk er vel upplýst, bæði eldri borgarar og aðstandendur þeirra, og er það vel. Fólk vill þjónustu og þá þjónustu sem uppfyllir þeirra einstaklingsbundu þarfir og þarfir stórfjölskyldunnar. Það er okkar úrlausnarefni að mæta þessum aðstæðum.

Ég tel að í þeim breytingum sem framundan eru felist mikil tækifæri til heildstæðrar stefnumótunar og uppbyggingar fjölbreyttrar þrepaskiptrar þjónustu í þágu aldraðra. Yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og forræði úthlutunar úr sjóðnum færist jafnframt til félags- og tryggingamálaráðuneytis og fjármunum úr Framkvæmdasjóði aldraðra verður sem fyrr varið til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Ég vil sjá að unnið verði að mótun og uppbyggingu sveigjanlegrar þjónustu í þágu 67 ára og eldri í fjölbreyttum búsetuúrræðum allt frá eigin heimilum til búsetu á hjúkrunarheimilum.

Markmiðið er vissulega að flestir geti búið sem lengst heima ef þeir kjósa svo og aðstæður gera þeim það kleift.

Þannig léttum við á bið eftir vistun á öldrunarstofnunum og tryggjum að þjónustuþörf þess hóps sem þar dvelur til lengri eða skemmri tíma sé á svipuðu stigi.  Ég vil eins og ég nefndi hér áður að jafnframt verði unnið að breytingum á greiðslufyrirkomulagi á öldrunarstofnunum þannig að það samrýmist grundvallarsjónarmiðum okkar um mannréttindi og að allir upplifi fullt fjárræði og sjálfræði. Það er grundvallaratriði í mínum huga og ég þykist viss um að mörg ykkar sem eruð í öldrunarþjónustunni eruð sammála mér um þetta atriði.

Þið viljið vissulega fá nánari greiningu á þeim breytingum sem nú eru að verða á ykkar umhverfi. Varðandi einstakar stofnanir þá gera þær breytingar sem framundan eru ráð fyrir því að heilbrigðisstofnanir sem í dag eru reknar á vegum ríkisins, sem hluti af heilbrigðisstofnunum ríkisins, verði áfram undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra jafnvel þótt þar séu í dag rekin hjúkrunarrými og hjúkrunarheimili eða jafnvel dvalarrými.

Hér á ég til dæmis við Sólvang í Hafnarfirði, Víðhlíð í Grindavík og hjúkrunarheimilið í Bolungarvík. Framtíðaruppbygging og stefnumótun og yfirumsjón með hjúkrunarheimilum og öðrum öldrunar- og dvalarstofnunum, sem ekki eru reknar í beinum tengslum við heilbrigðisstofnanir ríkisins, munu frá 1. janúar 2008 heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Heilbrigðisráðherra ber þó samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu ávallt ábyrgð á þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er, hvort sem um aldraða eða unga er að ræða, og landlæknisembættið einnig. Um þá heilbrigðisþjónustu gilda nýsamþykkt lög um heilbrigðisþjónustu sem fjalla um heilbrigðisþjónustu óháð aldurshópum og í þeim lögum er hvorki sérákvæði um öldrunarþjónustu né heildstæða uppbyggingu hennar. Þetta er jafnframt undirstrikað í breytingu sem gerð verður á lögum um málefni aldraðra.

Ákvæði um uppbyggingu öldrunarþjónustunnar eru hins vegar sem fyrr í lögum um málefni aldraðra. Þar verður kveðið á um að félags- og tryggingamálaráðherra fari með yfirstjórn öldrunarmála og annist stefnumótun og áætlanagerð fyrir landið í heild um málefni aldraðra og hafi eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Jafnframt skal ráðuneytið beita sér fyrir almennri umræðu og kynningu á stöðu og valkostum aldraðra.

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra, sem frá 1. janúar 2008 mun heyra undir félags- og tryggingamálaráðherra, á

  • að vera félags- og tryggingamálaráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra,
  • að vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra og
  • að stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum.

 

Eins og þið þekkið þá er í lögum um málefni aldraðra kveðið á um að til öldrunarþjónustu teljist eftirfarandi þjónusta við aldraða:

  • Heimaþjónusta
  • Þjónustumiðstöðvar aldraðra
  • Dagvist aldraðra
  • Þjónustuíbúðir aldraðra
  • Dvalarheimili, sambýli og íbúðir sérhannaðar fyrir þarfir aldraðra og síðast en ekki síst hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum.

 

Öll framangreind starfsemi heyrir frá 1. janúar 2008 undir félags- og tryggingamálaráðherra fyrir utan þau hjúkrunarrými sem í dag eru á heilbrigðisstofnunum ríkisins. Ég vek sérstaka athygli ykkar á því að þetta kemur ekki fram í fjárlagafrumvarpinu eins og það hefur birst ykkur þar sem hin tæknilega yfirferð er nú að hefjast varðandi skiptingu daggjaldanna.

Við heilbrigðisráðherra munum fara yfir það á næstu vikum hvernig þeim verður skipt og hvernig við háttum samstarfi okkar og samskiptum við ykkur í framtíðinni. Fyrir liggur að nú á vorþingi verði gerðar frekari lagabreytingar ef þörf þykir en þær kunna líka að varða sjúkratryggingahlutann og lífeyrishlutann en á þessu stigi er óráðið hvort á vorþingi verði lagt fram nýtt frumvarp til laga um málefni aldraðra eða önnur ný löggjöf um þjónustu við aldraða sem ég tel rétt að skoða nú í þeirri stefnumótun með sérfræðingum og hagsmunaaðilum.

Slíkt tekur lengri tíma og hlýtur að byggja á nýrri stefnumótun og nýrri sýn. Ég vil meðal annars sjá heildstæða mynd varðandi dagvistun, hvíldarinnlagnir og þjónustu við aldraða Alzheimersjúklinga. Þessi þjónusta er mjög einstaklingsbundin og mjög samtvinnuð við félagslegar aðstæður viðkomandi og fjölskyldunnar í heild. Þetta er hluti af því heildarneti sem kveðið er á um í lögum um málefni aldraðra og heyrir undir þau lög.

Á því leikur ekki neinn vafi í mínum huga. Þjónusta á öldrunarstofnunum er mjög margþætt, hvort sem er á sólarhringsstofnunum eða vegna dagvistar eða hvíldarinnlagna, það þekkið þið manna best. Í lögum um málefnum aldraðra gerir rauði þráðurinn ráð fyrir því að þjónusta skuli byggð á mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraðra eins og segir í ákvæði laganna um hjúkrunarheimili og hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum.

Þetta eiga að vera heimili en ekki sjúkrarúm eins og ef um er að ræða bráðaþjónustu eða skurðaðgerðir. Hér er grundvallarmunur á sem ég vil virða og byggja út frá. Virðing við einstaklinginn og mannréttindi hljóta að vera grunntónninn sem við viljum að sleginn verði. Það heyri ég bæði hjá ykkur sem starfið í þjónustunni og stýrið henni og hinum öldruðu og aðstandendum þeirra. Við eigum að vera stolt af þessum sérkennum þjónustu við aldraða og hlúa að þeim alls ófeimin í samanburði við hátæknina sem er líka góðra gjalda verð og nauðsynleg þegar á þarf að halda.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að fyrir ykkur væri best að þurfa aðeins að skipta við einn ráðherra og hugsanlegt er að við finnum sameiginlegan flöt á því.

Það er hins vegar ljóst að um heilbrigðisstarfsemi gilda almennt lög um heilbrigðisþjónustu hvar sem hún er veitt hér á landi og heilbrigðisyfirvöld, ráðuneytið og landlæknisembættið eiga að hafa eftirlit með því að hún sé á hverjum tíma í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu og að heilbrigðisstarfsmenn uppfylli þær faglegu kröfur sem gerðar eru. Allt annað, svo sem nýbyggingar, viðhald og framtíðaruppbygging og heildarstefnumótun þjónustunnar og hvers kyns félagslegrar þjónustu og heildarmyndin og heildarútkoman, verður á minni ábyrgð.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta kann að hljóma flókið og víst er að framundan er vinna við margvíslega greiningarvinnu sem mikilvægt er að fara nú í gegnum og nota við þá framtíðaruppbyggingu sem nú er að hefjast.

Hér er gott samstarf á milli okkar ráðherranna lykilatriði þannig að við tölum einni röddu við ykkur og framtíðarsýn mín er sú að þið þurfið ekki að leita á nema einn stað þar sem miðstöð uppbyggingar öldrunarþjónustu er fyrir hendi og þá hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Þessar breytingar eiga að vera ykkur sem starfið í þjónustunni til hagsbóta á sama hátt og hinum öldruðu. Í þeim breytingum sem framundan eru má Stjórnarráðið ekki undir nokkrum kringumstæðum vera hamlandi í þeim samskiptum. Markmiðið með breytingunum er aukin skilvirkni og skýrari forgangsröðun á sviði öldrunarþjónustu.

Ég vil undirstrika að enda þótt stefnumótun í málefnum aldraðra heyri undir félags- og tryggingamálaráðuneytið verður í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og samþykktir Sambands íslenskra sveitarfélaga markvisst unnið að því að flytja þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga. Ég er þeirrar skoðunar að slík nærþjónustu eigi best heima sem næst þeim sem hennar njóta þannig að þekking á aðstæðum og sveigjanleiki þjónustu sé tryggður. Sveitarfélög á Norðurlöndunum hafa annast rekstur þjónustu við aldraða í áratugi og þar má meðal rekstur hjúkrunarheimila.

Í þeim breytingum og þeirri framtíðarstefnumótun sem framundan eru á samþætting þjónustu og sveigjanleiki hennar að vera grunntónninn. Að þessu er þegar unnið á vegum félagsmálaráðuneytisins og ég á von á að fá nú á morgun tillögur frá verkefnisstjórn um verkefnaflutning þar sem fjallað verður sérstaklega um möguleika á flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga á sviðum málefna aldraðra og fatlaðra.

Ég vonast til þess að þær verði innlegg í áframhaldandi vinnu við þetta verkefni á næstu mánuðum og misserum. Ég fæ ekki séð af hverju við getum ekki byggt þessa nærþjónustu upp með sveitarfélögunum hér eins og gert er á öðrum Norðurlöndum. Þar búa menn víða í mjög dreifðum og fámennum byggðarlögum, svo sem nyrst í Noregi og Finnlandi. Þar eiga að ýmsu leyti við svipuð sjónarmið og hér á landi og menn hafa byggt upp mismunandi aðferðir til að tryggja sem jafnasta þjónustu.

Það er mín persónulega skoðun að við eigum að stefna að því að sett verði hér á landi ein heildstæð löggjöf um félagslega þjónustu eða velferðarþjónustu sveitarfélaga sem taki til hvers kyns slíkrar þjónustu á vegum sveitarfélaga og þá meðal annars til fjölbreyttar þjónustu bæði við aldraða og fatlaða. Við eigum að setja okkur sameiginleg markmið, ríki og sveitarfélög, hvað varðar þjónustu við aldraða utan stofnana sem innan sem byggir á því að flestir geti búið heima sem lengst.

Að mínu mati eigum við jafnframt að vinna að öflugri samþættingu heilsugæslu og félagsþjónustu á eina hendi innan sveitarfélaga um land allt undir merkjum heildarsýnar í velferðarþjónustu. Ég hef þegar rætt við borgaryfirvöld í Reykjavík um þessa sýn og finn fyrir miklum áhuga hjá þeim á að koma í þessa vegferð með okkur nú.

Ég tel til dæmis að við eigum að skoða það af fullri alvöru að færa það sem nefnt hefur verið „Akureyrarmódelið“ inn í einstök hverfi í Reykjavík og sé fyrir mér að hægt yrði að byggja upp öldrunarþjónustu í einstökum hverfum út frá sterkum kjörnum sem þar eru þegar fyrir hendi. Með því á ég við að byggð verði upp sveigjanleg þjónusta þar sem heildarmyndin er skýr út frá öllum hugsanlegum þjónustustigum og eldri borgarar ekki flokkaðir í tiltekna hópa heldur litið á þá út frá einstaklingsbundum þörfum. Það á að bjóða 75 ára og eldri upp á sveigjanlega þjónustu ef þeir kjósa að þiggja hana en ekki steypa alla í sama mót.

Þið hafið unnið frábært uppbyggingar- og þróunarstarf bæði í Reykjavík og víða um land og við eigum að nýta okkur það sem vel hefur verið gert þannig að góðar lausnir nýtist okkur öllum og þeim sem við eigum að þjóna frá degi til dags. Mér finnst afar mikilvægt að vel takist til um að byggja upp öfluga heimaþjónustu og heimahjúkrun samhliða uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þetta eru allt hornsteinar þjónustunnar sem mynda eiga öfluga heildarumgjörð.

Ég sagði hér áðan að viðfangsefni næstu ára væru margþætt. Markmið ríkisstjórnarinnar í stefnuyfirlýsingunni eru skýr bæði varðandi það að málefni aldraðra verði sett í forgang og varðandi uppbyggingu hjúkrunarrýma. Sú uppbygging sem stefnt er að er margþætt og lýtur að margvíslegum úrlausnarefnum að því er varðar fjölbreytta uppbyggingu úrræða. Við verðum líka að vinna að því að útrýma fjölbýlum og að byggja upp hjúkrunarheimili sem líkust raunverulegum heimilum fólks eins og best þekkist hér á landi og í nágrannalöndum okkur.

Við höfum því miður verið eftirbátar Norðurlandaþjóðanna í þessari uppbyggingu þegar á heildina er litið. Við gerum okkur hins vegar öll vel grein fyrir því að slík uppbygging er til einskis ef við höfum ekki gott starfsfólk til þess að sinna þjónustunni á öllum stigum.

Umönnunarstörf hafa verið og eru því miður enn metin lágt til launa og viðvarandi mannekla hefur verið og mun verða vandamál ef ekkert verður að gert. Mikil þensla undanfarinna ára hefur svo sannarlega ekki bætt úr skák. Ég vil leita allra leiða til þess að snúa þessari óheillaþróun við og ég treysti því að aðilar vinnumarkaðarins taki þátt í því með stjórnvöldum í komandi kjarasamningum.

Misskiptingin kemur víða fram og það er skammarlegt fyrir okkur ef það bitnar á þjónustu við aldraða.

   

Góðir fundarmenn.

Ég vil undirstrika að í þeim breytingum sem framundan eru felast mikil sóknarfæri fyrir stjórnvöld og þá sem vinna í öldrunarþjónustunni og þá ekki síst fyrir ykkur sem henni stýrið. Ég hef einsett mér að vinna þá stefnumótun sem framundan er í náinni samvinnu við ykkur og hagsmunasamtök eldri borgara og lífeyrisþega og sveitarfélög um land allt. Með mikilli og góðri samvinnu við ykkur og þessa aðila munu stjórnvöld ná þeim markmiðum og langtímaárangri sem stefnt er að. Framundan eru áhugaverðir tímar breytinga og uppbyggingar sem svo sannarlega verður spennandi að takast á við.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum